Læknablaðið - 15.10.1992, Blaðsíða 29
LÆKNABLAÐIÐ 1992; 78: 335-9
335
Hrefna Guömundsdóttir1), Helgi Jónsson2), Haraldur Briem')
LIÐSÝKINGAR Á BORGARSPÍTALA OG
LANDSPÍTALA 1986-1990
ÁGRIP
Gerð var afturvirk rannsókn á 40 sjúklingum
eldri en 16 ára sem legið höfðu á
Borgarspítala og Landspítala vegna sýkingar
í liði á árunum 1986 til 1990.
Tuttugu og þrír sjúklingar höfðu jákvæðar
liðvökvaræktanir og töldust þeir hafa
staðfesta liðsýkingu. Tíu þeirra höfðu sögu
um inngrip í lið, sjö höfðu aðra sýkingu,
tíu höfðu gigtareinkenni og fimm höfðu
aðra áhættuþætti. Aðeins einn sjúklingur
hafði engan þekktan áhættuþátt. Algengustu
liðsýkingar voru í hnjám (n=12) og axlarliðum
(n=7). Staphylococcus aureus var algengasti
sýkillinn (n=17). Ellefu sjúklingar hlutu
verulegar liðskemmdir. Þrír dóu í legunni
og tengdist sýkingin dánarorsök hjá tveimur
þeirra. Hjá tíu sjúklingum var sterkur grunur
um sýkingu í liði en liðvökvaræktun var
neikvæð. Fimm þeirra höfðu sár yfir liðnum
og höfðu þeir jafnframt merki um sýkingu
í beini og ræktaðist S. aureus í öllum
tilvikunum.
Sjö sjúklingar voru með sýkingu í gerviliði.
Klasakokkar voru algengastir, S. aureus
(n=3) og S. epidermidis (n=2). Meira bar á
gram neikvæðum stöfum (n=3) og blandaðri
sýkingu (n=2) heldur en hjá sjúklingum
sem ekki höfðu gervilið. Miðað við fyrri
sambærilegar rannsóknir hérlendis hefur tíðni
liðsýkinga farið vaxandi og er algengara að
sjúklingar sýkist vegna liðástungu.
INNGANGUR
Sýking í liði er alvarlegt vandamál og
getur aðdragandi þessarar sýkingar verið
með ýmsum hætti. Margir áhættuþættir
eru þekktir fyrir sýkingu í liði. Þannig eru
sykursjúkir, sjúklingar með liðbólgur og
ónæmisbældir einstaklingar í aukinni áhættu
Frá 1) lyflækningadeild Borgarspitala og 2) lyflækningadeild
Landspítala. Fyrirspurnir, bréfaskipti: Haraldur Briem, lyf-
lækningadeild Borgarspítala, 108 Reykjavík.
fyrir liðsýkingum (1,2). Hvers konar inngrip
í liði getur einnig valdið liðsýkingu (1-3).
Fjölmarga aðra áhættuþætti mætti nefna, eins
og sýkingu hvar sem er í líkamanum, sár
á húð yfir liði, áverka á eða við liðinn (1).
Athugaðir voru áhættuþættir liðsýkinga og
sýkingavaldar hjá 40 sjúklingum sem lágu á
Borgarspítala og Landspítala á tímabilinu 1986
til 1990. Reiknað var algengi liðsýkinga sem
voru staðfestar með liðvökvaræktun.
EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR
Gerð var tölvuleit að sjúklingum eldri en
16 ára sem legið höfðu á Borgarspítala
og Landspítala á árunum 1986 til 1990
með sýkingu í liði eða beini. Farið var yfir
sjúkrasögu sjúklinganna í leit að orsökum.
Skráðar voru niðurstöður allra ræktana frá
liðvökva, blóði, þvagi og fleiru. Reynt var að
meta afdrif sjúklings með tilliti til hreyfigetu
eða útlits röntgenmyndar við útskrift. Nýgengi
liðsýkinga var miðað við fjölda íbúa í sama
aldurshópi á stór-Reykjavíkursvæðinu og
gerður var samanburður við eldri rannsóknir
um sambærilegt efni.
Sjúklingar voru flokkaðir í eftirtalda hópa:
I hópi I voru sjúklingar með liðsýkingu
staðfesta með jákvæðri ræktun úr liðvökva.
I hópi II voru sjúklingar með sterkan grun
um sýkingu í liði. Einkenni og niðurstöður
rannsókna bentu eindregið á liðsýkingu en
liðvökvaræktun var ýmist ekki tekin eða
reyndist neikvæð. í hópi III voru sjúklingar
með sýkingu í gerviliði.
Reiknað var algengi liðsýkinga sem voru
staðfestar með liðvökvaræktun. Miðað var við
íbúafjölda í sambærilegum aldurshópi á stór-
Reykjavíkursvæðinu. Gerður var samanburður
á tveimur eldri rannsóknum frá árunum 1972
til 1976 (4) og 1977 til 1986 (5). Stuðst
var við Poisson líkindadreifingu við mat á
hvort um marktæka breytingu væri að ræða á
nýgengi milli þessara tímabila.