Morgunblaðið - 10.02.2014, Side 23
MINNINGAR 23
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 10. FEBRÚAR 2014
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar, amma
og langamma,
AUÐUR HÁKONARDÓTTIR,
Víðilundi 3,
Garðabæ,
lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu í Hafnar-
firði 4. febrúar.
Útförin fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík
fimmtudaginn 13. febrúar kl. 13.00.
Gunnar H. Jónsson,
Jóna Gunnarsdóttir,
Hákon Gunnarsson,
Guðrún Gunnarsdóttir,
Kristín Gunnarsdóttir
og ömmubörn.
✝
Systir okkar,
KRISTRÚN ANNA FINNSDÓTTIR
frá Ytri-Á,
Ólafsfirði,
lést miðvikudaginn 29. janúar á dvalar-
heimilinu Hlíð, Akureyri.
Útför hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar
látnu.
Fyrir hönd systkinanna,
Eva Finnsdóttir.
✝
Ástkær eiginkona mín, móðir, tengdamóðir
og amma,
JÓHANNA G. SVEINSDÓTTIR,
Skipholti 49,
Reykjavík,
lést miðvikudaginn 22. janúar á
Landspítalanum eftir stutta sjúkralegu.
Jarðarför fór fram í kyrrþey.
Jón Þórðarson,
Ægir Þór Jónsson, Jan Dodge Jónsson,
Elsa Jóhanna Ægisdóttir,
Reynir Jón Ægisson.
MA sem afi minn Guðmundur G.
Bárðarson hafði gegnt hálfri öld
áður. Heldur leiddist honum
stærðfræði þar til ég laumaði því
að honum að vel gæti 22+4=2,
ef klukkan er 22 og bætt er við
fjórum tímum, þá er klukkan
tvö. Eftir þetta var hann sáttur
við stærðfræðina, því hann hafði
opinn huga.
Þórir stundaði rannsóknir og
skrifaði greinar um fræði sín
ásamt kennslunni. Minnisstæð-
ust er mér samt Dýrafræði, sem
hann samdi að hætti Bjarna Sæ-
mundssonar. Sú bók er einhver
sú besta sem völ er á um það efni
enda samin með opnum huga og
innsæi. Um hver jól sendi hann
mér kort með jólakveðskap sem
hann hafði snúið saman og get
ég ekki stillt mig um að senda
honum lítið ljóð á kveðjustund.
Tildrög þess er rússnesk bæn
sem mér var kennd:
Drottinn, veittu mér innsýn í þjáningar
annarra manna
Kenndu mér að þekkja leiðina til ann-
ars fólks.
Kristján Hreinsson sneri
þessu í ljóð fyrir mig sem ég til-
einka Þóri:
Innsýn
Minn guð sem lífsins gæska er
og gjöf með mætti sönnum,
ég vil hann innsýn veiti mér
og veg að öðrum mönnum.
Ég bið minn guð um góðvild hér
og gleðistundir líka;
hans innsýn vonir veitir mér
og visku kærleiksríka.
Að skilja þjáning, þraut og neyð
ég þarf á vegi björtum,
því innsýn mín er lífsins leið
sem lýsir breyskum hjörtum.
Unu og dætrunum sendi ég
hjartans kveðjur, söknuðurinn
og minningin um góðan mann
mun sameina okkur.
Guðmundur Ólafsson.
Er Hel í fangi minn hollvin ber,
Þá sakna einhvers af sjálfum mér.
(Stefán frá Hvítadal)
„Þórir Haraldsson var óvenju
heilsteyptur maður“. Svo komst
Stefán Þorláksson að orði þegar
ég bar honum andlátsfregnina.
Þessi mannlýsing hæfir Þóri.
Hann var vandaður til orðs og
æðis, kennari af lífi og sál. Hann
lék DNA eða frumdýr ef því var
að skipta og hélt athygli nem-
enda óskiptri. Vísbendinga-
spurningar og ísbjarnasögur
vöfðust töfrum í meðförum hans.
Á kennarastofunni var hann rök-
ræðumeistari og fræðari. Hann
var sögumaður og einkar lagið
að koma með smellnar tilvitn-
anir og vísur við ótrúlegustu
tækifæri. Hann lyfti líðandi
stund á flug með glaðværð og
hlýlegri nærveru. Það er mikil
hamingja fólgin í farsælu einka-
lífi og atvinnulífi. Þóri auðnaðist
hvort tveggja. Með Unu sinni og
dætrunum og fjölskyldum þeirra
og sem virtur kennari og sam-
starfsmaður í Menntaskólanum.
