Húnavaka - 01.05.1991, Blaðsíða 117
HÚNAVAKA
115
liðin sagðist hún ekki ætla að taka neitt af þeim. Ég þóttist nú viss
um að hún myndi hafa verið búin að taka mörg kefli áður en ég
varð þess var, fór því til bókhaldarans og sagði honum sem var.
Hann vildi ekkert aðhafast. Þetta var fyrripart dags. Var ég eftir
það mjög óánægður við sjálfan mig að hafa sleppt henni með þau
kefli sem ég var viss um að hún haíði hnuplað. Leið svo dagurinn
til kvelds. En þegar ég sá að hún var að búa sig til að fara á bak
til heimferðar tók ég rögg á mig, fór til hennar og spurði formálalaust
hvort keflin hefðu ekki verið 20 sem hún hefði tekið því það hefði
gleymst að skrifa þau. Þarna voru margir viðstaddir og hún hefur
líklega ekki árætt að fara að pexa um aðstæðurnar en svaraði látlaust
að svo myndi hafa verið. Ég þakkaði fyrir, kvaddi með kurt og pí,
fór inn og lét skrifa 20 kefli og þóttist af maður að meiru. — Þessi
tvö dæmi eru frá Blönduóssveru minni síðustu árin en þá hefi ég
verið 12-13 ára.
Þetta var sem sagt svo að segja daglegt brauð í kauptíðum bæði
á Skagaströnd og Blönduósi en aldrei var það kært til yfirvaldanna.
Érá fornu fari var sú trú held ég viðloðandi hjá fólki að kaupmenn
féflettu viðskiptamennina þegar þeir gætu komið höndum við. Væri
því ekki nema kaup kaups að gjalda líku líkt þegar tækifæri gæfist.
Strandamenn komu venjulega tvisvar á ári, á stórum áttæringum
og teinæringum frá Dröngum, Ófeigsfirði, Trékyllisvík, Reykjarfirði,
Bjarnarfirði og Kaldrananesi. Sjaldan man ég eftir að komið væri
frá Steingrímsfirði, Kollafirði og Bitrufirði. Munu þeir aðallega hafa
sótt til Arngerðareyrar eða sumpart Breiðafjarðar. Á Strandaskipun-
um voru oftast upp undir þrjátíu manns. Af varningi fluttu þeir
lítilsháttar ull, æðardún, fiður, hákarl, tóuskinn og svo rekavið. Var
oft sukksamt á Skagaströnd þegar þeir voru á ferðinni, einkum þegar
svo hittist á að 2-3 skip voru á ferðinni í einu. Mestur gustur var
á þeim Reykjarfjarðarfeðgum, Jakobi gamla Thorarensen og sonum
hans, Jakobi, Ólafi og Valdemar. Jakob gamli hafði einlægt dálitla
verslun í Reykjarfirði (Kúvíkum) en lítil var hún og birgðir óveru-
legar, mest alls konar uppboðsskran sem hann hafði lagt sig mikið
eftir þegar hann var á sínum Hafnarferðum. Valdemar, sem síðar
varð málafærslumaður á Akureyri, var þá við stúdentsnám. Myndar-
legir voru þeir feðgar á velli og ætíð vel til fara og höfðu snyrtilega
framkomu en notuðu mikið dönskuslettur. Þótti okkur drengjunum
mikið að þeim sópa.