Morgunblaðið - 24.12.2011, Qupperneq 44
44 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. DESEMBER 2011
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Heimsljós eftir Halldór Laxness í
leikstjórn Kjartans Ragnarssonar er
jólafrumsýning Þjóðleikhússins, en
frumsýnt verður mánudaginn 26.
desember kl. 19.30. Kjartan er jafn-
framt höfundur leikgerðarinnar, en
hann hefur á löngum ferli leikstýrt á
annan tug eigin leikgerða, þeirra á
meðal eru sýningarnar Bjartur og
Ásta Sóllilja sem hann vann leikgerð
að ásamt Sigríði Margréti Guð-
mundsdóttur upp úr Sjálfstæðu fólki
eftir Halldór Laxness og Þjóðleik-
húsið frumsýndi árið 1999.
Að sögn Kjartans er sýningin nú
þannig tilkomin að Tinna Gunnlaugs-
dóttir þjóðleikhússtjóri leitaði til hans
fyrir um ári með þá spurningu hvort
það væri eitthvert efni eða bók sem
hann hefði lengi langað til að svið-
setja. „Ég svaraði því játandi því mig
hafði alltaf langað til að gera Ólaf
Kárason allan,“ segir Kjartan og vís-
ar þar til þess að fyrir rúmum tveim-
ur áratugum vann hann tvær leik-
gerðir upp úr fyrstu tveimur bókum
Heimsljóss en skáldsagan kom út í
fjórum hlutum á árunum 1937-1940.
„Við opnun Borgarleikhússins leik-
gerði ég fyrstu tvær bækurnar og
leikstýrði sjálfur fyrstu bókinni. Mér
fannst ég því alltaf hafa skilið við Ólaf
Kárason á miðri leið. Núna geri ég
leikgerð sem byggist á Ólafi Kárasyni
sem persónu, lífi hans og dauða.“
Spurður hvernig hann nálgist
vinnu sína við leikgerðir segist Kjart-
an alltaf leggja sig fram um að fanga
kjarna bókanna. „Ég reyni að yf-
irfæra það sem höfundurinn er að
segja yfir í annað form og leysa það í
formi leikhússins, þannig að neisti
listarinnar sem birtist í bókinni
kvikni í nýju formi á leiksviðinu.
Kjarninn í Heimsljósi er að segja
fólki frá tilgangi listarinnar og hver
sé grundvöllurinn í því sem listamað-
urinn og skáldið geri,“ segir Kjartan
og tekur fram að sér finnist Heims-
ljós vera sú bók sem standi tilfinn-
ingalega næst Halldóri Laxness af
öllu því sem hann hafi skrifað.
Allt það fegursta gerist í innri
manni Ólafs Kárasonar
„Í Heimsljósi er Halldór að takast
á um tvær meginskyldur skáldsins í
tveimur aðalpersónum, þ.e. í Ólafi
Kárasyni og Erni Úlfari, þar sem sá
fyrrnefndi er leiddur af fegurð-
arþránni og meðaumkun með mann-
eskjunni en sá síðarnefndi er leiddur
af réttlætiskenndinni. Þetta eru þau
tvö öfl sem togast á í Halldóri þegar
hann skrifar verkið,“ segir Kjartan
og bendir á að fegurðarþráin sé það
sem að lokum sigri.
Kjartan velur að láta tvo leikara,
þá Björn Thors og Hilmi Snæ Guðna-
son, leika Ólaf Kárason samtímis á
sviðinu þótt þeir leiki hann á tveimur
mismunandi tímaskeiðum. Spurður
af hverju sú leið hafi verið farin
segir Kjartan það leikhúsaðferð
sem hann noti og helgist af því að
Heimsljós sé að stórum
hluta huglægur texti sem
gerist í innri manni
Ólafs Kárasonar.
„Allt það fallegasta
og göfugasta í text-
anum, þar á meðal
ljóðin, gerist í hans
innri manni, þ.e. í
samtali Ólafs
Kárasonar við
sjálfan sig.
