Skessuhorn


Skessuhorn - 30.12.2014, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 30.12.2014, Blaðsíða 18
18 ÞRIÐJUDAGUR 30. DESEMBER 2014 Michelle Bird er bandarísk að upp- runa. Hún fæddist í San Francisco, ólst upp þar í borg og víðar í Kali- forníu og á Hawaii. Michelle lærði myndlist í Bandaríkjunum og Hol- landi þar sem hún bjó um skeið. Hún hefur einnig búið í um ár á Indlandi þar sem hún dvaldi við handverksnám. Til Íslands flutti Michelle frá Sviss þar sem hún bjó og starfaði um nokkurra ára skeið á vinnustofu sinni. Michelle Bird hef- ur haldið sýningar víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Einnig hefur hún flutt fyrirlestra um myndlist, staðið fyrir vinnuhópum í málara- list (svonefndum „workshops“) og lagt stund á listrænt handverk svo sem leirmunagerð. Í maí síðast- liðnum settist hún að í Borgarnesi þar sem hún hefur keypt sér hús og komið sér fyrir. Féll fyrir töfrum landsins Michelle hefur þannig búið í Borg- arnesi í sjö mánuði. Þó er liðið ár síðan hún flutti búferlum til Ís- lands. Fyrstu mánuðina notaði hún meðal annars til að læra íslensku. Henni er að takast mjög vel að ná valdi á málinu. Í upphafi viðtalsins talar hún íslensku áður en við skipt- um yfir í enskuna. „Mig langaði til að flytja til Ís- lands vegna þess að ég fann þörf fyrir að öðlast eins konar yfirsýn í lífi mínu, finna góðan stað að búa á þar sem ég gæti skynjað betur hvað skipti raunverulega máli. Ég kom fyrst til landsins fyrir tveimur árum. Þá var mér og nokkrum öðr- um listamönnum boðið að koma að listasetrinu Bæ á Höfðaströnd í grennd við Hofsós og dvelja þar í rúmlega mánuð við vinnu. Ég varð algerlega heilluð af víðerninu hér og stórfenglegu landslaginu. Hugs- aði með mér að þessi staður, Ísland, væri hreinlega frábær. Ég hafði aldrei séð jafn hreina og tæra nátt- úru þar sem mér leið jafn vel,“ seg- ir Michelle. Keypti hús í Borgarnesi Heim komin til Sviss átti hún erfitt með að gleyma dvöl sinni á Íslandi. Landið sótti á huga hennar. „Ég sneri nokkrum sinnum aftur til Ís- lands að þessari dvöl lokinni. Síðan var ég hér á landi í nokkra mánuði yfir sumartímann 2013. Eftir það ákvað ég að flytjast búferlum hing- að. Setti allt mitt í 20 feta gám og sendi hann frá Sviss til Íslands. Það gekk frábærlega, Eimskip stóð sig vel í flutningnum. Ekki einn hlut- ur haggaðist á leiðinni yfir hafið. Ég keypti mér svo hús hér í Borg- arnesi á yndislegum stað með fal- legu útsýni til vesturs í átt að Hafn- arfjalli. Fyrst féll ég fyrst og fremst fyrir útsýninu héðan úr Borgarnesi. Ég hafði enga hugmynd um það hvað bærinn var dásamlegur stað- ur að öðru leyti, hvað fólkið hérna er gott.“ Eins og rakið var hér í upphafi þá hefur Michelle búið víða um heim. Þykir henni ekki mikil viðbrigði að setjast að í þorpi á vesturströnd Ís- lands? Michelle brosir breitt þeg- ar hún er spurð að þessu. „Ertu að grínast? Hér er aldrei rólegt. Að búa hér er eins og að vera um borð í skipi úti á miðju Atlantshafi. Um- hverfið er alltaf að breytast.