Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.12.2012, Blaðsíða 51

Morgunblaðið - Sunnudagur - 09.12.2012, Blaðsíða 51
9.12. 2012 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 51 þögul. Sjáöldrin þanin, augun gulleit. Bjarni kveðst hafa reynt að fara með Faðir vorið í hljóði en það var eins og stúlkan skynjaði það: „Haltu kjafti!“ grenjaði hún. Barn sem aldrei hafði hrotið styggðaryrði af munni. Áfram hélt þessi dæmalausa atburðarás. Þegar vika var liðin frá komu Bjarna fóru stórar og þykkar gardínur að dragast sjálfar frá gluggum í húsinu, internetið datt út og farsímasamband rofnaði. „Þarna var mér orðið ljóst að grípa þurfti í taumana. Þetta gat ekki haldið svona áfram,“ segir Bjarni. „Ég vissi ekkert hvert ég átti að snúa mér ytra, þannig að ég hringdi í sálfræðing heima á Íslandi. Spurði hann hvort eitthvað sem kalla mætti „inni- lokunarhópmaníu“ væri til. Sagði hann svo ekki vera. Að vísu gæti gengið á ýmsu þegar hópur fólks færi í andaglas á sama tíma en það átti ekki við um okkur. Sálfræðingurinn hafði engin svör.“ Í örvæntingu sinni hugkvæmdist Bjarna að hafa samband við katólsku kirkjuna í Hol- landi og var bent á prest sem hefur sérhæft sig í andasæringum. „Ég var ekki orðinn sannfærður um að þetta væri andsetning en gat alls ekki útilokað það. Þess vegna greip ég til slíkra örþrifaráða,“ segir Bjarni. Börnin voru ekki mönnum sinnandi og hvæstu eins og dýr þegar hugsað var fallega til þeirra, hvað þá meira. Átti von á undarlegu símtali Þegar katólski presturinn svaraði skila- boðum Bjarna kvaðst hann hafa fundið á sér að hann ætti von á undarlegu símtali. Hann þurfti sérstakt biskupsleyfi til að taka málið að sér þar sem Bjarni og fjölskylda eru ekki katólikkar. „Horfðu í augun á stúlkunni!“ sagði presturinn án þess að hafa hugmynd um að annað barnanna væri stúlka. Það virt- ist koma á hana. „Þetta er nóg!“ æpti hún. Því næst bað hann Bjarna um að leggja sím- tólið við eyra stúlkunnar og fór með bæn á latínu. Við það varð stúlkan stjörf og megn brennisteinslykt gaus upp. „Þið þarfnist öll hvíldar. Núna eigið þið að fá frið í tíu til tólf tíma,“ tjáði presturinn Bjarna. Það stóð heima, börnin sofnuðu fljótt á eftir og stein- sváfu í hálfan sólarhring. Daginn eftir voru þau áfram í sama hamn- um, viðskotaill og í sínum heimi. Leikskóla- kennurunum þótti þau hafa samband sín á milli með augunum, að sögn Bjarna. Presturinn kom að óvörum, eins og hann hafði óskað eftir, um kvöldið og leist strax illa á aðstæður. Fúkkamyglulykt væri af föt- um og allt benti til nærveru illra anda. „Hann talaði um að illir andar væru allt í kringum okkur en mögnuðust upp við ótta, reiði og pirring. Allt átti þetta við um okkur á þeim tímapunkti,“ segir Bjarni. Það perlaði af enni prestsins þegar hann kom inn í svefnherbergi barnanna. „Hann byrjaði á því að gera lítið krossmark yfir stelpunni sem spennti sig um leið upp í boga og gargaði á hann: „Hættu!“ Það var ekki sjón að sjá hana, hún var ekki í vökuástandi, og prestinum brá greinilega. Hann tók þó á sig rögg, sótti særingabókina og ætlaði að hefjast handa. Þá varð honum hins vegar svo óglatt að hann varð frá að hverfa. Áður en hann yfirgaf húsið tilkynnti hann mér að þetta væri versta tilvik sem hann hefði kom- ist í tæri við á fimmtíu ára ferli við sær- ingar. Hann talaði um að hann þyrfti sér- stakt leyfi til að láta til skarar skríða og að við myndum heyra frá honum fljótlega,“ seg- ir Bjarni. Hann segir prestinn hafa verið hinn al- mennilegasta en samt hafi örlað á fordæm- ingu. „Hann sagði það ekki en eflaust hefur hann hugsað sem svo: Þið hafið gert eitthvað til að verðskulda þetta!“ Viti sínu fjær af hræðslu Ekki batnaði ástandið við þetta. Börnin fóru að tala ókunnugt tungumál sín á milli, sem hvorki Bjarni né Þuríður skildu. Einn daginn urðu hundar nágrannans á vegi fjölskyld- unnar, stukku upp um hálsinn á Þuríði og Bjarna en umturnuðust þegar þeir urðu var- ir við stúlkuna. „Þeir æddu í áttina að henni með uppbrett trýni og ég varð skelfingu lostinn, óttaðist að þeir myndu rífa barnið í tætlur. Það fór á annan veg. Þegar hún sá þá nálgast rétti stúlkan upp höndina og hvæsti á hundana. Það skipti engum togum að þeir snarsnerust á hæli og spóluðu til baka – leðjan gekk niður af þeim. Stúlkan ætlaði á eftir þeim en hundarnir náðu að fela sig í næsta garði, skjálfandi á beinunum. Ég hef aldrei upplifað aðra eins hræðslu.