Í andviðrum síðustu ára, þegar
hann tók hvern mótbyr í fangið
á fætur öðrum og veikindin lögð-
ust á hann, var Una sterka eikin
við hlið hans. Með ótrúlegri
þrautseigju tókst honum að
ljúka 40 ár starfsævi við skól-
ann. Mörgum kenndi Þórir um
dagana, en mér mest, ég gat allt-
af leitað ráða og svara hjá hon-
um. Nú er gamla krítartaflan
farin úr M1 og engar ísbjarna-
sögur lengur. En merkið stend-
ur þótt maðurinn falli. Vel
menntaðir kennarar, flestir
gamlir nemendur okkar Þóris,
hafa tekið við, ég hætti í vor og
náttúrufræðin blómstrar í skól-
anum. Með trega og þakklæti
kveð ég hollvin og nánasta sam-
starfsmann til þrjátíu ára. Þakk-
að er fyrir hnökralaust og gæfu-
ríkt samstarf, slíkt er ekki
sjálfgefið. Af vandalausum var
Þórir mér mætastur manna.
Unu og fjölskyldunni eru færðar
innilegustu samúðarkveðjur frá
okkur Ólafi.
Um stund skal við andviðrin una
með einhuga þorsins.
Til dýrðlegu daganna muna
og dreyma til vorsins.
(Stephan G. Stephansson)
Far þú í friði kæri vinur.
Kristín Sigfúsdóttir.
Í minningu okkar var Þórir
glettinn maður, var alltaf til í að
fræða mann og stríða smá. Svo
kom glottið og ógleymanlegi
hláturinn. Þórir var yndislegur
maður sem hafði góða nærveru
og fannst okkur oft hann vera
manna fróðastur um hin ýmsu
málefni. Alltaf fannst okkur
gaman þegar hann og Una komu
í heimsókn þegar við vorum
yngri í Garðabænum og fór hann
með okkur í smá rölt um hraunið
og fræddi okkur um hinar ýmsu
mosategundir og aðrar plöntur,
hann sagði svo skemmtilega frá
að við ungu peyjarnir urðum
heillaðir af flóru landsins fyrir
hans tilstuðlan.
Þegar farið var í heimsókn
norður til þeirra Þóris og Unu í
gegnum árin þá vantaði ekki upp
á gestrisnina þar frekar en fyrri
daginn og alltaf fengum við hlý-
legt viðmót þeirra hjóna.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Við sendum Unu, Rósu Rut,
Ingu Jónu, Ásu Völu og fjöl-
skyldum þeirra samúðarkveðjur.
Sigurpáll og Ómar Birg-
issynir og fjölskyldur.
Á ýmsu hefur gengið síðan
vinur minn Þórir Haraldsson
greindist með krabbamein árið
2008 en mér varð ekki ljóst að
hann væri mjög hart leikinn fyrr
en sl. sumar þegar við fórum
saman út í Héðinsfjörð að líta til
berja. Við höfðum farið fleiri
slíkar ferðir tveir saman upp að
Hraunsvatni og Hálsjökli, út í
Fossdal og margra annarra
ferða minnist ég sem við fórum
með fjölskyldum okkar og vin-
um, bæði innanlands og utan.
Það brást ekki í Héðinsfjarðar-
ferðinni frekar en endranær að
Þórir gæti miðlað af fróðleik sín-
um um gróður jarðar og fuglalíf
en líka um örnefni og sögu í Héð-
insfirði. En þrótturinn var orð-
inn lítill. Afrakstur berjatínsl-
unnar var rýr að þessu sinni, við
duttum báðir í ferðinni sem var
þó góð.
Leiðir okkar Þóris lágu fyrst
saman fyrir tæpum 50 árum þeg-
ar við komum í 3. bekk MA. Fór-
um reyndar báðir í stærðfræði-
deild en vorum ekki í sömu
bekkjardeild. Eftir stúdentspróf
fórum við í ólíkar áttir og kynnt-
umst í raun ekki fyrr en við vor-
um báðir farnir að kenna við MA
5 árum síðar. Eftir það urðum
við nánir vinir og áttum saman
margar góðar stundir „í leik og
starfi“ sem gott er að minnast.
Þórir entist mun lengur við
kennsluna eða nánast til æviloka
enda kennari af hugsjón, hæfi-
leikum og samviskusemi. Hann
tamdi sér snemma kennsluhætti
sem miðuðust við hæfni hans til
að gera námsefnið lifandi og
glæða áhuga nemenda sinna á
því. Margir sem nú starfa að
náttúruvísindum sækja áhuga
sinn til Þóris og líflegra kennslu-
stunda hans. Hann lét ekki
tækninýjungar og tískusveiflur
trufla þessa kennsluhætti sína
og hafði gjarnan við orð: „Nem-
endur læra það sem þeir skrifa“.
