SunnudagsMogginn - 12.08.2012, Page 30

SunnudagsMogginn - 12.08.2012, Page 30
30 12. ágúst 2012 D ag hvern eru almennir borg- arar drepnir í Sýrlandi, auk hermanna og vopnaðra upp- reisnarmanna. Nú er talið að 20.000-30.000 manns hafi fallið í land- inu frá því að átök hófust. Manndrápin halda áfram. Sumir spá því að átökin í Sýrlandi geti staðið í nokkur ár. Alþjóða- samfélagið í mynd Sameinuðu þjóðanna hefur gert tilraun til þess að stöðva þessi morð. Það hefur ekki tekizt m.a. vegna þess að alþjóðasamfélagið er ekki á einu máli um hvernig eigi að fara að. Við hin horfum á. Í okkur hinum er ákveðinn tvískinnungur og kannski hræsni, þegar kemur að manndrápum. „Allir“ voru á móti Gaddafí og þess vegna var hægt að beita herþotum Breta og Frakka til að koma honum á kné. Það eru sennilega skiptari skoðanir um Assad. Alla vega mætti ekki fjölmenni til þess að mótmæla manndrápum hans á Ingólfs- torgi fyrir skömmu. Og það hefur ekki náðst að skapa alþjóðlega samstöðu um að stöðva morðin, sem eru framin í hans nafni á hverjum degi í Sýrlandi. Er það af því að Rússar hafa flotastöð í Sýrlandi? Manndrápin á Balkanskaga á 10. áratug síðustu aldar voru hryllileg en það tók langan tíma að stöðva þau. Það kom í ljós að Evrópuríkin, sem vildu gjarnan hafa forystu um að stöðva framferði stríðandi fylkinga á Balkanskaga höfðu ekki bol- magn til þess. Það þurfti að kalla Banda- ríkjamenn til. Þeir stöðvuðu fjöldamorð og nauðganir á Balkanskaga. Hins vegar tókum við varla eftir því fyrr en eftir á, þegar verið var að slátra fólki í þess orðs fyllstu merkingu í Rúanda. Það er svo langt í burtu að samvizka þjóðanna, sem búa í velsæld á Vesturlöndum nær ekki þangað. Samt höfum við lært ýmislegt. Við höf- um lært að það á ekki að ofsækja Gyðinga. Sennilega er sá lærdómur varanlegur. En höfum við lært að það á ekki að ofsækja eða fordæma sígauna? Sennilega ekki. Bandaríkin hafa verið gagnrýnd fyrir að taka sér lögregluvald yfir heimsbyggð- inni. Hvað mundi gerast ef Bandaríkin sendu hermenn til Sýrlands til að skakka leikinn? Þau hafa hernaðarlegt bolmagn til þess. Það yrði allt vitlaust í Miðaust- urlöndum, Moskvu og Peking en líka í Bandaríkjunum sjálfum. Fólkið þar fyrir vestan er orðið þreytt á að senda unga menn í hernað til annarra landa og borga kostnað við það. En hvernig mundum við bregðast við ef Rússar notuðu sér aðstöðu sína í Sýrlandi til að stöðva hernaðarátökin og mann- drápin þar? Mundum við telja, að þar með væri valdajafnvægi í heiminum ógnað? Þeim, sem fyrir heimsstyrjöldina síðari voru kallaðir einangrunarsinnar í Banda- ríkjunum af því að þeir vildu ekki blanda sér í hernaðarátök í Evrópu er að aukast fylgi. Var það rangt af Bandaríkjamönn- um að blanda sér í þau átök? Í Bandaríkj- unum er fólk sem veltir því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum Bandaríkjamenn eru enn með hermenn í Evrópu. Hvers vegna eiga bandarískir skattgreiðendur að borga fyrir varnir hinna auðugu Evrópu- ríkja, spyr fólk fyrir vestan. Það er vel hægt að skilja að þannig sé spurt. Reynslan sýnir að Sameinuðu þjóðirnar eru lítils megnugar, þegar stjórnmála- menn, sem hafa ferðast um hásali valds- ins, lengur eða skemur breytast í