Dagblaðið Vísir - DV - 30.10.2009, Side 31
helgarblað 30. október 2009 föstudagur 31
Illdeilur séra Gunnars
KLOFIN KIRKJA
Deilan innan Fríkirkjunnar í Reykjavík á 9. áratug
síðustu aldar er eitt stærsta deilumál kirkjusafnaða
hér á landi. Lengi vel var kirkjan algjörlega klofin
milli tveggja andstæðra fylkinga. Þá gegndi Gunnar
Björnsson embætti sóknarprests Fríkirkjunnar og
þegar á leið fékk meirihluti sóknarnefndarinnar
sig fullsaddan af séra Gunnari og eiginkonu hans
Ágústu. Heimildir DV herma að hún hafi orðið
nokkuð ágeng í kórstarfi kirkjunnar og hafi viljað
ein komast að öllum söng sem þar færi fram.
Þannig tók hún fram fyrir hendurnar á organista
kirkjunnar og öllum kirkjuhöldurum. Á endanum
leysti safnaðarstjórnin Gunnar frá störfum vegna
samstarfsörðugleika. Reyndar var honum tvívegis
sagt upp. Fyrst í september 1985 en mánuði síðar
var hann endurráðinn eftir að hafa gert samkomu-
lag um að bæta ráð sitt. Rúmu hálfu ári síðar taldi
safnaðarstjórnin séra Gunnar hafa brotið gegn
samkomulaginu og að samstarfsörðugleikarnir
hefðu verið orðnir það miklir að stjórnin ætti ekki
annarra kosta völ en að víkja honum aftur úr starfi.
Stjórnin samþykkti brottvikninguna með fimm
atkvæðum gegn tveimur.
Upp frá þessu klofnaði kirkjan í tvær fylkingar,
stuðningsmenn stjórnarinnar og stuðningsmenn
séra Gunnars. Á tímabili var rætt um að skipta
söfnuðinum upp í tvo söfnuði. Kvenfélag
Fríkirkjunnar studdi stjórnina heilshugar og
ályktaði gegn stuðningsmönnum prestsins sem
konurnar sögðu ósmekklega aðför að stjórninni.
Blásið var til safnaðarfundar þar sem meirihluti,
376 atkvæði gegn 313, lýsti yfir vantrausti á
safnaðarstjórnina og séra Gunnar fagnaði. Síðar
boðaði safnaðarstjórnin til annars fundar þar sem
fram fór atkvæðagreiðsla um brottvikninguna.
967 fundarmenn studdu hana, 26 voru á móti og
29 skiluðu auðum seðli. Á kjörskrá voru liðlega 4
þúsund manns og séra Gunnar lýsti yfir vonbrigð-
um með að svo margir hefðu kosið gegn presti
sínum. Gunnar kom nokkru síðar að læstum dyrum
í Fríkirkjunni. Safnaðarstjórnin fagnaði sigri og leit
svo á að deilunni væri lokið.
Svo var nú aldeilis ekki. Séra Gunnar réð sér
lögmann sem leitaði til fógeta í þeirri von að
ógilda brottvikninguna. Sú varð ekki raunin og
fógeti heimilaði útburð prestsins úr prestsbústað
Fríkirkjusafnaðarins við Garðastræti. Eftir hatramm-
ar deilur, sem meðal annars fóru fram á síðum
dagblaða, yfirgaf Gunnar Fríkirkjuna í Reykjavík.
BAÐST AFSÖKUNAR
17. ágúst 1989, rúmu ári eftir deiluna í Fríkirkjunni,
var séra Gunnar Björnsson ráðinn sem prestur í
Holti í Önundarfirði. Lengi vel var hann vel liðinn í
starfi en áratug síðar komu upp deilur milli hans og
sóknarbarna sem enduðu á því að nokkur þeirra
kærðu hann fyrir erfiðleika í samskiptum og brot í
embætti. Á almennum safnaðarfundi var samþykkt
að veita Gunnari tímabundið leyfi frá störfum og
deilunni var vísað til áfrýjunarnefndar Þjóðkirkjunn-
ar. Gunnar sagði misklíðina við sóknarbörnin hafa
komið sér fullkomlega í opna skjöldu og benti á að
um fáa óánægða einstaklinga væri að ræða.
Um þessa óánægðu einstaklinga ritaði séra Gunnar
bréf og sendi til prófastsins. Þetta bréf kom fyrir
sjónir almennings og var meðal annars birt á
netinu nokkru síðar. Það er einkum þetta bréf sem
varð til þess að Gunnar hlaut skammir fyrir. Sjálfur
hefur hann lýst yfir eftirsjá vegna bréfaskrifanna
og sagði bréfið ekki hafa verið ætlað til birtingar.
