Milli mála - 01.01.2012, Blaðsíða 333
333
LJÚDMÍLA ÚLÍTSKAJA
Drengurinn Vaska, sem fæddist á fyrsta hjúskaparárinu, var
fyrsta ungbarnið sem Zhenju var sýnt. Frá föður sínum erfði hann
fagurblá augun, skræka marrandi röddina og slæma erfðavísa.
Úr litlu herbergi Kononovfjölskyldunnar bárust í sífellu óþægi-
leg hljóð: tryllingslegur hósti í bland við hroðaleg blótsyrði, veinin
í Klövu og stöðugur barnsgráturinn. Síðan smaug Vaska fram á
hlykkjóttan ganginn og skreið sleitulaust, á meðan hann var enn
ekki farinn að ganga, milli dyranna og eldhússins. Seinna fór hann
að ganga og hélt þá uppteknum hætti á tveimur jafnfljótum, allt
þar til hann flæktist um fætur grannkonu sem var á leið inn í sitt
herbergi með pott fullan af nýsoðinni kálsúpu. Sjóðandi heit súpan
helltist yfir Vaska og hann var fluttur til aðhlynningar á Fílatovskí-
sjúkrahúsið. Mamma Zhenju og María Vasíljevna fóru með hann á
sjúkrahúsið, því þennan dag var Klava á sólarhringsvakt.
Gangurinn hafði mest aðdráttarafl af öllum stöðum íbúðarinnar;
hann var yfirfullur af skápum, hillum og allskonar dóti úr járni og
tré, á einum veggnum hékk meira að segja jafn furðulegt fyrirbæri
í borgarlífinu og klafi. En Zhenju var bannað að fara fram á ganginn
einmitt vegna Filipps: hann gerði sér það til gamans að hrækja grá-
um, freyðandi hroðanum úr því sem eftir var af lungum sínum í
sameignina en ekki í þar til gerða kringlótta glerkrukku. Íbúðin var
krökk af berklabakteríum sem dreifðust í milljónavís um íbúðina,
þrátt fyrir sameiginlegar tilraunir Klövu og móður Zhenju til að
útrýma þeim með klór.
Einu sinni fékk Klava í magann, var veik í heila viku og var að
lokum flutt í sjúkrabíl beint úr vinnunni á Jekaterínskí-sjúkrahúsið.
Í ljós kom að hún var með bráðabotnlangabólgu og var skorin upp
í snatri. Hún var útskrifuð eftir viku, og sá dagur var minnisstæður
vegna þess að Filipp barði Klövu, sem tapað hafði bæði árvekni og
lipurð, með viðarbút úr eldiviðarhlaðanum á ganginum: eina
kamínan sem kynt var frá ganginum var í herbergi Klövu, allir aðrir
ofnar voru kyntir í herbergjunum.
Þennan dag sá Filipp konuna sína í hinsta sinn; saumarnir
rifnuðu upp, ígerð komst í sárið, hún fékk blóðeitrun, og hinn
mikilhæfi skurðlæknir Aleksjeev, sem þá var ekki orðinn félagi í
akademíunni, heldur var bara góður ungur læknir, risti upp öll
hennar innyfli. Í heilan mánuð lá hún milli heims og helju, en þegar
Milli_mála_4A_tbl_lagf_13.03.2013.indd 333 6/24/13 1:43 PM