fjölda- morðingja því að það eru þeir. „Við“, mannfólkið í veröldinni stönd- um frammi fyrir siðferðilegu vandamáli. Hvert okkar um sig mundi telja, að okkur bæri skylda til að stöðva viðleitni ein- staklings á götu úti, sem augljóslega væri að reyna að drepa annan. Með sama hætti ber þjóðum heims siðferðileg skylda til að koma í veg fyrir fjöldanauðganir og fjöldamorð. En við þurfum að hafa afl til þess. Þjóðin, sem hefur afl til þess er orð- in svo þreytt á að vera alltaf skömmuð fyrir að beita því að hún er að draga sig í hlé. Hvað gerist þá? Eru Sameinuðu þjóðirnar í raun og veru ekki í sömu stöðu og Þjóðabandalagið var, þegar heimsstyrjöldin síðari braust út? Það gat ekki stoppað hana og Samein- uðu þjóðirnar geta ekki stoppað neitt. Þær eru umræðuvettvangur og þeir eru nauðsynlegir en eru þær mikið annað? Það er kominn tími til að þjóðir heims horfist í augu við vanmátt Sameinuðu þjóðanna og setjist á rökstóla um, hvernig hægt er að koma á fót alheimslögreglu, sem tekur að sér að koma vitinu fyrir fjöldamorðingja, sem bera tignarheitið forseti eða eitthvað annað slíkt, þegar þeir hefjast handa við manndrápin. Smáþjóðir skipta engu máli á hinu al- þjóðlega sviði. En stundum hafa þær bol- magn umfram aðra. Þær geta sagt það, sem aðrir eru að hugsa en geta ekki sagt vegna einhverra annarra hagsmuna. Þeg- ar Eystrasaltsríkin voru að brjótast undan ofurvaldi hinna fallandi Sovétríkja, gat Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkis- ráðherra Íslands sagt það, sem aðrir hugsuðu en gátu ekki sagt vegna flókinna hagsmuna og samskipta þjóða í milli. Þá gátu orðin ein skipt máli. Það er umhugsunarefni fyrir litla þjóð, sem hefur augljóslega ríka tilfinningalega þörf fyrir að vera maður með mönnum, hvort hún getur kannski tekið að sér það hlutverk að segja það, sem við blasir en aðrir treysta sér ekki til að segja vegna annarra hagsmuna. Á síðustu 100 árum hafa milljónatugir verið drepnir vegna stjórnmálalegra átaka. Þetta eru ekki stjórnmál. Þetta er glæpastarfsemi. Þeir kóngar og forsetar og kjörnir fulltrúar fólksins hér og þar, sem fyrir þessu standa eru ótýndir glæpamenn. Það er kominn tími til að segja þann sannleika upphátt og ná samstöðu um það hvernig eigi að koma böndum á þá, sem sannanlega eru mikilvirkustu glæpa- menn allra tíma. Glæpamenn okkar tíma Af innlendum vettvangi … Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is Atgangurinn var mikill á blaðamannafundi íChicago í Bandaríkjunum á þessum degi fyrir46 árum þegar John Lennon, fyrirliði Bítl-anna, svaraði í fyrsta skipti fyrir umdeild ummæli sín þess efnis að hljómsveit hans væri vinsælli en sjálfur Jesús Kristur. Ummælin féllu í viðtali við bresku blaðakonuna Maureen Cleave, en hún fylgdist grannt með ferli Bítlanna á þessum árum, og birtust í London Evening Standard hálfu ári áður. Vöktu þau enga sérstaka athygli þegar blaðið kom út. Orðrétt sagði Lennon: „Kristnidómurinn mun líða undir lok. Dofna og hverfa. Um það verður ekki deilt; ég hef á réttu að standa og það mun sýna sig. Við erum vin- sælli en Jesús um þessar mundir; ég veit ekki hvort vík- ur fyrr – rokk og ról eða kristnidómurinn. Jesús var svo sem ágætur en lærisveinarnir voru illa gefnir og venju- legir. Vindingur þeirra eyðileggur þetta fyrir mér.