Læknablaðið - 15.10.1986, Síða 24
256
LÆKNABLAÐIÐ
eða 30% við 23/24 mörkin. Fylgni milli álits
starfshópa á glöpum sjúklinga og niðurstaða
prófsins reyndist þó dágóð (R2 = 0,504-0,675).
Gott samræmi er á milli þessarar athugunar á
notkun MMS og erlendra rannsókna.
Einstaklingar með vinnugreininguna glöp fengu í
þessari athugun að meðaltali um 10 stig, sem er
mjög svipað og aðrir hafa fundið (3). Þunglyndu
sjúklingarnir fá um 18 stig, svipað því, sem aðrir
hafa fundið hjá sjúklingum með þunglyndisglöp
(3). Hins vegar voru ekki nema 6 sjúklingar með
þunglyndi sem rannsóknar- og meðferðarvanda á
öldrunarlækningadeild hér, sem eru of fáir til
þess að draga ályktanir af.
Orsakir glapa er ekki hægt að greina með
prófinu. Þó að niðurstöður tölvusneiðmynda af
höfði virðist benda til, að heilarýrnun sé tengd
truflun á athygli, minni og næmi, þá er þörf á að
gera mun viðameiri rannsókn til að athuga þau
tengsl nánar. Niðurstöður fyrri athugana hafa
ekki verið á einn veg (4,5). Það er hins vegar
mikilvægt að fá úr þessu skorið, þar sem gera
verður ráð fyrir að einstaklingar með betra næmi,
minni og athygli hafi meiri möguleika til
endurhæfingar.
Við rannsókn á áfengissjúklingum reyndist prófið
nothæft til þess að sýna breytingu, sem verður við
afeitrun, þegar bráir af sjúklingunum. Ákveðin
atriði i sjúkrasögu tengdust árangri sjúklinganna
að lokinni meðferð. Þannig virtist langvinnt
stjórnleysi drykkju standa í sambandi við lélegan
árangur að aflokinni afvötnun. Þetta er í
samræmi við niðurstöður annarra (11). Hér kom
einnig í ljós að saga um alvarleg höfuðhögg virtist
skipta máli fyrir árangur þann, sem sjúklingurinn
nær á prófinu að lokinni afvötnun. Athugunin er
ekki nógu umfangsmikil til að greina hve mikinn
þátt hvort þessara atriða á í að skýra lakan
árangur á prófinu að lokinni afvötnun.
Prófið gefur hugmynd um, að hve miklu leyti
mismunandi þættir vitsmunastarfseminnar jafna
sig. Þó að árangur á prófinu í heild virðist benda
til að sjúklingur sé að smáhressast, þegar
lyfjameðferð vegna fráhvarfs er hætt, kemur í
ljós, að minni og næmi hafa ekkert lagast. Þetta
er í samræmi við aðrar niðurstöður þar sem hefur
fundist, að allt að 4 vikum eftir síðasta sopann þá
væri enn skerðing til staðar (12). Aðrir hafa
fundið skerðingu á vitrænni starfsemi allt að 13
mánuðum frá því, að sjúklingurinn hætti að
drekka. Þeir bentu jafnframt á, að sjúklingar,
sem væru meira skertir væru Iíklegri til þess að
hefja neyslu að nýju (13). Hvort slík skerðing
lagast er óvíst. Við samanburð á
áfengissjúklingum, sem höfðu verið allsgáðir í
eina, þrjár og tuttugu og fimm vikur fannst betri
námsgeta eftir þrjár vikur en eina, en ekki aðrar
marktækar breytingar (14). Þetta gæti bent til að
slíkir sjúklingar þyrftu sérstaka meðferð sem
miðast að því að hindra áfengisneyslu í von um að
draga úr áhrifum skerðingarinnar og til að breyta
neysluvenjum. MMS-prófið er einföld og örugg
aðferð til að fylgja sjúklingunum eftir og athuga
hvort dregur úr skerðingunni á fyrstu 1-3 vikum
meðferðar og velja þannig sjúklinga fyrir
mismunandi meðferðarform.
Við samanburð á töflum VI og VIII og mynd 2
kemur í ljós, hversu lík dreifing er á stigafjölda,
sem áfengissjúklingar fá og háaldraðir, sem búa í
þjónustuíbúðum, þrátt fyrir um 45 ára mun á
meðalaldri. Stigafjöldi áfengissjúklinganna við
komu er sambærilegur og hjá öldungunum og við
útskrift er minni og næmi svipað og hjá þeim
gömlu. Þetta rennir stoðum undir tilgátur er lúta
að því, að áfengi valdi skaða ekki ósvipuðum og
gerist við ellihrörnun. Sambærilegar niðurstöður
hafa fundist við samanburð á áfengissjúkum
konum og gömlum konum (15) og hjá
áfengissjúkum körlum og gömlum körlum (16).
Þessar athuganir sýndu, að á ítarlegum
taugasálfræðiprófum var árangur
áfengissjúklinganna sambærilegur við árangur
mun eldri einstaklinga. Gilti þetta sérlega
varðandi skammtímaminni og afstæða hugsun.
Hérlendis sem annars staðar reynist MMS vera
hentugt próf til þess að meta glöp. Það tekur um
5-10 mínútur í notkun. í því eru fá atriði, sem eru
persónulegs eðlis, sem sjúklingnum gæti fundist
óþægilegt að svara, og það er því honum og þeim,
sem leggur prófið fyrir óþægindalítið. Þrátt fyrir
eða vegna einfaldleika síns er prófið allöruggt við
mat á glöpum, og má því nota það til skimleitar
eða til að meta algengi glapa. Vegna mikils
stöðugleika gefur prófið möguleika á því að
fylgja þróun glapa eftir og með því að skoða
einstaka þætti þess má sjá hvernig þeir batna eða
versna eftir því sem breyting verður á
sjúklingnum. í þessari athugun kom i ljós mjög
hátt algengi glapa meðal aldraðra, sérstaklega á
sjúkrahúsum, og jafnframt að læknar og
hjúkrunarfræðingar eru ekki nægjanlega á verði
gagnvart þessum alvarlegu einkennum. Einnig eru
áfengissjúklingar, þrátt fyrir að þeir séu til muna
yngri, með verulega skerðingu á
vitsmunastarfsemi jafnvel eftir að
fráhvarfsmeðferð er lokið.
Þakkir: Ársæll Jónsson sérfræðingur í öldrunarsjúkdómum á
Borgarspítala og Gunnar Sigurðsson yfirlæknir