SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Page 34

SunnudagsMogginn - 29.01.2012, Page 34
34 29. janúar 2012 Henni hefur aldrei verið lýstsem manneskju. Mér þykirvænt um hana, ég held að égelski hana,“ sagði Madonna nýlega í viðtali. Hún var þar að tala um Wallis Simpson, konuna sem varð til þess að Játvarður VIII Bretakonungur afsalaði sér krúnunni árið 1936. Madonna er leik- stjóri kvikmyndarinnar W.E. sem fjallar um ævi Wallis, sem var hötuð og fyrirlitin og hefur ekki fengið verulega uppreisn æru fyrr en nú. Kvikmynd Madonnu hefur fengið mis- jafnar undirtektir. Hún fékk vonda dóma á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum en aðr- ir eru hrifnari. Gagnrýnandi Sunday Tim- es gaf myndinni þrjár stjörnur af fimm mögulegum og sagði: „Drottinn minn! Madonna hefur gert kvikmynd sem er næstum því alveg ágæt.“ Gagnrýnendur hafa svo yfirleitt hrósað leikurunum sem fara með aðalhlutverkin, Andreu Rise- borough sem leikur Wallis og James D’Arcy sem leikur Játvarð. Ný ævisaga Wallis, That Woman, eftir Anne Sebba hefur svo enn átt þátt í að vekja athygli á henni. Dásamlegasta kona í heimi Wallis, eða Bessiewallis eins og hún hét réttu nafni, fæddist árið 1896 í Baltimore. Sem ung kona þótti hún fyndin, greind og daðurgjörn og kunni betur við sig í fé- lagsskap karla en kvenna. Hún stefndi aldrei að starfsframa heldur leitaði að mönnum sem veittu henni öryggi og sagði opinskátt að maðurinn sem hún myndi giftast yrði að vera ríkur. Hún var rétt um tvítugt þegar hún giftist Winfield Spencer liðsforinga sem var átta árum eldri en hún. Hann var drykkfelldur og ofbeldisfullur og tuttugu og fimm ára gömul var Wallis fráskilin. Næsti eig- inmaður var Ernest Simpson skipamiðl- ari. Hann var kvæntur þegar þau Wallis kynntust og átti unga dóttur. Hann var vel lesinn og mikill áhugamaður um listir en þótti fremur litlaus persónuleiki. Hann varð heillaður af Wallis, skildi við konu sína og kvæntist henni. Þau Wallis bjuggu í Englandi þar sem þau kynntust Játvarði prins en fyrir honum lá að erfa krónuna eftir lát föður síns, Georgs V. Játvarður var 37 ára þegar þau Wallis kynntust. Hann þótti hafa mikla per- sónutöfra en hann tók konunglegar skyldur lítt alvarlega og honum leiddust opinberar athafnir. Konungurinn, faðir hans, sagði: „Eftir dauða minn mun þessi drengur eyðileggja sig á tólf mánuðum.“ Játvarður var sérstakur maður sem tók persónulega hamingju og frelsi fram yfir starfsskyldur sínar. Þetta þótti undarlegt og sumir sem unnu fyrir prinsinn töldu hann hreinlega geðbilaðan. Einkaritari Georgs konungs sagði eitt sinn eftir að hafa talað við prinsinn: „Hann er brjál- aður. Hann er brjálaður. Við þurfum að loka hann inni. Við þurfum að loka hann inni.“ Eiginmanni Wallis var ekki skemmt vegna vináttu konu sinnar við prinsinn en hún sagði honum að sambandið við Ját- varð myndi ekki standa að eilífu. Hún var ekki ástfangin af Játvarði en heillaðist af lífsstílnum sem líf með hon- um bauð upp á. Hann dáði hana og dýrk- aði og hún hafði hann algjörlega á valdi sínu. Georg V lést árið 1936 og Játvarður varð konungur. Hjónabandi Wallis lauk en hún hafði verið mjög hikandi við að skilja við mann sinn. Játvarður var nú staðráðinn í að hún yrði drottning hans. Sú fyrirætlan Játvarðar að kvænast tvífráskilinni bandarískri konu mætti vægast sagt harðri andstöðu, bæðið innan ríkisstjórnar og konungsfjölskyldunnar sjálfrar. Smám saman komust fréttir um sambandið í breska fjölmiðla og Wallis tóku að berast hatursbréf sem fylltu hana skelfingu. Hún var tilbúin að slíta sam- bandinu við konung en hann tók það ekki í mál og hótaði að skera sig á háls ef hún yfirgæfi hann. Hann var reiðubúinn að af- sala sér konungdómi og kvænast henni en Wallis vissi að ef hann gerði það myndi hatur og heift beinast gegn henni og mannorði hennar yrði rústað. Hún reyndi því að fá konunginn af því að afsala sér krúnunni. Fyrir honum var valið einfalt. Ef hann ætti að velja milli hennar og krúnunnar þá myndi hann velja Wallis. Forsætisráðherrann Baldwin var hneykslaður á því að konungurinn ætti ekki í innri baráttu um það hvað hann ætti að gera. Í samtali við Baldwin um málið veifaði konungurinn höndunum og sagði: „Hún er við hlið mér, dásamlegasta kona í heimi.