Ég er ekki dómbær á nátt-
úrufræði en hygg að það sem eft-
ir Þóri liggur á því sviði felist
ekki svo mjög í skipulegri gagna-
söfnun á vettvangi þrátt fyrir
þannig fræðastörf á yngri árum.
Hinsvegar safnaði hann ógrynni
upplýsinga úr bókum, blöðum og
tímaritum í spjaldskrár sem
nýttust honum við kennsluna.
Sérstakt áhugasvið hans voru
hvítabirnir og komur þeirra til
Íslands um aldir og um þessar
skepnur held ég að hann hafi
skrifað hjá sér allt sem hann
fann skráð á íslensku.
Þóri var margt til lista lagt
sem við vinir hans fengum að
njóta. Umfram allt ber að nefna
ágætt skopskyn sem birtist í
hnyttnum tilsvörum, útúrsnún-
ingum, óvæntum sjónarhornum
á málin og skemmtilegum uppá-
tækjum eins og vinir hugarfóstra
hans „Hrólfs og Ninnu“ fengu að
kynnast. Hann hafði breiðan
smekk fyrir tónlist, leiklist,
myndlist og bókmenntir og orti
jafnvel sjálfur á jólakort til sinna
nánustu. Sá kveðskapur þykir
líklega ekki tækur á sálmabækur
en ekkert skorti á einlægnina og
notalegheitin eins og hann hefði
sennilega orðað það sjálfur. Það
voru ekki síst þessi notalegheit
sem einkenndu Þóri og heimilis-
braginn hjá þeim Unu. Í raun er
ekki hægt að segja frá Þóri
nema geta Unu líka því hún var
honum ómetanleg stoð og stytta
frá upphafi kynna þeirra og til
hinstu stundar. Ég votta henni,
dætrum þeirra og öðrum að-
standendum og vinum Þóris
samúð mína.
Gunnar Frímannsson.
Kær vinur, Þórir Haraldsson,
er fallinn frá. Ósegjanlega
hryggilegt er að sjá á eftir svo
góðum dreng.
Kynni okkar má rekja allt til
haustsins 1968, er við hófum
báðir nám í líffræði við Háskóla
Íslands. Okkur samnemendum
Þóris varð fljótt ljóst að þar fór
skemmtilegur maður, húmoristi
af Guðs náð, hæglátur, en hug-
urinn síkvikur og frjór. Honum
lét vel að tala við alla og fangaði
athygli með skörpum athuga-
semdum og spurningum, sem
oftar en ekki voru frá óvæntum
sjónarhóli. Þórir hafði mikinn
áhuga á íslensku máli, orðatil-
tækjum og margslunginni merk-
ingu orða. Hann þreifst á góðum
orðaleikjum og grínsögum.
Að loknu námi gerðist Þórir
líffræðikennari við Menntaskól-
ann á Akureyri. Að því hafði
hann stefnt með náminu. Hlut-
verk fræðarans var honum í blóð
borið. Hann var stoltur af skól-
anum og starfi sínu þar. Honum
var einkar lagið að vekja áhuga
nemenda á námsefninu með frá-
sagnarlist sinni og óvenjulegri
framsetningu.
Aðspurður sagði fyrrum nem-
andi hans: „Þórir var eftirminni-
legasti kennarinn sem kenndi
mér. Maður beið eftir líffræði-
tímunum. Skemmtilegast var í
dýrafræðivalinu, þar sem tím-
arnir byrjuðu á vísbendinga-
spurningum og á prófum var
bónusspurning, þar sem reyna
mátti að búa til slíka spurningu
sjálfur.“
Áhugi Þóris á faginu og starf-
inu var mjög lifandi og birtist
m.a. í því að hann skrifaði í
spjaldskrá, sér til minnis, útdrátt
úr öllu líffræðilegu efni sem
hann las og átti orðið þar mikinn
fræðasjóð að leita í þegar þurfti.
Sérstakt áhugasvið hans var
hvítabirnir. Um þá vissi hann
flestum meira.
Þórir var einstaklega vel
kvæntur maður og engin leið er
að minnast hans án þess að
nefna Unu, eiginkonu hans. Þau
voru ákaflega samhent og sam-
rýnd hjón og afar góð heim að
sækja, eða eiga hvers kyns stund
með. Höfum við hjónin notið ein-
stakrar gestrisni þeirra og hlýju
um árabil.
