Vísbending


Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 16

Vísbending - 24.12.2012, Blaðsíða 16
16 En útilegumannatrúin átti sína andstæðinga. Hún fór óskaplega í taugarnar á ýmsum Íslendingum, ekki síst menntamönnum sem lært höfðu náttúruvísindi. Sumum þeirra þóttu viðhorf samlanda sinna jafnvel til minnkunar fyrir land og þjóð. Náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen kvað fast að orði í Ferðabók sinni 1888: „Það er ekki enn þá laust við, að sumir byggðarmenn hafi enn þá töluverða útilegumannatrú. Það kemur fyrir, að menn verða hræddir við hestaspor á óvanalegum stöðum á öræfum, menn þykjast finna reykjarlykt leggja ofan af jöklum, og hefur stundum fólk á grasafjalli orðið ærið skelkað af slíkum hlutum. [...] Það er annars merkilegt að jafn-hlægilega vitlaus hjátrú og fjallbúatrúin skuli hafa getað haldist svo lengi, og það jafnvel til skamms tíma hjá mönnum, sem að öðru leyti voru skynsamir. [...] Það hefur komið fyrir, að menn af Landinu og úr Skaftártungu hafi sést við Fiskivötn og orðið dauðhræddir hver við annan.“ Landkönnun gegn útilegumannatrú Lærimeistari Þorvaldar Thoroddsen, Björn Gunnlaugsson, hafði þegar á fyrri hluta 19. aldar gert sitt til að létta þokunni yfir útilegumannabyggðunum á öræfunum. Áður hefur verið sagt frá ferðum hans 1834 og 1835 í Þórisdal, en þær voru liður í umfangsmiklum landmælingum hans og kortagerð af miðhálendinu. Vafalaust var leit hans að Þórisdal líka á sinn hátt upptendrandi ævintýraferð í hugmyndalegum skilningi, meðvitað eða ómeðvitað; jafnvel jarðbundnir menn og rökvísir eins og Björn Gunnlaugsson finna öðru hverju fyrir fiðringi í maganum gagnvart leyndardómum og ráðgátum tilverunnar. Þegar ekkert reyndist hæft í hinum gömlu þjóðsögum um Þórisdal fannst Birni það skylda sín að gera grein fyrir þeirri niðurstöðu á prenti. Skýrði hann frá ferðum sínum í tímaritinu Skírni 1835 og blaðinu Sunnanpóstinum 1836. En þegar útilegumennirnir gátu ekki lengur átt heima í Þórisdal flutti þjóðtrúin þá í aðra dali. Og fór létt með það! Um aldarfjórðungi síðar, vorið 1861, sá Björn ástæðu til birta í blaðinu Íslendingi sérstaka grein til að reyna að kveða niður útilegumannatrúna. Ekki er ljóst hver hin beina kveikja var að þeim skrifum, en vera má að söfnun þjóðsagna, þar á meðal útilegumannasagna, sem „hinir íslensku Grimms-bræður“, fyrrnefndur Jón Árnason og félagi hans Magnús Grímsson, höfðu þá í nokkur ár staðið fyrir, hafi verið búin að auka mjög áhuga og umræður um þessu efni meðal almennings. Eru heimildir fyrir því að aukið kapp hafi færst í þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar og samstarfsmanna hans í lok sjötta áratugar og byrjun sjöunda áratugar nítjándu aldar, en safnið byrjaði að koma út 1862. Í upphafi blaðagreinarinnar skrifar Björn: „Þegar eg var að kanna og mæla innanvert Ísland, gjörði eg meðfram ómak til að kanna þær útilegumannastöðvar, sem eg heyrði um talað og eg gat við komið að kanna, og vildi ég eyða útilegumanna-trúnni, að því leyti sem hún reyndist ósönn, en staðfesta það í henni, er satt kynni að reynast. Mér þótti hálfvegis minnkun að því fyrir mig og landa mína að geta eigi gengið úr skugga um það, hvort nokkur heimuleg byggð gæti leynst í voru litla landi eða eigi.“ Björn nefnir síðan sjö staði þar sem þjóðtrúin hefur sett niður byggðir útilegumanna, Þórisdal, Ódáðahraun, Köldukvíslarbotna, Torfajökulsdali, Eyvindarver á Sprengisandi, Stórasjó og Vatnajökul. Rekur hann ferðir sínar um þessa staði (Stórasjó telur hann norðast í Fiskivötnum) og kveðst hvergi hafa fundið minnsta vott um útilegumannastöðvar. Kofi Eyvindar sé undantekning, er þar hafi aðeins einn maður búið með konu sinni og falli því ekki að þjóðtrúnni um fasta byggð útilegumanna. Björn ræðir síðan af vísindalegri nákvæmni skilyrði þess að stöðug byggð útilegumanna geti þrifist. Byggðin þarf: „1) fæði, annaðhvort af kúm, kindum, fuglum eða fiskum; þá veiðarfæri, heyskapar-amboð, matreiðslu-áhöld og eldivið. 