Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.10.2008, Blaðsíða 14

Neytendablaðið - 01.10.2008, Blaðsíða 14
Matvælaverð á Íslandi hefur löngum verið hátt og ástandið hefur síst batnað að undanförnu. Heimsmarkaðsverð á ýms­ um hrávörum hefur hækkað og gengis­ lækkun krónunnar haft áhrif á verð á öllum innfluttum vörum. Helsta ráðið gegn hækkandi matvælaverði er því að fara vel með mat og láta eins lítið og hægt er fara til spillis. Bresk sóunarkönnun Í vor birtust niðurstöður viðamikillar breskrar rannsóknar á sóun á matvælum. Yfir 2000 heimili tóku þátt í rannsókninni en hún var mjög ítarleg og voru allir matarafgangar sem enduðu í ruslinu flokk- aðir og vigtaðir. Þátttakendur héldu einnig nákvæmar dagbækur þar sem þeir útskýrðu af hverju þeir hentu mat, en það þótti ekki síður mikilvægt að komast að því. Þriðjungi hent Þótt rannsóknin sé bresk má eflaust heim- færa niðurstöður hennar á íslensk heimili. Samkvæmt rannsókninni hendir fólk um þriðjungi þess matar sem það kemur með inn á heimilið. Þar af eru 19% sem alls ekki er hægt að nýta betur, t.d. notaðir tepokar og kaffikorgur, bein, ávaxtahýði o.þ.h. Stærsti hlutinn, eða 61%, var þó óþarfa sóun, þ.e. matur sem hefði verið hægt að borða ef betur hefði verið haldið á málum. Um 20% af matnum hefði hugsanlega verið hægt að endurnýta; brauðafgangar sem má þurrka og gera brauðmylsnu úr og kartöfluhýði sem hugvitssamir geta nýtt. Eldum of mikið Mest er hent af kartöflum (bæði soðnum og ósoðnum) en einnig er miklu hent af brauði, salati og eplum og öðrum ávöxtum. Þegar skoðað var hvaða mat var hent eftir að búið var að elda hann voru kartöflur, hrísgrjón og pasta efst á blaði. Það bendir til þess að fólk eldi of mikið. Það ætti þó ekki að koma að sök svo framarlega sem afgangarnir eru nýttir. Af hverju er matnum hent? Þegar fólk var látið útskýra af hverju það henti mat var algengast að um væri að ræða mat sem var afgangs á diski eftir máltíð. Fólk fær sér með öðrum orðum of mikið á diskinn og nær ekki að klára. Næst algengasta skýringin var „útrunnin vara“ og því næst „maturinn leit ekki vel út“ (t.d. grænmeti sem er orðið þreytt). „Myglað“ var í fjórða sæti og „eldað of mikið“ í því fimmta. Í öllum tilfellum er um að ræða mat sem ekki hefði þurft að henda. Höfum ekki stjórn á birgðahaldi Kostnaðurinn við þessa sóun er gríðarlegur. Þótt ekki sé verið að henda miklum mat á hverjum degi þá safnast það saman yfir árið. Áætlað er að bresk heimili hendi á hverju ári að meðaltali 150 kílóum af mat sem hefði verið hægt að nýta. Skýrsluhöfundar telja að meðalheimili hendi mat fyrir 63.000 kr. á ári. Þau ráð sem gefin eru á sóunarsíðunni bresku, www.lovefoodhatewaste.com, eru m.a. betra birgðahald. Við þurfum að vita hvað við eigum í ísskápnum því of algengt er að við hendum vörum þar sem þær týndust aftast í skápnum. Hvað er eðlilegur skammtur? Einhverjir hafa þó lagt það á sig í gegnum tíðina að vega og meta hvað megi teljast eðlilegir skammtar. Það á því að vera alger óþarfi að elda allt of margar kartöflur eða of mikið af hrísgrjónum. Á fyrrnefndri heimasíðu er hægt að velja á milli ýmissa matvæla og slá inn fjölda fullorðinna og barna og fá uppgefið hæfilegt magn. Á síðunni má einnig nálgast skýrsluna sem er yfir 200 bls. á lengd. Sjá einnig www.ns.is undir „matvæli“. Bresk stjórnvöld hvetja til nýtni Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hefur hvatt landa sína til að minnka sóun á mat. Hækkandi heimsmarkaðsverð er meðal annars til komið vegna vaxandi eftirspurnar í heiminum. Í fátækum löndum hafa íbúarnir vart til hnífs og skeiðar meðan fólk á Vesturlöndum hendir mat eins og ekkert sé. Brown bendir á að þessi sóun leiði til hærra matvælaverðs og hafi auk þess neikvæð áhrif á umhverfið. Sóun á mat Herferðinni „Elskum mat hötum sóun“ (www.lovefoodhatewaste.com) var hleypt af stokkunum í Bretlandi í vor. Markmiðið er að vekja athygli á þeirri gríðarlegu sóun sem á sér stað þegar mat er hent. Sóunin kemur auðvitað beint við buddu neytenda en hefur auk þess mikil og neikvæð umhverfisáhrif. Mikil orka fer í að framleiða bæði matvæli og umbúðir svo ekki sé talað um flutninginn heimshorna á milli. Matarafgangarnir og umbúðirnar halda auk þess áfram að vera vandamál þegar kemur að urðun. Á Íslandi er lítið hlutfall matarafganga heimilanna nýtt í moltugerð og endurvinnsla á plasti og umbúðum er ekki mjög mikil. Myndatexti, mynd kartöflur: Hafa þarf í huga að kartöflur geymast best á dimmum og köldum stað. Kartöflur sem búið er að sjóða má nýta á ýmsa vegu og engin ástæða til að henda þeim í ruslið. Herferð gegn sóun á mat 1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2008

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.