Fréttatíminn


Fréttatíminn - 03.01.2014, Qupperneq 22

Fréttatíminn - 03.01.2014, Qupperneq 22
U-1064 Þ Það er kominn janúar árið 2014. Hátt ber í þessum fyrsta mánuði nýs árs að Eimskip fagnar aldarafmæli. Eimskipafélag Íslands var stofnað 17. janúar 1914. Með komu fyrstu skipa þess, Gullfoss árið 1915 og Goðafoss nokkru síðar, færðust flutningar til og frá landinu á inn- lendar hendur, hvort heldur voru vöru- eða farþegaflutn- ingar. Áhuginn á félagsstofnuninni var svo mikill að um 15 prósent landsmanna á þeim tíma, um 14 þúsund manns, keyptu hlut í félaginu, auk Vestur-Íslendinga og landssjóðs. Eimskipafélagið kom nokkuð við mína æskusögu enda var afi minn og nafni skipstjóri þar og stýrði mörgum skipum þess, lengst Goðafossi sem einkum var í Ameríkusiglingum en eitthvað sigldi hann til Rúss- lands, auk fjölmargra annarra landa að sjálfsögðu. Ekki fór á milli mála af hvoru stórveldinu afi hreifst, hann gaf ekki mikið fyrir þá kumpána Stalín og Krútsjoff. Bjúkk- inn í hlaðinu á Háteigsveginum var hins vegar tákn hins vestræna stórveldis. Síðustu skipstjórnarár sín, á sjöunda tug liðinnar aldar, fylgdist afi með byggingu nýrra skipa Eim- skipafélagsins og stýrði för Selfoss, Brúarfoss, Skógafoss og Reykjafoss fyrst um sinn. Sjómannsfer- ill hans var langur, allt frá því hann byrjaði sem háseti á gamla Gullfossi Eimskipafélagsins þar til hann tók við sem stýrimaður og síðar skipstjóri. Mest reyndi án efa á hann á stríðsárunum, frá 1939 til 1945. Áfram varð að sigla þótt hættan á hafinu væri gríðarleg. Ís- lensku skipin sigldu í skipalestum sem varin voru af herskipum Bandamanna en kafbátar Þjóðverja voru skeinuhættir og ótalin eru þau skip sem skotin voru niður og margur sjómaðurinn hlaut vota gröf á þess- um skelfingartímum. Þótt þetta hafi verið vel fyrir mína tíð hef ég heyrt lýsingar á ótta þeirra sem heima biðu. Fjölskyldurnar fengu lítið að heyra af ástvinum sínum í þessum hildarleik – stöku skeyti þegar því var við komið, kannski tvö til þrjú orð sem þó glöddu ósegjanlega „All well – Jónas“. Það var það sem fólkið í landi þráði að heyra. En það var ekki alltaf „All well“. Flutningaskip og fiskiskip með dýrmætan farm á leið yfir hafið voru mis- kunnarlaust skotin niður og sagði oft ekki af þeim sem þar mættu örlögum sínum. Hryllingurinn var hins vegar nánast sýnilegur þegar Goðafoss var skotinn niður upp við landsteina haustið 1944 og fjöldi skipverja, farþega og skipbrotsmanna af bresku olíuskipi týndi lífi. Þær hörmungar rifjuðust meðal annars upp um nýliðin jól þegar Sigrún Pálsdóttir rakti á bók örlög íslenskra læknishjóna og þriggja barna þeirra sem fórust með skipinu. Þessi ógnaratburður var landsmönnum enn í fersku minni þegar þau tíðindi bárust, í febrúar 1945, að Dettifoss hefði verið skotinn niður undan Írlandsströnd- um. Það var farið að hilla undir stríðslok, Þjóðverjar voru að þrotum komnir en fjörbrot þeirra beindust, meðal annars, að þessum íslensku skipum. Afi var skip- stjóri á Dettifossi þegar skipið var skotið niður. Margir voru um borð, alls 44, enda voru flutningaskip þess tíma öðrum þræði farþegaskip. Þýskur kafbátur réðst að Dettifossi þar sem hann var í skipalest. Tundurskeyti sundraði skipinu sem hvarf í hafið á aðeins sjö