2) hey og gras handa skepnum sínum, og það ekki mjög langt í burtu. 3) klæði, af ull, lérefti eða skinnum; einnig rúmföt, verkfæri til að vinna þetta; einnig skóleður og nálar. 4) húsaskjól, og allt hvað þar til heyrir. 5) hlýindi og hita af eldi, þá eldivið. 6) hesta til aðflutnnga. 7) tímgun, ef ættkvíslin skal við haldast og ekki deyja út. 8) læknishjálp og hjúkrun í sjúkdómum. 9) kaupskap við útlendar þjóðir.“ Björn minnir á að byggðarmenn, hinir venjulegu Íslendingar, eigi fullt í fangi með að halda sér við. Og hvað þá með útilegumennina, sem ofan á allt annað verða að fara huldu höfði og ekkert má finnast af því sem þeir þurfa til viðurværis eða nauðsynja sinna? Ekki megi finnast svo mikið sem tað eða spor eftir neinar lifandi skepnur, enn síður skepnurnar sjálfar, en þó allra síst menn; og ekki megi sjást reykur upp af byggðunum eða kolagröfum. „Þó að nú útilegubyggðar-lífið, þrátt fyrir þetta allt, gæti átt sér stað,“ ritar Björn ennfremur, „þá hlyti það þó að vera mjög eymdarfullt, og jafnvel verra en að gefa sig undir mannahendur. Ímyndum vér oss, að einhver skyldi eiga alla ævi að búa í Eyvindarkofum uppi á eyðifjöllum, mundi honum ekki verða kalt í vetrarhörkunum, sem meiri eru þar svo hátt uppi, en við sjávarstrendurnar? Eyvindur varð þó feginn að gefa sig til byggða, þegar ellin dróst yfir hann. Þegar nú þar að auki aldrei hefur vart orðið við einn einasta útilegumann svo áreiðanleg saga sé af, nema sem farið hefur úr vorri byggð, eins og Eyvindur, þá verður átyllulaust að vera að skapa sér þá í huga sínum.“ Björn lýkur blaðagrein sinni með þessum orðum: „En sé nú loksins nokkur stöðug útilegumanna-byggð til í landinu og bærilegt þar að vera, hvað kom þá til, að Fjalla-Eyvindur, Grettir, Hörður o.s.frv., ekki gáfu sig til hennar, en voru að hrekjast hingað og þangað? Þeir höfðu þó nægan tíma til að leita hana uppi. Þetta held ég að sýni ljóslega, að engin stöðug útilegumannabyggð sé til í landinu.“ Inn úr kuldanum Skrif Björns Gunnlaugssonar vöktu á sínum tíma mikla athygli og urðu tilefni blaðadeilu þar sem útilegumannabyggðirnar áttu sinn málsvara. Frá sjónarhóli okkar nútímafólks má segja að málflutningur Björns hafi verið hin eðlilegu lokaorð um útilegumenn á Íslandi. Og það urðu þau til lengri tíma litið. En það var þó ekki eins og blásið hefði verið á kerti sem síðan hætti að loga. Í andlega lífinu verða breytingar aldrei með svo snöggum hætti. Sannleikurinn er sá að útilegumannatrúin var við ágæta heilsu enn um sinn næstu árin eftir að Björn Gunnlaugsson kvað hana niður. Þær kynslóðir sem alist höfðu upp við hana og tileinkað sér hana yfirgáfu hana ekkert frekar en kristilegu barnatrúna, sem ýmsir lærðir menn voru á sama tíma farnir að vekja efasemdir um. Það var ekki fyrr en með nýjum kynslóðum á tuttugustu öld sem trúin á byggðir útilegumanna í öræfunum hvarf með öllu úr sögunni. Það „kemur fyrir að botninn detti úr trú manna í heilu landi þegar minnst varir,“ skrifaði nóbelsskáldið Halldór Laxness um útilegumannatrúna, „en rök viturra manna eru sjaldan bein orsök slíkrar trúmissu.“ Smám saman áttuðu Íslendingar sig á töfrum öræfanna og sannfærðust um að óhætt væri að ferðast um þau án þess að verða fyrir ónæði af útilegumönnum eða öðrum dularfullum verum úr heimi þjóðtrúar og þjóðsagna. En svo er fyrir að þakka brautyðjandastarfi Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara og samstarfsmanna hans, að útilegumennirnir sjálfir hurfu ekki með öllu úr sögunni heldur öðluðust framhaldslíf í bókum í hlýjum stofum landsmanna. Þar fer líka miklu betur um þá en á köldum og hryssingslegum öræfum Íslands. V

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.