Ánægjulegt er að minnast
ferða með þeim um Eyjafjörð og
nærsveitir, þar sem Þórir hafði
unun af að sýna okkur og segja
frá öllu markverðu. Góðar minn-
ingar eigum við einnig úr lengri
ferðum, eins og á Langanes og í
Loðmundarfjörð, til Færeyja og
í brúðkaup elstu dóttur þeirra í
Kairó.
Afar dýrmætar hafa líka verið
stundir spjallsins, norðan eða
sunnan heiða og ætíð eitthvert
umhugsunarefni skilið eftir í
hugum okkar eftir hvern fund
við þau eða símtal. Það er mann-
bætandi að kynnast svo gefandi
og frjóu fólki á lífsleiðinni.
Velferð fjölskyldunnar var
Þóri mjög mikils virði. Þess nutu
dætur þeirra Unu, þær Rósa
Rut, Inga Jóna og Ása Vala í rík-
um mæli og bera kostum for-
eldra sinna gott vitni. Þórir var
mjög laginn við börn og hafði un-
un af því að segja þeim frá og
skapa þeim ævintýraheim. Afa-
börnin og fleiri börn kunnu vel
að meta það. Hann kunni að
meta þau og hugarheim þeirra.
Minning Þóris Haraldssonar
mun lifa með okkur.
Við þökkum áralanga ómetan-
lega vináttu og tryggð og biðjum
honum og fjölskyldu hans allrar
blessunar.
Skúli Þór Magnússon,
Guðrún Jóhannesdóttir.
Það er stór hópur vina hnípinn
í dag og hefur verið lengi vegna
veikinda og andláts einstaks vin-
ar. En svo skrítið sem það er þá
eru þessir sömu vinir nokkuð
sáttir úr því sem komið var.
Svona er mannssálin skrítin.
Hann hafði stigið krappan dans
við krabbamein í fimm ár en sem
betur fer oft átt mjög góða tíma.
Það eru orðin 45 ár síðan Una
vinkona mín sagði mér frá strák
af Dalvík sem væri í MA og héti
Þórir, ég sá strax að hún var
mjög spennt. Þessi spenna varð
að hjónabandi og þremur dætr-
um sem eiga barnabörnin hans
sex. Mikil gæfa fyrir þau öll. Þar
með hófust kynni mín af þessum
frábæra vini sem hefur verið allt
það sem góður vinur getur verið.
Þessi ár hafa þotið áfram og á
þeim hafa orðið til yndislegar
minningar.
Þórir hafði einstaka nærveru,
var fróður um flest sem máli
skiptir og einstaklega fróður um
sín hjartans mál, náttúruna og
lífið allt, sem hann helgaði sitt
ævistarf við MA. Svo lengi hefur
hann kennt að fyrstu nemend-
urnir eru orðnir ömmur og afar
nemendanna í dag. Sú staðreynd
hefur orðið honum gott efni í
gamansögur.
Ég held að sé ekki ofsagt að
mjög margir nemendur hans í
MA töldu hann sinn besta og
skemmtilegasta kennara. Enda
var hann í stöðugri leit að nýju
efni utan skólabókanna.
Á heimilinu var hann alveg
eins. Frábær eiginmaður og fað-
ir sem sinnti sínum dætrum af
einstakri umhyggju sem bauð
t.d. upp á fjöruferðir og ýmsar
aðrar óhefðbundnar ferðir ásamt
endalausum kósístundum með
þykkar og þungar gersemabæk-
ur ásamt ótalmörgu öðru. Þessar
konur voru hans líf og yndi og
ekkert annað en það besta var
nógu gott fyrir þær.
Þeir sem þau hjónin sóttu
heim nutu rausnarveitinga,
skemmtunar í gamansögum sem
hann hafði á hraðbergi og léttr-
ar stríðni í mjög nákvæmri
blöndu og góðri, sem særði eng-
an en skemmti öllum. Enda
þekki ég ekki annað fólk sem á
stærri og fjölbreyttari vinahóp
en þann sem vandi komur sínar í
Furulundinn og seinna í Ása-
byggðina.
Öll munum við eiga erfitt með
að venjast því að stóllinn hans
stendur tómur og að vinurinn
okkar kæri er ekki lengur viðlát-
inn en ég ákveð að trúa því að
hann verði ekki langt undan því
það er svo miklu léttara.