“ Bjarni segir illskuna hafa verið ríkari í stúlkunni en drengnum og hann á köflum hræddur við hana. „Hann gaf í skyn að hún tæki sig stundum kverkataki en þegar ég gekk á hann kom í ljós að það var ekki syst- ir hans sjálf, heldur „það sem er á henni“, eins og hann orðaði það. Eftir þetta fór ég sjálfur að finna fyrir þessu, þegar henni mis- líkaði eitthvað var eins og eitthvað þrengdi að hálsinum á manni. Það var verulega ónotaleg tilfinning.“ Feðginin voru orðin nær ráðþrota, ekkert heyrðist í prestinum og ástandið síst að skána. Þegar þrjár vikur voru liðnar ákváðu þau að gera vel við börnin, fara með þau á uppáhaldsveitingastaðinn þeirra og sjá hvaða áhrif það hefði. Allt gekk vel í fyrstu eða þangað til stúlk- an byrjaði að söngla, ýtti síðan matnum frá sér og æddi af stað. Hún fór eins og hvirfil- bylur um veitingastaðinn, æpandi, hrækjandi og jafnvel ælandi á gesti. Hún rak út úr sér tunguna og gaf merki með fingrunum, sýndi fólki á víxl þumalfingurinn eða djöflahornin. Mikil skelfing greip um sig á staðnum. Allir störðu á Bjarna og Þuríði. Líttu aftur í! Með aðstoð starfsfólks staðarins tókst að koma börnunum út í bíl og óla þau niður í aftursætinu. Á leiðinni heim bugaðist Þur- íður og fór að hágráta. „Líttu aftur í,“ sagði hún milli ekkasoga við föður sinn. Skelfileg sjón blasti við. „Þegar ég leit í spegilinn var það ekki dótturdóttir mín sem sat aftur í bílnum, það var einhver allt önnur vera. Varla mennsk. Þvílík heift, þvílík illska. Augnaráðið andstyggilegt. Höfuðið snerist ekki í hringi, eins og maður hefur séð í bíó- myndunum, en það hefði allt eins getað gert það. Á þessu augnabliki langaði mig að henda þessari veru út úr bílnum en hafði hemil á mér. Til allrar hamingju.“ Áður en þessir dularfullu hlutir fóru að gerast hafði Bjarni stundum spaugað með það að hann vildi gjarnan að djöfullinn birt- ist honum í holdi, þá myndi hann glaður snúa hann niður. „Þá gerði ég ekki ráð fyrir því að hann gæti birst í líki fimm ára barns sem ég yrði logandi hræddur við.“ Til að komast heilu og höldnu heim braut Bjarni baksýnisspegilinn til að sjá ekki óhugnaðinn í aftursætinu. Nú var þeim nóg boðið, pöntuðu flug heim til Íslands. Þau yrðu að breyta um umhverfi. „Við höfðum ekkert sofið síðustu sólarhring- ana og brennisteinslyktin fylgdi okkur hvert fótmál. Ég kúgast enn þegar ég hugsa um það. Á flugvellinum færði fólk sig frá okkur, þoldi ekki við. Drengurinn var óvenju slæm- ur þennan dag og gerði meira að segja til- raun til að henda sér yfir handrið. Mér tókst að koma í veg fyrir það.“ Kaldur eldur Þá hringdi síminn, það var katólski prest- urinn. „Hvar eruð þið? Þið eruð í hættu?“ fullyrti hann. Presturinn kvaðst hafa fengið tvo erlenda presta til liðs við sig og vildi hitta börnin nokkrum dögum síðar. Kraftar Bjarna og Þuríðar voru á hinn bóginn á þrotum, þau urðu að komast heim. „Flugið heim var í einu orði sagt hræðilegt enda þótt börnin væru reyrð niður í sætin,“ segir hann. Heima á Íslandi mætti vantrú Bjarna og Þuríði. Fáir höfðu trú á því að um andsetn- ingu væri að ræða. Álagið var mikið og tekin var ákvörðun um að skipta börnunum upp, stúlkan fór til vistar hjá systur Bjarna hér heima en drengurinn fór fljótlega aftur utan með móður sinni. Til að byrja með gekk vel með stúlkuna en tvö atvik gerðu systur Bjarna hrædda. Fyrst sleit stúlkan hálsmen, kross, af henni og síðan kviknaði án nokkurra eðlilegra skýringa í púsluspili. Systirin veitti því at- hygli að eldurinn var kaldur og ekki sá á dúknum undir spilinu. Aðeins yfirborðið var brunnið og minntu rústirnar einna helst á svartan hrafn, að sögn Bjarna. „Systir mín hafði verið í afneitun fram að þessu en þarna varð henni ekki um sel,“ segir Bjarni en á þessum tíma var stúlkan byrjuð að horast upp og með svarta bauga undir augum. Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Eftir sex til sjö vikur á Íslandi var Bjarna bent á mann, við skulum kalla hann Jóhann- es, sem honum var tjáð að hefði fengist við mál af þessu tagi áður. Fór Bjarni með dótturdóttur sína á hans fund. Að sögn Bjarna gekk Jóhannes fram af mikilli ró. Bað um að fá að sjá augun í stúlk- unni. Við það hrökk hún til baka og reyndi að fela á sér augun. „Afi, hjálpaðu mér héð- an út!“ sagði hún óttaslegin. „Farðu!“ sagði Jóhannes með hægð en festu og talaði þar til hins illa anda. Stúlk- unni brá verulega við þetta, orgaði þríradd- að, að sögn Bjarna, hóstaði og kúgaðist. Jóhannes endurtók sig: „Farðu!“ Það var allt og sumt. „Allt í einu heyrðist tær barnsgrátur,“ rifj- ar Bjarni upp, „og ég sá barnabarnið mitt aftur. Það var yndisleg stund, hún var óþekkjanleg. Frá því augnabliki varð hún aftur eftirlæti allra, ljúf og góð.“ Barátta góðs og ills Skömmu síðar kom Þuríður heim með drenginn og var farið með hann til Jóhann- esar. Tókst honum að reka óværuna úr hon- um líka. „Í grunninn virðist þetta vera bar- átta góðs og ills, Jóhannes lagði við athöfnina ofuráherslu á trúna á Guð og Jesú Krist og að hún væri hinu illa yfirsterkari.“ Liðin eru um tvö ár frá þessum atburðum og ekki hefur örlað á neinu undarlegu í fari barnanna. Þau búa bæði hjá móður sinni í Hollandi en fjölskyldan hefur flutt búferlum úr húsinu þar sem ósköpin byrjuðu. Bjarni hefur enga skýringu á því sem gerðist en er ekki í vafa um að um utanað- komandi afl hafi verið að ræða. „Áður en ég varð fyrir þessari reynslu hló ég að sögum um illa anda en það geri ég ekki lengur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi frá- sögn er ótrúleg og eflaust munu fáir trúa henni en svona var þetta eigi að síður. Það var við einhver utanaðkomandi öfl að etja og þau gengu býsna nærri mér og fjölskyldu minni. Börnin voru andsetin.“ Spurður hvort hann tengi atburðina við húsið sem dóttir hans flutti í með börnin í Hollandi kveðst Bjarni ekki geta svarað því fyrir víst. Eftir á hafi þó komið í ljós að það stendur á gamalli byggð. Hann óttast ekki að hinir illu andar taki sér bólfestu í börnunum á ný. „Ég trúi því að þetta sé komið og farið, hvað sem það var. Börnin lifa eðlilegu og hamingjuríku lífi í dag og virðast ekki hafa hlotið neinn skaða af þessu. Nú horfum við fram á veginn!“ Vill hjálpa öðrum Bjarni segir að enginn verði samur eftir svona lífsreynslu. Hann var og er trúaður en kveðst ávallt reyna að „lesa Biblíuna án les- blindu“. Trúin uppfærist ekki eins og forrit frá Microsoft. Hann viðurkennir að vera bet- ur á varðbergi gagnvart yfirskilvitlegum hlutum nú en áður og rifjar upp orð katólska prestsins þess efnis að illir andar séu allt í kringum okkur. „Ég veit að færi ég inn í hóp barna, til dæmis á leikskóla, myndi að minnsta kosti eitt þeirra gefa mér illt auga. Það barn þarf ekki að vera jafnilla andsetið og barnabörnin mín voru en það myndi blunda undir niðri.“ Einmitt þess vegna segir hann þessa sögu. „Þetta var algjört helvíti – en við komumst í gegnum þetta. Verði frásögn mín til þess að hjálpa einhverjum foreldrum, ömmum og öf- um eða öðrum aðstandendum, að átta sig á því að börn þeirra eru haldin illum öndum er tilganginum náð. Það verður að bregðast við þessu, það getur verið stórhættulegt að láta þetta krauma undir niðri.“ Ekki hefur verið tæpt á því í þessari grein en eflaust gæti einhvern grunað að um geð- ræn vandamál væri að ræða. Andsetning er okkur flestum svo fjarri. „Ég er ekkert hissa á því,“ segir Bjarni, „og auðvitað þráspurði ég mig þeirrar spurningar sjálfur meðan á þessu stóð. En þá hefði þurft að vera um hópgeðveiki að ræða, vitnin eru það mörg. Því miður, þetta var ekki geðveiki. Því miður segi ég, vegna þess að ég vildi miklu frekar hafa verið geðveikur en að hafa þurft að upplifa þetta!“ Morgunblaðið/Ómar Bitfarið á dóttur Bjarna. Það á sér engar eðlileg- ar skýringar. *Það skipti engumtogum að þeirsnarsnerust á hæli og spóluðu til baka – leðjan gekk niður af þeim.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.