Skessuhorn


Skessuhorn - 14.05.2014, Blaðsíða 22

Skessuhorn - 14.05.2014, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 14. MAÍ 2014 Hann lofaði fögru, sem enginn gat efnt - er atkvæði var hann að sníkja Vísnahorn Það stefnir víst í að yfir okkur gangi bæjar- og sveitarstjórnarkosningar einu sinni enn. Hætt er við að lesendabréfum fækki nokkuð í prentmiðlunum svona fyrst eftir kosningarnar og sömuleiðis eru sterkar líkur á að einhverj- ar núsitjandi bæjar- eða sveitarstjórnir bíði ósigur sem fjölmiðlarnir geta svo gert sér mat úr svolitla stund ef lítið er um fréttir af öðru tagi. Stephan G. Stephansson orti stuttu fyrir aldamótin 1900 um stjórnmálamann sem beið ósigur. Þrátt fyrir aldur sinn gætu vísurnar allt eins átt við daginn í dag: Hann lofaði fögru, sem enginn gat efnt, er atkvæði var hann að sníkja - en slympinn er þjóðviljinn, slysið er hent, hann slapp ekki á þing til að svíkja. En láðu ei forlög, sem fella hvern mann - hann fékkst við sinn andstæðing rama, sem bæði var lagnari og lygnari en hann og lofaði alveg því sama. Austur á landi fyrir mörgum árum urðu þeir atburðir að kona var kosin í hreppsnefnd sem var heldur fátítt á þeim tímum karlrembu og kvenfyrirlitningar og hvers annars sem þið munið eftir af neikvæðum orðum um þá tíma. Maður hennar var dugnaðarbóndi en frekar heimakær og lét yfirleitt sem minnst fyrir sér fara. Um þessa atburði kvað Hjálmar Guð- mundsson í Fagrahvammi. Athygli honum enginn veitir þó ötull sé hann við búskapinn. Menn vita tæplega hvað hann heitir hreppsefndarkonumaðurinn. Það hefur löngum þótt kostur á sveitar- stjórnarmönnum og ekki síst oddvitum að fara vel með hina sameiginlegu sjóði og reyndar öll verðmæti. Um ágætan og ógiftan oddvita kvað Guðmundur Helgason: Í öllu var er oddvitinn enginn þar mun sonur á meðan hjarir hreppurinn ég hygg hann spari konur. Hvað sem öllum kosningum líður kem- ur nú vorið yfir okkur annað hvort gott eða minna gott. Kalt eða hlýtt, þurrt eða vott. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að hugsa sér fallega vornótt þegar menn heyra eftirfarandi vorvísu eftir Þórmund Erlingsson: Blundi værum sefur sær, silfurtær er áin, lindin hlær og grundin grær, golan bærir stráin. Svo gætt sé nú fyllsta jafnræðis kemur hér önnur sem að öllum líkindum er ort aðeins fyrr á árinu eða kannske um sumarmálin eða svo. Bjartsýnin leynir sér ekki en nafn höf- undarins er mér ekki kunnugt: Yfir grund er orpið snjó, álftir á sundi kvaka meðan blunda bljúg í ró blómin undir klaka. Sveinbjörn Beinteinsson sendi góðkunn- ingja sínum eftirfarandi vísu og verður að telja þetta fagrar og frómar óskir: Fagnaðsmegin fáðu hlé fjarri hverjum stormi. Hjá þér laufgist líkt og tré ljóð í góðu formi. Norður í Miðfirði mun þessi hafa orðið til og var stundum rauluð á mínum sokkabandsárum: Verði grýtt í götunni, gangirðu eftir broti. Verði skreipt á skötunni skrepptu að Hnausakoti. Hnausakot hefur nú verið í eyði um langa tíð og mætti víst segja þar um eins og Bólu Hjálmar sagði um annað eyðibýli: Hér er sætið harmi smurt, höldar kæti tepptir rekkur mætur rýmdi burt -rústin grætur eftir. Sumir menn eru það sem kallað er beturvit- ar og telja sig alltaf vita betur en aðra. Vafa- laust er það alltaf með réttu. Um einn slíkan kvað Jón Bergmann: Aldrei var svo ráðið ráð, rætt eða fært í letur alvara eða hnyttið háð að Helgi vissi ei betur. Einu sinni var það íþrótt stráka að þekkja bifreiðategundir og árgerðir á löngu færi. Ekki er ég viss um að það gengi eins vel nú. Maður nokkur hafði sett Benz merki framan á bifreið sína sem að öðru leyti var austantjald- sættuð og varð það tilefni þessarar vísu Ólafs Gunnarssonar frá Borgum: Margvíslegt manna gaman mætti teikna á kort. Bíllinn er Bens að framan, bakhlutinn Lada sport. Mörg og breytileg eru örlög okkar mannanna og hefur svo lengi verið. Íslendingasögurnar segja okkur nokkuð um örlög sumra forfeðra okk- ar sem voru engu blíðari eða flækjuminni á þeim tímum. Þorsteinn Erlingsson orti um þá hluti: Meinleg örlög margan hrjá mann og ræna dögum. Sá er löngum endir á Íslendingasögum. Margir hafa lagt út í heiminn fullir bjart- sýni og vonar en rekið sig illilega á að heimur- inn er ekki alltaf eins blíður og menn vonuðu. Stefán Rósantsson í Gilhaga orti: Vörumst bræður heiminn hér hann er gæðatregur. Sauðargæru undir er, úlfur hræðilegur. Því miður er það svo að ekki hafa allir nægi- legt af öllu, hvorki hérlendis né annarsstaðar. Í mörgum tilfellum má kenna það rangri for- gangsröðun. Annaðhvort stjórnvalda eða