“ Vinalegt og gott fólk Michelle útskýrir þetta nánar. Bæði er það íslenska náttúran sem heillar hana í margbreytileika sínum, en manneskjurnar eru ekki síður að- laðandi. „Mér finnst ég eiga meiri og betri samskipti við fólk hér held- ur en ef ég byggi í stórborg. Þar er allt svo ópersónulegt. Fólk talar ekki saman, það er miklu sjaldn- ar vingjarnlegt hvers í annars garð. Hér á Íslandi og í Borgarnesi er þetta öðruvísi. Fólk er vingjarnlegt en um leið hefur hver og einn nægt rými fyrir sig. Þetta er öðruvísi en annars staðar þar sem ég hef búið í heiminum. Á mörgum stöðum er fólk hreinlega alls ekki vingjarnlegt hvert við annað. Þú getur lent í því að eiga nágranna sem eru beinlín- is óvinveittir. Kannski gæti svipað gerst hér, en þó held ég ekki. Fólk er einlægt og vinsamlegt,“ segir Michelle og hlær. Heldur nú sýningu í Borgarnesi Þessa hrifningu Michelle á fólkinu sem hún hefur kynnst í Borgarnesi má glöggt sjá í þeim verkum sem hún hefur skapað síðan hún flutti þangað og kom sér fyrir. Síðustu mánuðir hafa verið frjóir í sköpun- inni. Hún bendir á mörg stór mál- verk og segist alls hafa málað um 14 slík á síðustu þremur mánuð- um. Vinnugleðin hefur verið slík að nú ætlar hún að halda málverka- sýningu í Safnahúsinu í Borgarnesi. Sýningin verður opnuð 10. janúar næstkomandi. „Meginþema sýningarinnar verða verk sem ég hef málað hér í Borg- arnesi. Þau sýna portrett af fólki sem býr hér í bænum. Þrátt fyrir að ég væri mjög hrifin af þessari yfir- þyrmandi fallegu náttúru hér á Ís- landi þá var það svo að fólkið hér í Borgarnesi náði mjög sterklega til mín þegar ég fór að kynnast því. Mig langaði því til að gera myndir af þeim. Þetta er yndislegar, hlýjar, afar vingjarnlegar og opnar mann- eskjur. Þau hafa reynt að aðstoða mig í hvívetna.“ Stendur yfir í fimm vikur Michelle hefur þó einnig leyft áhrifum landsins að höfða til sköp- unargáfunnar á síðustu mánuðum. Þannig er það bæði fegurð mann- lífs og náttúru Borgarness og Vest- urslands sem fær að brjótast fram í þeirri listrænu tjáningu sem lesa má úr nýjustu málverkum hennar. „Ég hef einnig málað landslags- verk á sama tíma, til dæmis Hafn- arfjallið. Það horfir til mín dag- lega. Stórkostlegt fjall sem breyt- ist í sífellu. Það heillar mig. Þó leið nokkur tími eftir að ég flutti hing- að þar til ég lagði í að byrja að mála mynd af því. Mér fannst svo erfitt að átta mig á Hafnarfjalli. Það tók sífelldum breytingum í ásýnd. Sam- spil lita, ljóss og skugga í þessu fjalli séð héðan úr Borgarnesi er magn- að. Til að byrja með rissaði ég bara upp myndir af því í flýti. Jafnvel það var áskorun því fjallið breytti útliti sínu svo hratt.“ Sýning Michelle Bird í Safna- húsinu stendur til 23. febrúar. Hún opnar klukkan 13:00 þann 10. janú- ar. Síðan verður hún opin alla virka daga klukkan 13 til 18 út sýning- artímabilið og aðgangur er ókeyp- is. „Í anddyri sýningarinnar ætla ég að setja upp litla vinnustofu. Þar hyggst ég sýna nokkur verk sem eru í vinnslu. Inni í sjálfum sýning- arsalnum verða svo portrettmynd- ir af fólkinu í Borgarnesi og nokkur landslagsmálverk,“ segir Michelle Bird. mþh Listakonan Michelle Bird: Heilluð af fegurð Íslands og góðu fólki í Borgarnesi Málverk af Jökli. Michelle Bird í vinnustofu sinni í Borgarnesi. Hún horfir upp á málverk sitt af Ástu en hún er meðal þeirra íbúa í Borgarnesi sem Michelle hefur fest á léreft nú í haust og vetur. Að baki hennar er svo eitt af málverkunum hennar af Hafnarfjalli. Mynd Michelle af blómgyðjunni Kötu. Portett sem sýnir þau Sigurstein og Önnu Sigríði.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.