Ægir - 01.08.2014, Side 34
30
„Við munum á Íslensku sjávarútvegssýn-
ingunni kynna í fyrsta skipti stýranlegan
toghlera. Þetta er verkefni sem hefur
verið lengi í farvatninu hjá okkur en er
nú komið vel áleiðis í þróunarferlinu. Ég
vonast til að síðari hluta ársins 2015 ljúki
prófunum og að árið 2016 bjóðum við
stýringu á öllum stærðum okkar tog-
hlera,“ segir Atli Már Jósafatsson, fram-
kvæmdastjóri Póla toghlera, aðspurður
um áherslur fyrirtækisins á sýningunni.
Pólar hefur starfað frá árinu 2006 og
selur hlera um allan heim en fyrirtækið
framleiðir toghlera á Íslandi, í Litháen,
Portúgal, Kína og Argentínu. Stærstu
hlerarnir sem fyrirtækið hefur smíðað
eru 15 fermetrar að stærð en þeir
minnstu innan við fermetri.
Vængjum hleranna fjarstýrt
Toghlerar gegna veigamiklu hlutverki í
stjórnun togveiðarfæra og margt getur
haft áhrif á virkni þeirra. Veiðihæfni
veiðarfæranna eiga því mikið undir að
hlerarnir vinni rétt og algengt er að taka
þurfi þá inn á þilfar skipa til að breyta
stillingum. Á síðari árum hefur nemabún-
aður á veiðarfærum gert skipstjórnar-
mönnum auðveldara að fylgjast með
hvernig veiðarfærin vinna í sjónum og
hvort allt er eins og það á að vera. Það
er hins vegar nýlunda að skipstjórnar-
menn geti með einföldum hætti fjarstýrt
hreyfingum toghleranna en Atli segir
ekkert vafamál að þessi tækninýjung
verði stjórnendum togskipanna mikið
fagnaðarefni.
„Þessi búnaður er í stuttu máli þannig
að á hverjum hlera eru sex vængir sem
sjórinn flæðir í gegnum og afstaða
þeirra ræður því hvernig hlerinn liggur í
sjónum þegar hann er dreginn. Þrír
vængir eru þannig á efri hluta hlerans
og þrír á neðri hlutanum. Búnaðurinn
gerir ráð fyrir að hægt sé að breyta
hverjum væng sjálfstætt og þannig fær-
ast hlerarnir fjær hvorir öðrum þegar bil-
ið er minnkað milli vængjanna en fær-
ast saman ef sjóflæðið er aukið í gegn-
um vængina. Með því að breyta efri
hluta hlerans óháð neðri hluta hans, þá
er hægt að bregðast við miklum hliðar-
straumi, hægt er að stýra hlerunum í
mismunandi hæð í sjónum og svo mætti
áfram telja,“ segir Atli.
Framþróun í þráðlausri
tækni lykillinn
Tvær prófanir hafa verið gerðar með
fjarstýranlegu hlerana á hafrannsókna-
skipinu Árna Friðrikssyni og þær lofuðu
mjög góðu að sögn Atla. Fyrir lok árs
verða hlerar prófaðir í tveimur botnfisk-
veiðiskipum og síðan halda prófanir
áfram á næsta ári.
„Við höfum um nokkurt skeið unnið
með hugmyndina um fjarstýranlega
hlera en það má segja að framþróunin
sem orðið hefur á allra síðustu árum í
þráðlausum gagnaflutningi milli skips og
veiðarfæris hafi fært okkur nær lausn-
inni. Þetta er sama tækni og nemarnir á
veiðarfærunum og hlerunum byggja á.
Með breytingum á vængjum hleranna
sjá menn hvernig þessi mikilvægu hug-
tök um afstöðu þeirra, pitch og roll,
breytast á skjámyndunum frá hlera-
nemunum,“ segir Atli.
Hann telur fjarstýranlegu hlerana
mikla tækniframför í veiðum með flottroll
„en þaulvanir skipstjórar í botnvörpu-
veiðum sjá líka mikla möguleika með
þessum búnaði. Það verður forvitnilegt
að kynna mönnum þessa tækni á sýn-
ingunni,“ segir Atli.
polardoors.com Bás E60 og O2b
Pólar toghlerar
Grandagarði 16, Reykjavík
Sími 568 5080
atlimarj@polardoors.com
Fjarstýranlegi toghlerinn í prófunum um borð í hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, fyrr á
þessu ári.
Atli Már Jósafatsson, framkvæmdastjóri
Póla toghlera.
Pólar kynna fjarstýr-
anlega toghlera