Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.06.2007, Page 40

Læknablaðið - 15.06.2007, Page 40
UMRÆÐA & FRÉTTIR / ÁHUGAMÁL Brot af mannkynssögu alþýðunnar - viðtal við Valgarð Egilsson Hávar Sigurjónsson „Ég setti íslandsmet í 500 metra bringusundi haust- ið 1958. Við gætum talað um það,” segir Valgarður Egilsson doktor í frumulíffræði og rithöfundur og skáld. Við erum sestir niður innan um bækur af öllu tagi í lesstofunni á heimili þeirra hjóna Valgarðs og Katrínar Fjeldsted við Hólatorg í Reykjavík. Bækurnar þekja alla veggi og þar kennir margra grasa; skáldsögur og vísindarit standa þétt saman í hillum og augljóst að þær hafa verið lesnar spjalda á milli. Erindi mitt við Valgarð er að eiga við hann sam- tal um æskustöðvar hans við utanverðan Eyjafjörð að austanverðu en síðustu þrjá áratugi hefur hann leitt fjölda göngufólks um strandir, dali og fjöll í Fjörðum, við Látraströnd og Flateyjardal, og frætl um mannlíf og sögu svæðisins. Hann hefur einnig leitt göngufólk um svæðið vestan við Eyjafjörð ut- anverðan, andspænis æskustöðvunum, Hvanndali og Héðinsfjörð enda voru mikil og sterk tengsl milli þessara svæða á fyrri tíð. Sundafrek verða að bíða betri tíma. Framundan er sumarið, tími útivistar og gönguferða, og ekki ólíklegt að einhverja fýsi að ganga um Fjörður eða Héðinsfjörð svona rétt áður en hann verður opnaður fyrir bílaumferð þegar Héðinsfjarðargöng verða tekin í notkun. „Það er auðvitað hrein vitleysa að gera þessi göng og mun ekki breyta þeirri staðreynd að Siglufjörður er hverfandi byggð og þrátt fyrir tengingu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjarðargöng mun ungt fólk ekki sjá tilgang með búsetu á Siglufirði,” segir Valgarður og bætir því við að á Siglufirði sé svo að byggðinni þrengt Gönguhópur í Fjörðum þrœðir einstigi undir leiðsögn Valgarðs. vegna snjóflóðahættu að þar verði ekki byggt utan núverandi bæjarstæðis án verulegrar áhættu. „Þeir eru í rauninni landlausir.” Forn-germanskt uppeldi Valgarður er fæddur á Grenivík árið 1940 og alinn upp að eigin sögn á „forn-germanskan hátt”. Hvað felst í því? „Að vera utanhústegund og ekki vanur stofu- hita í híbýlum. Vera sífellt vakandi fyrir náttúrunni og eiga allt undir henni. Fylgjast vel með veðra- brigðum og kunna að lesa úr skýjafari. Ef maður sá þoku safnast í Hvanndalabjörgin þá vissi maður að vindur var koma á norðaustan og eins gott að safna fénu saman. Það er ansi fjarri uppeldisað- ferðum í þéttbýli nútímans að vera strax 8-9 ára gamall orðinn ábyrgur fyrir hjörð heimilisins. Þá er maður að gá til veðurs oft á dag og skynjar allt umhverfið útfrá því. Þar á ofan var ég sem barn heillaður af náttúrunni og notaði hverja stund til að ganga um fjöllin og skoða grös og fuglalíf. Við vorum þrír bræðurnir og höfðum allir ánægju af að ganga á fjöll og klífa tinda.” A ferðum sínum um Fjörður og Látraströnd hefur Valgarður haft börn sín með sér og segir að Jórunn dóttir hans, heimilislæknir á Selfossi, hafi sem barn og unglingur fylgt sér dyggilega. „Börnin mín sögðu: „Pabbi er alltaf svo eðlilegur þegar hann kemur út í Fjörðu.” Ætli það sé ekki besta lýsingin á því hversu vel ég kann við mig þarna.” Áhugi Valgarðs á svæðinu hefur ekki einasta takmarkast við náttúrufar heldur hefur alþýðusag- an og mannlífið sem þarna dafnaði einnig fangað hug hans. „Fólkið sem þarna bjó, fólkið í landinu, það heillaði mig alveg frá upphafi. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en hugföngnum af fólkinu og sög- unni sem það bjó yfir. Ég er enn jafn heillaður af þessu. Þarna átti sér stað brot af mannkynssögu alþýðunnar og hún er sannarlega nógu dramatísk því þarna var sjómennska meginatvinnuvegur um aldir. Á 19. öld eru hákarlaveiðar aðaleinkenni þessarar menningar og það mótaði mannlífið þar sem lífshættan var stöðug og mannskaðar við veið- arnar voru tíðir. Þessi menning átti enn gríðarlega sterk ítök í fólkinu þegar ég var alast upp þó veið- arnar sjálfar væru aflagðar. Fólkið lifði jöfnum höndum á sjósókn og landbúnaði og sjálfur ólst ég upp við hvorutveggja þar sem faðir minn stundaði sjó frá Grenivík en keypti svo jörðina Hléskóga þar sem ég var með lögheimili fram yfir tvítugt þó ég væri í rauninni farinn að heiman að miklu 500 Læknablaðið 2007/93

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.