Hann verður
því að hafa
sjálfan sig til
að tala við á
leiksvið-
inu.“
Fegurðarþráin leiðir skáldið
Kjartan Ragnarsson leikstýrir eigin leikgerð á Heimsljósi Halldórs Laxness í Þjóðleikhúsinu
Leikstjórinn velur að láta tvo leikara túlka Ólaf Kárason Ljósvíking á sviðinu samtímis
Ljósmynd/Eddi
Falleg „Mér finnst Heimsljós vera fallegasta bók Halldórs. Hún er ekki um fegurðina heldur fegurðarþrána, þ.e. um
fegurðina sem við náum aldrei að fanga, hvort sem það birtist í landslagi eða ástinni,“ segir Kjartan Ragnarsson.
„Ólafur Kárason er skáld sem þrífst á fegurðinni og
lifir fyrir hana. Hann berst við hrikalegar aðstæður, er
rúmfastur framan af ævi sinni, tekst á við mikla fá-
tækt, barnsmissi, kulda og vosbúð. Í raun má segja að
skáldskapurinn haldi í honum lífi,“ segir Björn Thors,
annar tveggja leikara sem fara með hlutverk Ólafs
Kárasonar Ljósvíkings í jólasýningu Þjóðleikhússins.
Heimsljós er þriðja Laxness-sýningin sem Björn
leikur í á jafnmörgum leikárum, en hinar tvær voru
Gerpla og Íslandsklukkan. Segir hann spennandi að
takast á við texta Halldórs í jafnmiklum mæli á svo
stuttum tíma og bendir á að gaman sé að skoða
hvernig verkin talast öll við að einhverju marki.
„Skáldskapurinn er t.a.m. grunnstef í mörgum verka
Halldórs. Þannig fjallar hann um listirnar sem ein-
hvers konar kjarna í manneskjunni. Fegurðarþrá Ólafs
Kárasonar er í raun leit að einhverri mennsku og leit
að skáldskap í lífinu. Það kallast aftur á við starf allra
listamanna, þ.e. að sjá fegurðina í hversdagsleikanum
og framkalla hana.“
Spurður hvaða erindi Heimsljós eigi við nútíma-
áhorfendur svarar Björn: „Fegurðarþrá Hall-
dórs og greining hans á Íslendingum og
mennskunni er nokkuð sem við þurfum
mjög sterklega á að halda núna í ljósi nýlið-
inna atburða. Við þurfum að horfast í augu
við okkur sjálf og skoða hvaðan við komum
til þess að átta okkur á því hvert við
erum að fara. Halldór er sterkasta
rödd Íslendinga á bókmenntasvið-
inu hvað þetta varðar. Hann er
eins og sálfræðingur heillar þjóð-
ar. Hann greinir okkur og skil-
greinir Íslendinga í aldaraðir,
jafnt á ritunartíma bókanna
sem á sögusviði þeirra. Hann
er stöðugt að greina nýlendu-
þjóðina sem glímir við minni-
máttarkennd sína, þröngsýni,
dramb og hroka, en kjarninn í
t.d. allri útrásinni liggur í þessari
greiningu,“ segir Björn.
Hilmir Snær Guðnason og Björn Thors
Leikstjóri og höfundur leik-
gerðar er Kjartan Ragnarsson.
Gretar Reynisson hannar leik-
mynd, Helga I. Stefánsdóttir
búninga og Halldór Örn Ósk-
arsson lýsingu. Tónlist er í
höndum Kjartans Sveinssonar.
Leikarar eru: Arnar Jónsson,
Björn Thors, Guðrún Snæfríður
Gísladóttir, Hilmir Snær Guðna-
son, Jóhannes Haukur Jóhann-
esson, Lára Sveinsdóttir, Lilja
Guðrún Þorvaldsdóttir, Ólafía
Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill
Egilsson, Pálmi Gestsson, Stef-
án Hallur Stefánsson, Svandís
Dóra Einarsdóttir, Vigdís Hrefna
Pálsdóttir, Þorsteinn Bach-
mann, Þórunn Arna Kristjáns-
dóttir og Ævar Þór Benedikts-
son.