Á hverju ári kom kort úr Ása-
byggðinni um jól og var í því
kveðskapur frá Þóri, sem oftast
var tengdur jólum, áramótum og
liðnu ári. En stundum líka lífsins
speki og hugleiðingar. Þessi kort
eru á gersematöflunni minni og
við fráfall Þóris eykst gildið enn
frekar.
Niðurlag úr korti 2007:
Hættum að deila sýnum vinarvott
vitkumst nú öll, við höfum það svo
gott.
Úr korti 2011:
Árið gamla er að líða
eftir næsta skulum bíða.
Minningarnar myndir smíða
margar glitra aðrar svíða.
Á afmæliskorti til mín sl. ár
skrifaði hann: „Enn er heilt ár í
að þú fáir svar við því hvað ger-
ist þegar þú verður „sixty four“
eins og Bítlarnir sungu svo vel
um árið.“ Vonandi fæ ég að vita
það en hann fær það því miður
ekki. Okkar samúð er hjá Unu,
dætrunum og þeirra fjölskyld-
um. Þeirra missir er mjög mikill.
Elsku vinur. Vinátta er ómet-
anleg, við þökkum þína.
Sólveig og Sævar.
Ég kynntist Þóri Haraldssyni
fljótlega eftir að ég flutti til Ak-
ureyrar um 1990. Hann reyndist
mér framúrskarandi frá fyrstu
stund og vildi mér vel í öllu.
Spurði um ættir, uppruna, nám
og áhugamál. En Þórir hafði
ekki bara þennan velvilja við
mig. Hann vildi öllum vel og
hafði það jafnvel að keppikefli.
Prúðmennska lá í fari hans og
aldrei heyrði ég hann tala hryss-
ingslega um náungann. En hann
sat ekki á misþóknun sinni þegar
honum mislíkaði.
Þórir var bóngóður. Hann
hjálpaði mér ávallt þegar á
þurfti að halda. Hann hlustaði á
mig og gaf mér góð ráð þegar
ekki gekk allt upp í skólanum,
hjálpaði mér við flutninga þegar
ég þekkti fáa, fór í gönguferðir
með mér og hjálpaði mér að lesa
í náttúruna, sýndi mér sveitina
sína en hann unni mjög föður-
túnum sínum. En best var bara
að sitja með þeim Þóri og Unu
og spjalla um allt á milli himins
og jarðar á hlýlegu og snyrtilegu
heimili þeirra hjóna.
Þórir Haraldsson var gæfu-
maður í einkalífi sínu enda hjón-
in til fyrirmyndar um reglusemi
og háttprýði. Gestrisin, vinmörg
og heimilið rausnargarður. Það
var því gott að sækja þau hjónin
heim. Dætur sínar studdi Þórir
með ráðum og dáð og var forsjáll
um hag þeirra. Þeim var einnig
búið öryggi sem stóð rótum í ást-
ríki foreldra þeirra, einnig í því
trausti og þeirri vinhylli sem fað-
ir þeirra naut útífrá. Dæturnar
minna um margt á föður sinn. Á
hverju ári var svo unnið að end-
urbótum að húsinu við Ásabyggð
því vinnusamur var Þórir og
gekk að hverju verki af stillingu
sem honum var eiginleg.
Vettvangur Þóris í kennslunni
var náttúrufræðin þar sem hann
átti farsælan feril í 40 ár við
Menntaskólann á Akureyri.
Hann naut þess að segja ungu
fólki til, var því góð fyrirmynd og
metnaðargjarn til verka. Nem-
endurnir kunnu að meta hlýjuna,
leiðsögnina, kennarann og ekki
síst manninn.
Þórir Haraldsson var ekki
bara líffræðingur því hann var
forvitinn um tilveruna og velti
henni mikið fyrir sér. Hann hafði
yndi af íslensku máli, setti sam-
an stökur, sótti menningarvið-
burði reglulega, lagði fyrir sig og
aðra lífspekilegar gátur, hverra
svar mér fannst stundum langt
utan seilingar.
Þær pælingar með Þóri verða
því miður ekki fleiri.
Þórir hafði farið víða um Ís-
land og stikað um óbyggðir
landsins til rannsókna eða bara
til að sjá sig um. Þau hjónin
höfðu einnig farið víða um heim-
inn. Þannig naut Þórir stundar-
innar og hvatti aðra til að gera
það sama.
Síðustu ár hefur Þórir átt í
baráttu við erfið veikindi sem
engu eirðu að lokum. Það var oft
erfitt að sjá þennan gjörvilega
mann verða krabbanum að bráð.
Veikindum sínum tók Þórir af
æðruleysi og ró. Reyndi enn
SJÁ SÍÐU 24