Málfríður - 15.03.2005, Blaðsíða 18

Málfríður - 15.03.2005, Blaðsíða 18
18 MÁLFRÍÐUR ólík og greina úr um það hvort um spurningu eða fullyrðingu er að ræða. Fullyrðingarsetningu fylgja nokkrar höfuðhreyfingar niður á við („já“) en ef um spurnarsetningu er að ræða er augabrúnum lyft upp. Þetta gildir þó aðeins um já/nei-spurningar því ef um hv-spurningar er að ræða eru augabrúnir hnykklaðar og augu pírð. Látbrigði gegna svipuðu hlutverki í flestum táknmálum heims en þó eru ein- stök atriði ólík (sjá t.d. Sutton-Spence & Woll 1999 fyrir BSL, Valli & Lucas 2000 fyrir ASL, Engberg- Pedersen 1998 fyrir danska táknmálið). Málsamfélagið - nándin við íslensku Eins og sjá má er íslenska táknmálið um margt frá- brugðið íslensku, á sama hátt og önnur táknmál eru um margt frábrugðin þeirri þjóðtungu sem þau búa við. Táknmál heimsins eiga margt sameiginlegt án þess að vera alveg eins, táknforðinn eða orðaforðinn (einmitt sá frosni) er oft mjög ólíkur. Þess vegna er það ekki sjálfsagt að heyrnarlausir skilji hver annan ef þeir hafa ólík táknmál að móðurmáli. En það er líka athyglisvert að líta á táknmálin frá félagslegu sjónarhorni. Eins og áður sagði eru um 2-300 Íslendingar sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Táknmálssamfélög eru yfirleitt mjög lítil og eru alltaf minnihlutamál í samfélagi þar sem raddmál er stóra málið. Óhjákvæmilega verður táknmálið fyrir talsverðum áhrifum frá raddmál- inu/þjóðtungunni. Þessi áhrif má sjá í nýyrðum, lánsorðum eða lánsþýðingum, í setningafræðinni o.fl. Hér má segja að táknmál og raddmál séu í mikilli snertingu hvort við annað. Á mörkum þessara mála verður svo til eitthvert samskipta- mál sem hvorki telst íslenskt táknmál né íslenska („contact language“ sbr. Lucas og Valli 1989). Þeir heyrandi sem læra táknmál eiga það til eins og áður var minnst á að setja í fyrstu einungis tákn fyrir hvert íslenskt orð sem þeir vilja segja. Það mál sem þá er talað er ekki íslenskt táknmál heldur kallast það táknuð íslenska. Málfræði íslenskunnar er þá í megin atriðum fylgt en í stað þess að tala með rödd eru orðin borin fram með höndum. En það er til annað afbrigði snertimáls sem er ekki eins bundið íslenskunni. Þetta afbrigði tala þeir sem lengra eru komnir í táknmálsnáminu og heyrnarlausir nota gjarnan þetta mál eða málafbrigði þegar þeir tala við heyrandi. Hér er um að ræða e.k. blöndu af mál- fræði táknmálsins og íslenskunnar (eða þess radd- máls sem við á). „Snertimál“ eða millimál af þessu tagi hefur líka sést í samskiptum tveggja heyrn- arlausra og eru ástæðurnar fyrir því taldar vera félagslegar, að við formlegar aðstæður og þar sem fólk þekkist lítið noti heyrnarlausir stundum þetta millimál (sbr. Lucas og Valli 1989:24). Táknmál þróast mjög hratt og er ein ástæða þess talin vera sú að þau hafa ekki ritmál. Það er þó ekkert sem einkennir einungis táknmál því samkvæmt Dahl (1994:162) er það einungis minni- hluti tungmála heims sem hafa ritmál. Af þessum sökum meðal annars er erfitt að staðla táknmálin og þau breytast gjarnan hraðar en raddmál gera yfirleitt. Lítið er um orðabækur um táknmál þó það færist sífellt í aukana að þær séu gefnar út (núorðið oftast á tölvutæku formi) og stutt er síðan málfræði rannsóknir hófust á táknmálum heimsins. Það er því stundum erfitt að segja til um hvað er rétt og hvað er rangt þegar táknmál eru annars vegar, staðlana vantar einfaldlega. Hér verður að treysta skoðun málhafanna (þeirra sem hafa tákn- mál að fyrsta máli) en hún getur verið mjög ólík frá einum málhafa til annars. Mikill kynslóðamunur er á málhöfum í íslenska táknmálssamfélaginu og bera kynslóðir merki þeirrar stefnu sem ríkti þegar þær gengu í skóla. Hér hafa aðeins verið viðruð nokkur grundvall- aratriði íslenska táknmálsins en þeim engan veginn gerð ítarleg skil. Íslenska táknmálið er lítið rann- sakað mál og bíða ógrynni verkefna þeirra sem innan þessara fræða starfa. Hvernig táknmálið mun breytast í framtíðinni mun tíminn leiða í ljós en ljóst er að auknar táknmálsrannsóknir9 og meiri vitund málhafanna mun leiða til mikillar vinnu og umræðu á þessum vettvangi á næstu árum og áratugum. Heimildir Battion, Robbin. 1980. Signs Have Parts: A Simple Idea. Í C.Baker & R. Battison. Ritstj. Sign Language and the Deaf Community. Silver Spring, MD: National Associaton of the Deaf, 35-51 (endurprentað í Valli og Lucas 2000:231-242). Bergman, Brita. 1994. Signed Languages. Í I. Ahlgren & K. Hyltenstam. Ritstj. Bilingualism in Deaf Education. Hamburg: SIGNUM-Verlag, bls. 15-35. Brennan, Mary. 1994. Pragmatics and Productivity. Í I. Ahlgren, B. Bergman & M. Brennan. Ritstj. Perspectives on Sign Language Usage. Papers from the Fifth International Symposium on Sign Language Research. Vol.2. Durham: The International Sign Linguistics Association, bls. 371-390. Dahl, Östen. 1994. Spoken languages. Í I. Ahlgren & K. Hyltenstam. Ritstj. Bilingualism in Deaf Education. Hamburg: SIGNUM-Verlag, bls. 161-167. Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands. Engberg-Pedersen, Elisabeth. 1998. Lærebog i dansk tegnsprogs gramm- atik. Kaupmannahöfn: KC. 9 Táknmálsrannsóknir hafa verið stundaðar á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta frá stofnun hennar árið 1991 og við Háskóla Íslands frá árinu 2002.

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.