Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 12

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 12
12 að ótilgreindum útilegumönnum, í öðrum slíkum leiðöngrum voru menn á höttunum eftir ákveðnum mönnum. Um hálfri öld fyrr höfðu Mývetningar raunar fengið áþreifanlega sönnun um útilegumenn á öræfunum, þegar komið var þangað með fræg skötuhjú, Fjalla- Eyvind og Höllu, en þau höfðu falið sig árum saman á hálendinu. Vissulega gekk útilegumannatrúin út í öfgar og full ástæða var til að reyna að kveða hana niður í þeirri mynd eins og nokkrir íslenskir menntamenn tóku sér fyrir hendur á seinni hluta nítjándu aldar. Þar var þýðingarmest framlag lærdómsmannsins Björns Gunnlaugssonar (d. 1876), sem ferðast hafði um óbyggðir Íslands á fjórða og fimmta áratug nítjándu aldar og kortlagt þær fyrstur manna af fádæma nákvæmni og eljusemi. Gjarnan er sagt að grein hans, „Um stöðvar útilegumanna“, sem birtist í blaðinu Íslendingi snemma árs 1861, hafi gengið af útilegumannatrú Íslendinga dauðri. Það er ofmælt. Málflutningur Björns hafði áreiðanlega áhrif meðal menntamanna, en hjátrú og hindurvitni almennings hafa hvergi verið lögð að velli með rothöggi lærdómsmanna. Næstum hálfri öld eftir að grein hans birtist, vorið 1905, skýrði Reykjavíkurblaðið Ingólfur frá því, að í Mývatnssveit – nema hvað! – gengju miklar sögur um útilegumenn á öræfunum. Kveikjan að þeim grunsemdum væru slæmar fjárheimtur um haustið, saknað væri um hundrað fjár. Leitarmenn hefðu rakið dularfull spor í snjónum þar til þau hurfu í hrauni óbyggðanna. „Þóttust þeir kenna reykjarkeim, er vindur stóð sunnan af öræfum,“ sagði blaðið, og kvað marga byggðarmenn sannfærða um að útilegumenn væru nú í Ódáðahrauni og væru þeir valdir að fjárhvörfunum. Hvað er útilegumaður? Útilegumaður er sakamaður sem flúið hefur undan yfirvöldum til óbyggða, lagst út, til að komast hjá refsingu. En þannig hefur skilgreiningin ekki alltaf verið. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar var útilega sérstök ævilöng refsing fyrir mjög alvarleg brot; hét hún skóggangur í hinum fornu lögum. Hinn seki var nefndur skógarmaður. Þeir voru réttlausir og réttdræpir. Varðaði refsingu að leggja þeim lið. Líklega á hugtakið uppruna í Noregi þar sem var víðáttumikið skóglendi sem sekir menn gátu leitað hælis í. Í Íslendingasögum eru margar frásagnir af skógarmönnum og viðleitni þeirra til að lifa af í óbyggðunum, stundum með sauðaþjófnaði eða ránsferðum á bæi. Sögur af útilegumönnum virðast snemma hafa orðið Íslendingum hugstæðar. Í þremur vinsælum Íslendingasögum eru skógarmenn aðalpersónur, Grettis sögu Ásmundarsonar, Gísla sögu Súrssonar og Harðarsögu og Hólmverja. Þær eru ritaðar á þrettándu og fjórtándu öld en sögusviðið er Ísland frá níundu öld fram til hinnar elleftu. Sögurnar geta ekki talist traustar heimildir um raunverulega atburði, en þær gefa góða hugmynd um hvernig Íslendingar hugsuðu um útilegumenn á ritunartímanum. Eftir að íslenska þjóðveldið leið undir lok árið 1262 tók norska – og síðar danska – ríkisvaldið allar refsingar á Íslandi í sínar hendur. Skóggangur var afnuminn og í staðinn komu opinberar refsingar: hýðing, brennumerking og aftaka. Fangavist kom ekki til sögu fyrr en á sautjándu öld. Árið 1564 var sett sérstök löggjöf um siðferðismál, mjög ströng, Stóridómur, þar sem algjört bann var lagt við sifjaspelli, framhjáhaldi hjóna og lauslæti ógiftra að viðlögðum hörðum refsingum. Við alvarlegustu siðferðisbrotum lá dauðarefsing; voru karlar hálshöggnir en konum drekkt. Heimildir sýna að Íslendingar, sem lögðust út á sautjándu og átjándu öld, voru ekki síst að flýja slíkar refsingar. Ef þeir komust ekki úr landi voru óbyggðirnar eina athvarf þeirra. En þar beið þeirra ekkert sældarlíf, síst af því tagi sem lýst er í þjóðsögum. Ef þeir voru heppnir og fundu felustaði í grennd við veiðivötn gátu þeir lifað af sumarið. En það voru ekki nema allra hraustustu og útsjónarsömustu menn sem gátu legið úti að vetrarlagi þegar snjór lagðist yfir landið, frosthörkurnar bitu og vindarnir blésu. Elstu samtímaheimildir Elstu samtímaheimildir þar sem útilegumenn eru nefndir til sögu eru Sturluþáttur í safnritinu Sturlungu og Guðmundar saga Arasonar. Í hinni fyrrnefndu er sagt frá ræningjaflokki í Dalasýslu um miðja tólftu öld. Þeir dvelja ýmist á bæjum eða leggjast út, en eru þó ekki dæmdir skógarmenn heldur illvirkjar sem leika lausum hala í skjóli eins af höfðingjum héraðsins. Segja má að þeir séu ekki réttnefndir útilegumenn því þeir falla hvorki undir hina eldri né yngri skilgreiningu hugtaksins. Sama má reyndar segja um Aron Hjörleifsson, vin Guðmundar góða biskups, sem sagan segir að hafi barist með biskupi í Grímsey snemma á þrettándu öld. Hann var hvorki dæmdur skógarmaður né á flótta undan yfirvaldinu. Hann flúði undan andstæðingum biskups og var í felum víða um land, í hellum og í skógum, um tíma við annan mann, en komst loks úr landi. Hann naut aðstoðar margra manna og þurfti því ekki að leggja fyrir sig rán eða þjófnað. Aronshellis, sem nefndur er í sögunni, hafa menn lengi leitað. Árið 1957 fundust áður óþekktir hellar í Gullborgarhrauni í Hnappadalssýslu. Í einum þeirra er forn hleðsla, næstum mannhæðarhár veggur um þveran hellinn sem er 185 metrar á lengd og endar í 13 metra háum strompi sem nær upp úr hrauninu. Engar minjar finnast um legurúm eða matseld í hellinum og engin dýrabein eru þar. Það eru því engin gild rök fyrir því að telja að þessi hellir hafi nokkru sinni verið bústaður útilegumanna. En eins og einn helsti fræðimaður um íslenska útilegumenn, Ólafur Briem, benti á í bók sinni Útilegumenn og auðar tóttir (1983), rifjast upp í þessu samhengi að einu „útilegumennirnir“ sem að engu leyti öfluðu fæðu sinnar sjálfir, voru á þessum slóðum. Þetta voru Aron Hjörleifsson Björn Gunnlaugsson átti mestan þátt í því að kveða niður hina lífseigu alþýðutrú á útilegumannabyggðir á öræfunum.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.