“ Fimm mánuðum síðar sló bandaríska unglinga- tímaritið Datebook ummælunum upp á forsíðu í tilefni af væntanlegri tónleikaferð Bítlanna um Bandaríkin og þá varð fjandinn laus, afsakið orðbragðið! Viðbrögðin létu ekki á sér standa vestan hafs og riðu tvær útvarps- stöðvar í Alabama og Texas á vaðið og bönnuðu tónlist Bítlanna. Fleiri komu í kjölfarið. Í suðurríkjunum gengu útvarpsstöðvar enn lengra og skipulögðu mótmæli, þar sem ungmenni brenndu plötur Bítlanna á báli. Borgarstjórnin í Memphis samþykkti að aflýsa fyr- irhuguðum tónleikum þessarar vinsælustu popp- hljómsveitar í heimi á þeim forsendum að Bítlarnir væru ekki velkomnir og að ekki væri hægt að láta menn kom- ast upp með að gera svona lítið úr kristinni trú. Öfgasamtökin Ku Klux Klan negldu Bítlaplötu upp á viðarkross og hétu „hefndum“. Handan Atlantsála var mönnum ekki rótt og Brian Epstein, umboðsmaður Bítlanna, íhugaði að aflýsa tón- leikaferðinni á þeim forsendum að ekki væri hægt að tryggja öryggi fjórmenninganna í Bandaríkjunum. Hann hélt vestur um haf til að freista þess að slökkva elda en orð hans, þar sem hann sakaði Datebook meðal annars um að slíta ummæli Lennons úr samhengi, höfðu lítil sem engin áhrif. Fárið breiddist þvert á móti út til Mexíkó, Suður-Afríku og Spánar, þar sem tónlist Bítl- anna var líka bönnuð og plötum fargað. Meira að segja Vatíkanið blandaði sér í málið og lýsti opinberlega van- þóknun sinni á orðum Lennons. Þrátt fyrir fjaðrafokið ákváðu Bítlarnir að fara í téða tónleikaferð um Bandaríkin í ágúst 1966 en áríðandi þótti að efna til blaðamannafundar svo Lennon fengi tækifæri til að útskýra ummæli sín fyrir hinni kristilega þenkjandi þjóð. Lennon byrjaði á því að útskýra að hann hefði ekki verið að tala um hljómsveitina sem slíka þegar hann sagði „við“, heldur bítlið ellegar poppmenninguna í stærra samhengi. „Hefði ég sagt að sjónvarpið væri vin- sælla en Jesús hefði ég mögulega komist upp með þetta,“ sagði hann og bætti við að hann hefði alls ekki verið að gera lítið úr kristinni trú, heldur benda á stað- reynd. Það ætti þó fremur við um England en Bandarík- in. „Ég er ekki að segja að við séum betri eða meiri eða að bera okkur saman við Jesús Krist sem manneskju eða Guð sem fyrirbæri eða hvað það nú er. Ég sagði bara það sem ég sagði og það var rangt. Eða var misskilið.“ Spurður hvort hann væri reiðubúinn að biðjast afsök- unar á ummælunum kvaðst Lennon vera það ef það veitti fólki fróun. „Samt veit ég ekki ennþá hvað ég hef gert af mér. Ég hef reynt að útskýra það fyrir ykkur en ef þið viljið að ég biðjist afsökunar og það mun gleðja ykk- ur, þá gott og vel. Ég biðst afsökunar.“ Miðað við allt sem á undan var gengið gekk tónleika- ferðin vel og enginn varð fyrir hnjaski, þrátt fyrir ein- hverjar aflýsingar og hótanir Bítlunum til handa. orri@mbl.is Vinsælli en Jesús John Lennon gerði allt vitlaust með ummælum sínum. AP ’ Öfgasamtökin Ku Klux Klan negldu Bítlaplötu upp á við- arkross og hétu „hefndum“. Hvað ætli Jesú Kristi hefði sjálfum þótt um allt fárið? Á þessum degi 12. ágúst 1966

x

SunnudagsMogginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.