Listrænir
stjórnendur
HEIMSLJÓS EFTIR LAXNESS
BJÖRN THORS LEIKUR Í ÞRIÐJU LAXNESS-SÝNINGUNNI Á JAFNMÖRGUM LEIKÁRUM
Halldór Laxness er sálfræðingur heillar þjóðar
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Fyrir stuttu kom út bók eftir Frosta
Eiðsson um golfvelli á Íslandi sem
heitir einfaldlega Íslenska golfbókin.
Frosti segir að hugmyndin hafi
kviknað hjá útgefandanum Senu
sem vildi gera bók um íslenska golf-
velli með skemmtilegum sögum úr
golfinu, en Frosti segir að bókin hafi
verið í mótun í nokkra mánuði og
tekið talsverðum breytingum í
vinnsluferlinu.
Allir golfvellir á Íslandi fá umfjöll-
un í bókinni í máli og myndum. Einn
álitsgjafi tjáir sig um hvern völl og
Frosti segir það hafa komið sér á
óvart hversu vel kylfingar tóku
þeirri bón. „Ég ákvað að fara þá leið
að tala við kylfinga og biðja þá að tjá
sig um golfvelli sem þeir hafa spilað.
Ég ræddi ekki við þá um heimavelli
þeirra heldur aðra velli. Glöggt er
gests augað stendur einhvers staðar
og því er kannski tekið meira mark á
því þegar kylfingar tjá sig um aðra
velli en þá sem tilheyra þeirra
klúbbi. Mér fannst það koma vel út
og í leiðinni reyndi ég að fiska eftir
skemmtilegum golfsögum og vera
með myndrænar frásagnir frá ís-
lenskum völlum,“ sagði Frosti en
hann hefur víðtæka reynslu af fjöl-
miðlum og byrjaði að leika golf fyrir
um tuttugu árum.
Gerir sagnfræðinni skil
Frosti segist hafa lagt talsvert
upp úr því að finna gamlar sögur frá
þeim tíma þegar íþróttin sleit barns-
skónum hérlendis. „Ég fjallaði um
gamla horfna golfvelli og sögur af
þeim. Golfsagnfræðinni hefur ekki
verið sinnt mikið að mínu mati en ég
hef áhuga á slíku, gömlum sögum og
minningum. Nokkrir viðmælendur
voru svo góðir að segja mér gamlar
sögur og hvernig golfið var hér-
lendis í gamla daga. Það hefur gríð-
arlega margt breyst síðan ég kynnt-
ist golfi fyrir tuttugu árum. Í fyrsta
lagi hefur fjöldinn aukist til muna og
íþróttin er orðin mun meiri fjöl-
skylduíþrótt en áður. Í grunninn er
fólk í dag að berjast við það sama og
þeir sem stunduðu golf í Laug-
ardalnum fyrir 76 árum, það er að
segja að koma kúlunni í holuna,“
sagði Frosti sem segir erfitt að setja
bókina í einhvern einn flokk. „Upp
að vissu marki er um handbók að
ræða, en hún er einnig sögubók með
mörgum ljósmyndum.“
Þegar bókin er skoðuð kemur í
ljós að víða um landið er að finna af-
ar góða golfvelli og hæglega má
draga þá ályktun að á meðal bestu
valla á Íslandi séu margir níu holu
vellir. „Mér finnst það tvímælalaust
en það er alltaf spurning um upp-
lifun hvers og eins. Fjöldi golfvalla á
Íslandi býður upp á misjafnar áskor-
anir fyrir kylfinga sem gaman er að
takast á við. Sumir vilja spila sama
völlinn og reyna að bæta árangur
sinn en ég tel að menn geti bætt sig
með því að reyna sig við mismunandi
aðstæður,“ sagði Frosti Eiðsson að
lokum.
Golfsagnfræðinni
hefur lítið verið sinnt
Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Golf Frosti Eiðsson skrifaði bók um íslenska golfvelli.