Fyrir utan hin særandi bréfaskrif, þar sem hann
líkti sóknarbörnum sínum við Amish-fólk, var
prestinum gert að sök að hafa greint óviðkomandi
frá trúnaðarsamtali við sóknarbarn og að hafa farið
út fyrir velsæmismörk í ræðu sinni í kirkjunni.
Deilan endaði með því að Karl Sigurbjörnsson,
biskup Íslands, áminnti Gunnar, í mars árið 2000,
fyrir framkomu sem honum þótti ósamrýmanleg
því embætti sem presturinn gegndi. Í sérstöku bréfi
biskups til Gunnars mælti biskup fyrir um ákveðna
háttsemi og framgöngu og kvaðst gera það
vegna þjáninga og sorgar sem hann hefði valdið
sóknarbörnum sínum í Holti. Karl gaf Gunnari kost
á því að bæta ráð sitt en færði hann úr starfi sem
prestur í Holtskirkju og yfir í sérverkefni á vegum
Þjóðkirkjunnar. Það gerði Karl biskup eftir úrskurð
þess efnis frá áfrýjunarnefnd kirkjunnar. Biskupi
barst síðar afsökunarbeiðni frá séra Gunnari: „Ég
undirritaður, Gunnar Björnsson, sérþjónustuprest-
ur, bið fyrrverandi sóknarbörn mín í Holtspresta-
kalli, sem og aðra þá sem ég kann að hafa brotið
gegn, afsökunar. Sóknarbörnum í Holtsprestakalli
bið ég blessunar Guðs.“
SÝKNAÐUR AF ÁKÆRUM
Þrjár ungar stúlkur, allar undir 18 ára aldri, kærðu
séra Gunnar, sóknarprest í Selfosskirkju, fyrir kyn-
ferðisbrot gegn þeim. Þegar ákærur voru gefnar
út gegn prestinum bað hann um leyfi frá störfum
og í því leyfi var hann í tvö ár á meðan málið var
afgreitt, fyrst í héraðsdómi og síðar Hæstarétti.
Hann var sýknaður á báðum dómstigum. Engu að
síður var það viðurkennt fyrir dómi að séra Gunnar
hefði strokið, kysst og leitað sér huggunar hjá
ungum sóknarbörnum sínum. Af ákærum um kyn-
ferðisbrot var hann sýknaður en síðar úrskurðaði
úrskurðarnefnd kirkjunnar gegn Gunnari; þar var
skýrt kveðið upp að presturinn hefði brotið gegn
siðareglum presta með hegðun sinni.
Málið hefur valdið deilum meðal safnaðarins og er
talið að hann sé klofinn í tvær fylkingar. Sóknar-
nefndin sjálf, með Eystein Jónasson formann í
broddi fylkingar, krafðist þess að Gunnar fengi ekki
að snúa til baka, það var gert bréfleiðis til biskups,
og fékk vilja sínum framgengt.
Biskup Íslands gaf út skýr fyrirmæli, meðal annars
til sóknarprestsins sem leysti séra Gunnar af hólmi,
um að Gunnar fengi ekki að sinna embættisverkum
við Selfosskirkju á meðan málarekstur gegn honum
stæði yfir. Engu að síður varð presturinn uppvís að
því að sinna útför í óþökk biskups áður en lyktir
málsins voru ljósar. Þá sóttist hann síðar eftir því að
fá að jarðsyngja gamlan vin sinn í Selfosskirkju en
fékk neitun frá sóknarprestinum og biskupi.
Leyfi séra Gunnars frá störfum sóknarprests í
Selfosskirkju lauk á 65 ára afmælisdegi hans en
þá tilkynnti biskup að hann yrði færður til í starfi.
Bréf þess efnis endursendi Gunnar til biskups og
hefur fram til þessa neitað að hlýða fyrirmælum
yfirboðara síns. Hann hefur boðað málshöfðun
gegn Biskupsstofu vegna málsins en mögulegt er
að málinu ljúki áður með því að séra Gunnar taki
tilboði um myndarlegan starfslokasamning.
Rekinn tvisvar Séra Gunnar var tvívegis rek-
inn úr Fríkirkjunni í Reykjavík, fyrst í september
1987 og síðan í júní 1988.
Bréfið lak út Bréf séra Gunnars til prófastsins
lak í fjölmiðla. Í bréfinu líkti presturinn
sóknarbörnum sínum við Amish-fólk.
Snýr ekki aftur Biskup
harðneitar séra Gunnari
um að snúa aftur til
starfa í Selfosskirkju.