mínútum. Fimmtán manns fórust, tólf skipverjar og þrír farþegar. Afi komst með öðrum á fleka en breskt herskip bjargaði skipbrotsmönnunum um klukkustund síðar og flutti til Skotlands. Hann var fáorður um þennan atburð alla tíð – eða ræddi yfir höfuð ekki – en um áhrif hans þarf ekki að fjölyrða og þung voru sporin þegar hann vitjaði að- standenda þeirra sem fórust í árásinni eftir að heim var komið. Það hef ég eftir öðrum. En lífið hélt áfram og afi stýrði skipum Eimskipafélagsins fram að starfslokum. Ekki veit ég hvort afi grennslaðist fyrir um hver stýrði þýska kafbátnum þennan örlagaríka dag – efast raunar um að hann hafi kært sig um að vita það. Dagbækur þýskra kafbáta eru hins vegar opnar þeim sem rannsaka vilja þennan voðatíma í sögu mannkyns þegar tugmillj- ónir féllu, hermenn og óbreyttir borgarar – og grimmd mannskepnunnar sló fyrri met. Fyrir liggur að það var þýski kafbáturinn U-1064 sem sökkti Dettifossi 21. febrúar 1945. Kafbátsforinginn hét Karl-Hermann Schneidevind, fæddur árið 1907, sjö árum yngri en afi. U-1064 var smíðaður seint í stríðinu, tekinn í gagnið sumarið 1944 en hélt ekki til árása fyrr en í janúarlok 1945. Báturinn grandaði aðeins einu skipi, Dettifossi í febrúar, en Schneidevind kafbátsforingi gafst upp með öðru þýsku herliði 8. maí það sama ár. Þá var kafbáturinn í höfn í Noregi. Áður hafði hann fengið tvo þýska járnkrossa á brjóstið og loks gullkross 19. apríl 1945, kannski fyrir að skjóta niður skip afa míns, skipshöfn hans og farþega. Misjöfnum augum líta menn silfrið. Eftir stríðið köstuðu Sovétmenn eign sinni á kafbát- inn. Hann þjónaði Eystrasaltsflota stórveldisins og var gerður út frá Lettlandi, sem þá var undir krumlu þess. Síðustu ár kafbátsins var skrokkur hans notaður til æf- inga en í mars 1974 var hann loks höggvinn í brotajárn. Á 30 ára ferli kafbátsins varð hann ekki fyrir öðrum skemmdum en smávægilegum, einmitt þegar breska herskipið HMS Fusilier, raunar togari búinn til hern- aðar, varpaði að honum djúpsprengjum eftir að hann hafði sökkt Dettifossi. Það sama skip bjargaði úr sjónum þeim sem af komust í áhöfn Dettifoss. Karl-Hermann Scneidevind kafbátsforingi lifði sem sagt stríðið af og missti engan af áhöfn U-1064 á stuttum stríðsferli kafbátsins. Hann varð hins vegar ekki gamall maður, lést 58 ára í október 1965, sama árið og afi minn hætti sjómennsku. Dettifoss var eina skipið sem þessi kafbátsforingi sökkti á ferli sínum. Jónas Haraldsson jonas@ frettatiminn.is HELGARPISTILL ÚTSALAN HEFST Á MORGUN Lín Design Sími 533 2220 www.lindesign.is Í samstarfi við Rauða krossinn tökum við á móti notuðum fötum & rúmfötum frá Lín Design. Við bjóðum þér 15% afslátt af nýrri vöru. Rauði krossinn kemur notaðri vöru áfram til þeirra sem þarfnast hennar. Öllum þykir vænt um náttúruna Reykjavík & Akureyri 30% afsláttur af öllum eldhúsvörum 30% afsláttur af öllum barnafötum 25-50% afsláttur af öllum barnavörum 25-60% afsláttur af öllum vörum40+ tegundir rúmfata með 25-50% afslætti Sendum frítt úr vefverslun Te ik ni ng /H ar i 22 viðhorf Helgin 3.-5. janúar 2014

x

Fréttatíminn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttatíminn
https://timarit.is/publication/944

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.