Iðnaðarmál - 01.05.1959, Blaðsíða 13

Iðnaðarmál - 01.05.1959, Blaðsíða 13
IÐNAÐUR OG GEISLAVIRK EFNI Eftir JÓHANN JAKOBSSON Inngangsorð Geislavirkir ísótópar (radioactive isotopes) hafa á síðustu árum vakið mikla athygli þeirra, sem vinna að vísindalegum og hagnýtum rannsókn- um. Eigi er þó með öllu rétt að binda rannsóknir þessar eingöngu við síð- ustu ár, því að rannsóknir á geisla- virkum efnum hafa verið stundaðar síðastliðna hálfa öld. (Becquerel og M. Curie, skömmu fyrir og eftir síð- ustu aldamót). Síðari heimstyrjöldin olli þó byltingu á þessu sviði. Atóm- sprengjan eða öllu heldur aðferðir til framleiðslu hennar leystu úr læðingi uppsprettu geislavirkra efna, sem skapaði möguleika til rannsókna, margfaldlega miðað við það, sem áður þekktist. í stað þess að geislavirk efni voru skilin frá náttúrlegum efnum með mjög erfiðum og flóknum aðferðum og fengust þó aðeins í örlitlu magni, fengust nú við kjarnaklofnun úrani- ums fjölmargir geislavirkir ísótópar, auk þess sem skilyrði sköpuðust til framleiðslu á geislavirkum ísótópum úr náttúrlegum stöðugum frumefn- um. Vísindamönnum varð fljótlega Ijóst, að við kjarnaklofnun hafði ekki einungis tekizt að beizla nær ótæm- andi orkugjafa, heldur gaf og orku- framleiðslan margvísleg aukaefni, sem hagnýta mátti til stórkostlegra hagsbóta á flestum sviðum athafna- lífsins, auk þess sem þau opnuðu ný svið fjölþættra rannsókna, sem engan hafði órað fyrir að unnt yrði að framkvæma. Hvað er geislavirkur ísótópur og hvernig verður hann til? Til að svara þessari spurningu verður maður að gera sér nokkra grein fyrir bygg- ingu efnisins. Allt efni er byggt upp af svokölluðum frumefnum, sem eru talin 102. Af þessum 102 frumefnum hafa 14 verið framleidd á rannsókna- stofum. Efnin almennt eru byggð upp af margbreytilegum samböndum frumefnanna, sameindum (molikul- um). Efnasamböndin innihalda þannig frumeindir (atom) fleiri frumefna. Frumefnin innihalda hins vegar aðeins frumeindir sama frum- efnis. Rannsóknir hafa leitt í Ijós, að frumefni, sem haga sér nákvæmlega eins við kemiskar efnabreytingar, getur haft mismunandi frumeinda- þunga eða sýnt mismunandi eðlis- eiginleika. í náttúrunni eru þessi afbrigðilegu frumefni blönduð þeim venjulegu og finnast yfirleitt í sömu hlutföllum hvar sem er á jörðinni. Efni þessi eru kölluð ísótópar hlutaðeigandi frum- efnis. Flest þessara náttúrulegu efna eru stöðug, þ. e. þau eru ekki geisla- virk. Til skýringar því, sem hér hefur verið getið, skal nefnt dæmi: Svo sem kunnugt er, er vetnið einfaldast að byggingu allra frumefnanna. Kjarni frumeindarinnar er ein eðlisögn, prótóna, og kringum hann sveimar önnur eðlisögn, elektróna. í náttúrunni finnst einnig svokall- að þungt vetni (deuterium), sem hef- ur helmingi meiri þunga en vetnið. Kjarni þess inniheldur tvær eðlis- agnir jafnþungar, þ. e. prótónu og nevtrónu. Efni þetta er stöðugt. Þriðja efnið, tritium, finnst einnig. Það hefur þrefaldan þunga á við vetnið. Kjarni þess inniheldur þrjár eðlisagnir, þ. e. prótónu og 2 nev- trónur. Deuterium og tritium eru ísótópar vetnis, annar stöðugur, deuterium, hinn óstöðugur, geislavirkur, tritium. Kraftar þeir, sem búa í kjarna frumeindanna, leita ákveðins jafn- vægis. Til að ná slíku jafnvægi verð- ur að fara fram breyting á byggingu og formi kjarnans. Breytingar þessar koma fram sem geislun á mismunandi orkustigi, sem háð er gerð kjarna hlutaðeigandi frumefnis. Geislun Geislun er þrenns konar. 1. Alfa-geislun. Kjarnabrot með sam- setningu heliumkjarnans. Geislun þessi nær mjög skammt út frá efn- inu við venjulegar aðstæður, og er auðvelt að stöðva hana, t. d. með þunnu pappírsblaði. 2. Betageislun er straumur af elektr- ónum. Geislun þessi nær miklu lengra en alfa-geislun, en verður þó auðveldlega stöðvuð með hlíf- um, t. d. tré 2.5—5 cm eða alu- minium 0.5—1 cm að þykkt. 3. Gamma-geislun er orkugeislun, svipuð og Ijós, og berst með hraða þess. Til að stöðva geislunina þarf mjög þykkar hlífar af þéttu efni. Venjulega er notað blý eða stein- steypa. IÐNAÐARMÁL 69

x

Iðnaðarmál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Iðnaðarmál
https://timarit.is/publication/1105

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.