“ „Það var vonlaust að koma fyrir hann vitinu,“ sagði forsætisráð- herrann. Þegar hertoginn af Kent, bróðir kon- ungsins, var spurður hvort hann héldi að konungurinn yrði hamingjusamur með Wallis svaraði hann: „Hamingjusamur? Almáttugur minn nei, ekki með þessari konu.“ Játvarður sagði af sér konungdómi í frægu útvarpsávarpi og sagði í einni sterkustu ástarjátningu allra tíma: „Mér er ómögulegt að bera hina þungu ábyrgð og framfylgja, eins og ég vil, skyldum mínum sem konungur, án hjálpar og stuðnings konunnar sem ég elska.“ Bróðir hans Georg VI, faðir Elísabetar II, varð konungur í hans stað. Hjón í útlegð Játvarður og Wallis gengu í hjónaband í Frakklandi í júní 1937. Enginn úr fjöl- skyldu hans var viðstaddur brúðkaupið og sú fjarvera var Játvarði mikil von- brigði. Vinur Játvarðar sagði seinna: „Eftir hjónavígsluna sagði ég við Wallis að fólki líkaði illa við hana af því að hún væri völd að því að Játvarður hefði afsalað sér krún- unni en það myndi breytast ef hún gerði hann hamingjusaman. Ef hún gerði hann óhamingjusaman myndi fólki finnast hún eiga allt illt skilið. Hún tók orðum mínum af skilningi og svaraði: „Heldurðu að ég hafi ekki velt þessu fyrir mér? Ég held að ég geti gert hann hamingjusaman.“ Það er enginn vafi á því að henni tókst að gera hann hamingjusaman. Á þeim áratugum sem þau voru saman þótti hon- um alltaf jafnvænt um hana og var dapur ef hún var fjarverandi. Hann tilbað hana allt þar til yfir lauk. Tilfinningar hennar voru flóknari. „Ég held að hún elski hann en ég er hrædd um að hún sé ekki ástfangin af honum,“ sagði ljósmyndarinn Cecil Beaton. Wallis gat verið afar hvöss í tali við mann sinn og hann sást tárast undan meinlegum at- hugasemdum hennar, en það breytti engu um ást hans. Hjónin vildu setjast að á Englandi en fjölskylda hans stóð í vegi fyrir því. Þau bjuggu aðallega í Frakklandi og höfðu þjónustufólk sem var skipað að ávarpa Wallis sem „yðar konunglega tign“. Hún hafði þó engan konunglegan titil þótt eig- inmaður hennar reyndi allt sem hann gat til að útvega henni hann. Fjölskylda hans hafði megna óbeit á Wallis og þær tilfinn- ingar breyttust lítt með árunum. Þau fengu þó titilinn hertoginn og hertoga- ynjan af Windsor. Hjónin skiptu tíma sínum milli Frakk- lands og Bandaríkjanna. Þau höfðu ekki ýkja mikið að gera annað en að halda boð og mæta í boð. Það átti svosem ekki illa við Wallis sem þótti frábær gestgjafi og snjöll í samræðulist. Hún þótti aldrei fal- leg, en hún hafði óaðfinnanlegan fata- smekk og í fjóra áratugi var hún reglulega á lista yfir 10 best klæddu konur heims. Hún var í sífelldri megrun og ef hún bætti á sig kílói svelti hún sig næsta dag. Eftir henni er höfð setning sem oft er vitnað til: „Maður er aldrei of ríkur eða of grannur.“ Dapurlegt ævikvöld FBI hélt sérstaka skrá um hjónin, þótt þau væru nú ekki beinlínis líkleg til að brjóta af sér. Ásakanir um samúð með nasistum hafa þó alltaf fylgt þeim, en Játvarður tal- aði reiprennandi þýsku og átti þýska vini á stríðsárunum sem hann hitti. Hjónin höfðu svo farið til Þýskalands árið 1937 og til er ljósmynd þar sem Wallis brosir inni- lega til Hitlers. Sú mynd varð síst til að auka vinsældir hennar. Hún var alla tíð afar umdeild og margir Bretar neituðu að Wallis fær uppreisn æru Madonna hefur gert mynd um Wallis Simpson, konuna sem varð til þess að konungur afsalaði sér krúnunni vegna ástar sinnar. Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Wallis og Játvarður á ferðalagi árið 1967. Getty Images Madonna hefur tekið Wallis upp á arma sína. Reuters

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.