Læknablaðið - 15.01.2002, Síða 14
FRÆÐIGREINAR / AUKAVERKANIR / HVÍTBLÆÐISMEÐFERÐ í ÆSKU
aemia; ANLL). Einstaka barn fær þó langvinnt
mergfrumuhvítblæði (chronic myelocytic leukaemia;
CML) (1). Nýgengi sjúkdómsins er hæst hjá tveggja
til þriggja ára gömlum börnum og helmingur þeirra
barna sem fá brátt eitilfrumuhvítblæði er yngri en
fimm ára við greiningu (2).
Fyrir rúmlega 30 árum var brátt eitilfrumuhvít-
blæði banvænt í svo til öllum tilfellum (3). Um miðjan
sjöunda áratuginn tókst að lengja líf sjúklinga til
muna og jafnvel lækna þá í einstaka tilfellum (3).
Síðan hefur krabbameinsmeðferð barna, einkum
hvítblæðismeðferð, fleytt fram og Norðurlandaþjóð-
irnar, þarmeð talið ísland, hafa náð góðum árangri á
þessu sviði. Nú má gera ráð fyrir að 65-75% barna
sem greinast með brátt eitilfrumuhvítblæði á Norður-
löndunum læknist (4).
Með bættum árangri meðferðar hafa síðkomnar
aukaverkanir hennar orðið æ ljósari. Ahrifin koma
einkum fram á vexti barna (5-12), hormónajafnvægi
(4,5,9,12) og ónæmiskerfi (13-15). Meðferðin virðist
einnig auka líkur á öðrum krabbameinum (4,16) og
skaðleg áhrif hafa fundist á hjarta (17,18), nýru (12)
og lifur (19). Ennfremur hafa komið í ljós margvísleg
áhrif á andlegan þroska barnanna (4, 16, 20, 21).
Áhrifanna gætir einkum hjá þeim börnum sem hafa
fengið geislameðferð á höfuð en lyfjameðferð, sjúk-
dómurinn sjálfur, slæmt næringarástand, félagslegar
aðstæður og margt fleira á eflaust einnig þátt í þess-
um áhrifum.
Góður árangur meðferðarinnar leiðir til þess að
einn af hverjum 1000 einstaklingum á aldrinum 20-29
ára er nú læknaður af krabbameini í æsku (16). Hóp-
urinn er stór og undirstrikar nauðsyn þess að rann-
saka vel langtímaáhrif krabbameinsmeðferðar hjá
börnum og unglingum.
Sjúklingar og aðferðir
Sjúklingar: Börn sem greindust með hvítblæði á ár-
unum 1981-1990 og eru enn á lífi var boðin þátttaka í
rannsókninni. Meðferðin var samkvæmt gildandi
staðli frá NOPHO (Nordic Society for Pediatric
Haematology and Oncology) (2,22) nema hjá einum
sjúklingi sem fékk Berlin-Frankfurt-Múnster með-
ferð (23).
Aðferðir: Hver þátttakandi kom einu sinni til
þrisvar á Barnaspítala Hringsins þar sem sjúkrasaga
var skráð og gerð almenn læknisskoðun. Blóðrann-
sóknir voru framkvæmdar nema í þeim tilvikum þar
sem samskonar mælingar höfðu farið fram innan árs.
Hæð sjúklinga var mæld og eldri tölur fengnar úr
sjúkraskýrslum. Staðalfrávik hæðar miðað við staðla
sem voru í notkun á íslandi var reiknað út við grein-
ingu og síðan árlega næstu fimm ár og við rannsókn
(33). Meðalstaðalfrávik hæðar allra sjúklinganna var
reiknað út fyrir hvern tímapunkt og fundinn mismun-
ur við greiningu og við rannsókn. Við úrvinnslu
gagna var sjúklingum skipt þrívegis í tvo hópa til að
meta áhrif kyns, aldurs við greiningu (<6 ára eða >6
ára) eða kröftugleika meðferðarinnar (eingöngu
lyfjameðferð eða lyfjameðferð auk miðtaugakerfis-
geislunar eða beinmergsskipta). Hæð fullvaxinna
einstaklinga var borin saman við markhæð (meðal-
hæð foreldra að viðbættum 6,5 cm ef um stráka er að
ræða en að frádregnum 6,5 cm hjá stúlkum). Eðlilegt
er talið að lokahæð sé markhæð ± 8,5 cm.
Sjúklingarnir voru vegnir og þyngd leiðrétt fyrir
hæð með því að reikna út þyngdarstuðul (BMI; body
mass index = þyngd(kg)/hæð(m)2) við greiningu, lok
meðferðar og við rannsókn. Sjúklingar töldust yfir
kjörþyngd ef þyngdarstuðull var hærri en 25 kg/m2.
Blóðmynd var skoðuð og ASAT, ALP, 7GT og
LD auk Na', K*, Ca2*, P043 , kreatíníns og urea voru
mæld í blóðvatni. Almenn þvagrannsókn og smásjár-
skoðun var gerð á þvagi.
Hormónin FT4, TSH, LH, FSH, prólaktín, korti-
sól og testósterón eða östradíól voru mæld í blóð-
vatni. Sólarhringsmagn kortisóls í þvagi var mælt ef
blóðþéttni reyndist lág. Styrkur IGF-1 og IGF-BP3
(insulin-like growth factor og insulin-like growth
factor binding protein) í blóðvatni var einnig mældur
til að meta magn og virkni vaxtarhormóna. Þá voru
mæld ónæmisglóbúlín G, A, M og E auk undirflokka
IgG.
Þátttakendur eða foreldrar þeirra voru spurðir
um árangur í skóla og hvort þörf hafi verið fyrir
sérkennslu og í hvaða fagi. Eingöngu var stuðst við
mat barns eða foreldris á árangri í skóla til að fá grófa
mynd af hugrænu ástandi.
Sextán þátttakendur fóru í blásturspróf (spiro-
metry) og niðurstöður bornar saman við normalgildi.
Hjörtu 12 þátttakenda voru ómskoðuð og stytt-
ingarbrot vinstra slegils ((LVEDD-LVESD)/
LVEDD X 100%) borið saman við normalgildi (25).
Nítján börn gengust undir heyrnarmælingu og
skoðun háls-, nef- og eyrnalæknis á Heyrnar- og tal-
meinastöð Islands.
Tölfræðileg úrvinnsla fór fram með t-prófi í Excel
97.
Niðurstöður
Tuttugu og fjórum einstaklingum, sem greindust með
hvítblæði á árunum 1981-1990 og eru enn á lífi, var
boðin þátttaka í rannsókninni. Rannsóknin náði til
20 þeirra, 12 drengja og átta stúlkna. Tvö voru stödd
erlendis, eitt neitaði þátttöku og ekki náðist í eitt
þeirra. Fimmtán (75%) höfðu fengið brátt eitilfrumu-
hvítblæði, fjögur (20%) brátt mergfrumuhvítblæði og
eitt langvinnt mergfrumuhvítblæði. Eitt barn hafði
heilkenni Turners. Meðalaldur við rannsókn var 16 ár
og átta mánuðir (16:8) (miðgildi 17:9, bil 7:4-26:11).
Meðalaldur við greiningu var rúmlega sex ár (mið-
gildi 5:7, bil 0:5-13:10). Meðferðin tók frá hálfu ári
upp í rúmlega þrjú ár og að meðaltali voru átta ár og
þrír mánuðir frá því að sjúklingarnir höfðu lokið
14 Læknablaðið 2002/88