Húnavaka - 01.05.1969, Blaðsíða 166
164
HÚNAVAKA
Magnea Aðalbjörg Árnadóttir, ekkja, Syðri-Ey, Vindhælishreppi,
andaðist 18. desember. Hún var fædd 29. sept. 1883 að Illugastöðum
í Fljótum. Voru foreldrar hennar Arni Magnússon frá Stóra-Grindli
í Fljótum og kona hans Baldvina Ásgrímsdóttir frá Skeið í Fljótum.
Var Magnea elzt tólf systkina, kunnast þeirra er Guðrún skáldkona
frá Lundi. Magnea ólst upp með foreldrum sínum að Lundi í Stíflu,
hún var gervilegt barn, og hélt sínu unglega vaxtarlagi allt fram til
síðustu ára. Magnea var dugnaðarkona og mikil húsmóðir. Bar þess
vott öll umgengni hennar. Hún var bókelsk og hafði yndi af ljóðum,
hreinskiptin í tali og góðgjörn. Gestrisin og kunni vel þá list að
koma ull í fat og rnjólk í mat.
Árið 1908, 9. sept., kvæntist hún Daníel Davíðssyni frá Gilá i
Vatnsdal, er andaðist 26. marz 1967. Börn þeirra hjóna eru þessi:
Magnús hreppstjóri á Syðri-F.y, Árni bóndi í Eyjarkoti, Páll sjómað-
ur í Reykjavík, Daði smiður, Ásmundur flugvélavirki, Ingibjörg
húsfrú og Helga ekkja, öll búsett í Reykjavík. Þá ólst upp hjá þeim
hjónum Björn Leví Halldórsson lögfræðingur, skrifstofustjóri í
Reykjavík.
Þau hjón bjuggu fyrst á Sauðárkrók, en fluttu 1910 að Breiðstöð-
um í Gönguskörðum og bjuggu síðan á ýmsum stöðum unz þau
fluttu að Syðri-Ey 1930. Vænkaðist þar mjög hagur þeirra, enda
voru börn þeirra þá vaxin. Magnea átti mikla vinnugleði alla tíð,
og var manni sínum mikil stoð, er hann varð blindur. Hún átti gott
ævikvöld og verðugt hjá Magnúsi syni sínum og tengdadóttur,
Filippíu Helgadóttur.
Sr. Pétnr Þ. Ingjaldsson.