þá þeirra eigin. Tæplega getur þó verið um að ræða alvarlega kreppu meðan verulegu magni matvæla er hent vegna þess að þau standast ekki einhverjar ímyndaðar kröfur. Það eru líka gömul sannindi að sulturinn er besta krydd- ið og þann fróðleik batt Ólafur Gunnarsson í stuðla með þessum orðum: Þeir sem hafa allsnægtir og auð eta mat í salarkynnum fínum en ég hef aldrei smakkað betra brauð en bita sem ég át úr vasa mínum. Sitt af hverju er það sem mönnunum eða öllu heldur hinum ýmsu sértrúarflokkum hef- ur dottið í hug að væri syndsamlegt og er þá vitnað óspart í hinar ýmsu greinar Biblíunnar til staðfestingar. Um háttalag frelsarans forð- um tíð hafði Sveinbjörn Beinteinsson þetta að segja: Aldrei kom hann inná bar eða lék með konum en forðum þegar veislan var vínið kom frá honum. Þetta blessað líf fer semsagt allavega með okkur og sumir fá meira af þessari en aðrir af annari grein gæðanna. Ætli niðurstaðan sé ekki eitthvað á þessa leið: Það ei brást við þetta líf, þar um skást má segja: Fæðast, bjástra, faðma víf, fölna, þjást og deyja. Með þökk fyrir lesturinn, Dagbjartur Dagbjartsson Hrísum, 320 Reykholt S 435 1189 og 849 2715 dd@simnet.is Efnt hefur verið til samstarfs milli Dalabyggðar og Ungmenna- sambands Dalamanna og Norð- ur-Breiðfirðinga, UDN, um starf íþrótta- og tómstundafull- trúa. Nýlega var ráðinn í starfið Guðni Albert Kristjánsson og mun hann samhliða einnig verða fram- kvæmdastjóri UDN. Um er að ræða 50% starf. Í starfið var ráð- ið frá og með 1. júní næstkomandi en Guðni hefur reyndar séð um knattspyrnuæfingar lengst af frá því hann flutti í Búðardal í ágúst á síðasta ári. Guðni segir að áhugi fyrir frjálsum íþróttum sé einnig talverður á svæðinu og hann á von á því að einnig verði frjálsíþrótta- æfingar í sumar. Guðni er Borg- nesingur að uppruna og er grafísk- ur hönnuður að mennt. Hann býst ekki við að starfa mikið á þeim vett- vangi núna eftir að hann er fluttur í Búðardal, en það bíði þó að huga að og bæta vefsíðuna hjá UDN. Áhuginn er lúmskt mikill Eins og áður segir flutti Guðni Albert í Búðardal í ágúst á síð- asta sumri ásamt unnustu sinni Jóhönnu Lind Brynjólfsdóttur og þau voru þá nýbúin að eignast frumburðinn, Söru Rós. „Þetta er rólegt og gott að búa hérna, stutt í vinnuna og allt. Ég var í fæðing- arorlofi þegar ég kom og tók þá fljótlega við fótboltaæfingunum. Ég var búinn að vinna talsvert við mannvirkjagerð, aðallega við að reisa stálgrindahús, þannig að ég réð mig í húsasmíðar hérna. Það voru reyndar bara þrír dagar til að byrja með sem mér var lofuð vinna en ég er í smíðavinnunni ennþá og býst við að ég verði í smíðunum áfram í sumar með 50% starfinu hjá UDN og Dalabyggð.“ Spurð- ur um íþróttaáhugann í Dölun- um segir Guðni að hann sé lúmskt mikill. „Það hafa samtals verið um 40 manns sem hafa mætt á fót- boltaæfingarnar, en kjarninn er svona um þrjátíu. Stærsti hópurinn eru grunnskólanemar og ungt fólk um tvítugt. Svo kemur talsvert bil í okkur nokkra kalla í bumbubolta. Aldursbilið er ansi breitt,“ segir Guðni og brosir. Kosning um lit á búningunum Guðni segir að ekki náist í keppnis- lið nema þá til að keppa við ná- grannana á Hólmavík, sem UDN hafi verið í vinasamskiptum við. Stundum sé líka efnt til keppni og samskipta við Kormák á Hvammstanga, íþróttahóp í Vest- ur-Húnavatnssýslu. „Hérna voru starfandi mörg ungmennafélög á árum áður. Núna sameinast fólk úr þessum félögum á æfingum hjá UDN. Þetta eru t.d. Ólafur Pá í Búðardal og Laxárdal, Æskan í Suður-Dölum, Stjarnan í Saur- bænum, Dögun á Fellsströnd- inni og Afturelding á Reykhólum. Mér sýnist að oft komi upp spurs- mál um hvaða búning eigi að nota þegar þessi félög keppa sameig- inlega. Þess vegna er ætlunin að efna til kosninga á netinu um lit á búningi UDN,“ segir Guðni og brosir. Aðspurður segir hann að hann viti reyndar ekki alveg með búningalitinn hjá öllum félögun- um, en sá blái hjá Ólafi Pá og guli hjá Stjörnunni hafi verið áberandi hingað til. Það eru búningamálin og aðeins betri áhöld sem verða eitt af fyrstu verkefnunum. Ann- ar finnst mér þetta spennandi og skemmtilegt starf sem ég er að taka að mér og talsverð áskorun fyrir mig,“ segir Guðni. Æfing- arnar hjá UDN verða í sumar á íþróttavellinum í Búðardal, vænt- anlega tvö kvöld í viku. þá Aldursbilið svolítið breitt hjá þeim sem mæta á æfingarnar Spjallað við nýráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúa í Dalabyggð Guðni Albert Kristjánsson nýr íþrótta- og tómstundafulltrúi í Dölunum.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.