Dagblaðið Vísir - DV - 30.10.2009, Qupperneq 37
helgarblað 30. október 2009 föstudagur 37
Hann varð að hætta út af sukkinu því það fór
fram úr öllu sem hann taldi sig geta ráðið við.
Þegar hann er spurður um versta fylliríið í lífi
sínu segir hann það bara hafa verið allir þessir
sex mánuðir með Brunaliðinu. „Alveg frá því að
maður mætti í fyrstu upptökuna. Það var ekkert
þeim að kenna heldur var ég bara á þeim stað í
lífinu að ég vildi sukka. Sumarið ´78 er meira og
minna í þoku hjá mér. Þarna áttaði ég mig á öllu
ruglinu og dró umtalsvert úr allri neyslu. Það má
segja að hittarinn Ég er á leiðinni hafi bókstaf-
lega nærri því verið búinn að drepa mig,“ segir
Magnús og hlær.
Eitt alversta djammið þetta sumar var þegar
Brunaliðið spilaði á Rauðhettumótinu á Úlfljóts-
vatni. Magnús kom heim tveimur sólarhringum
seinna en hann ætlaði að koma og man ekkert
hvað gerðist á þeim tíma. Elsa konan hans var
þá búin að hringja á spítalana í borginni, lögg-
una og út um allt en fann hann hvergi. „Þenn-
an Brunaliðstíma hagaði ég mér verr en skepna.
Þetta var allt of mikið.“
Hefði átt að fara í meðferð
Magnús kynntist konu sinni, Elsu Stefánsdóttur,
árið 1963. Hann segir frá því í bókinni að það hafi
ekki verið ást við fyrstu sýn, en ást við fyrsta koss.
Fyrstu árin var sambandið „ekki svo fastmótað“
en smám saman tengdust þau æ betur þangað
til Magnús gat ekki hugsað sér að lifa án henn-
ar. Magnús og Elsa eignuðust þrjá syni á árun-
um 1971 til 1983, þá Stefán Má, Andra og Magn-
ús Örn.
Þú segir frá því í bókinni að þið Elsa haf-
ið djúsað saman í mörg ár en upp úr 1990 fari
drykkjan að aukast hjá henni.
„Já. Þetta fer að verða ofneysla hjá mér á
Brunaliðstímanum en ég næ að rífa mig upp úr
því og hætti í tónlistinni í tengslum við það í smá
tíma. Svo þegar ég fer aftur að sinna tónlistinni
og er dálítið mikið í burtu fer Elsa að drekka ein.
Það er ekki gott að drekka einn. Hún missir fljót-
lega tökin á þessu og verður veik af því að hún
notar áfengi svo mikið og þarf að leita sér hjálp-
ar. Fer í meðferð.
Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að fara
í meðferð líka sem kóari og fyllibytta. En mér
fannst ég þurfa að halda batteríinu á floti. Reka
heimilið og svona. Ég var líka kannski ekki tilbú-
inn til þess andlega að fara í sloppinn. Það var
mikið að gera og svona og ég mátti ekkert vera
að því að fara í einhvern slopp. Síðan finnst mér
ekkert mál hvað mig varðar að fá mér í glas af því
að ég get hætt.“
Drakk mikið eftir fráfall elsu
Þú prófaðir AA-fundi eftir að Elsa fór í meðferð og
talar nokkuð vel um þá í bókinni.
Það líður andartaksstund áður en Magn-
ús svarar. Við horfum fram á veginn þar sem
við erum staddir við Esjurætur á leiðinni aftur
að höfuðborgarsvæðinu. „Þessir fundir eru nú
ekki allir eins. En yfirleitt fannst mér þeir góðir
og heiðarlegir. Fólk skýrði bara af æðruleysi frá
sinni glímu við áfengið og önnur fíkniefni. En
það eru náttúrlega margar tragedíur sem maður
sér gerast fyrir framan augun á sér, sérstaklega í
tengslum við alkóhólið. Það er svo lúmskt af því
að það er löglegt. Þá er það á lymskulegan hátt
að leggja líf fólks í rúst þótt þú takir kannski ekki
eftir því. Vandamálið er í fjölskyldunum og þær
kóa.“
Eftir að Elsa deyr vorið 1999 ferðu að drekka
mikið.
„Ég kunni ekkert annað ráð til að deyfa mig.
Ég greip því þennan löglega vímugjafa trausta-
taki. Svo fattaði ég að það var ekki lausnin, hvorki
gagnvart mér né fjölskyldunni. Og allra síst gagn-
vart fjölskyldunni þegar hún var búin að horfa á
einn meðlim fara lóðbeint í þetta helvíti.“ Magn-
ús íhugaði sjálfsvíg á þessum tíma í lífi sínu eins
og hann segir frá í bókinni og lesa má í ramma
hér til hliðar. Hann var „þannig lagað“ tilbúinn
í það og átti haglabyssur sem hann hefði getað
notað til verksins. En góðu heilli lét Magnús ekki
til skarar skríða.
Hugsarðu oft til Elsu?
„Já, maður gerir það. Annars þarf ég ekkert að
gera það, hún er hérna í hjartanu og fer með mér
hvert sem ég fer,“ segir Magnús og tekur hægri
hönd sína af stýrinu og leggur á vinstra brjóstið.
„Eins og allt gott fólk sem ég hef kynnst.“
skyggnigáfan fór
með sakleysinu
Á fleiri en einum stað í æskulýsingum þínum í
bókinni virðistu búa yfir skyggnigáfu. Finnurðu
einhvern tímann fyrir Elsu eða sérð hana?
„Nei. Ég er ekki skyggn en ég held að þú get-
ir náð sambandi við þá sem eru farnir bara með
því að hugsa til þeirra, ef hugsunin er hrein og
ómenguð og þú sendir góða strauma frá þér. Og
það gildir ekki bara um fólk sem er farið heldur
líka fólk sem er lifandi. Þú finnur það sjálfur að
sumt fólk sendir þér leiðindastrauma. Þú þarft
ekki að vera skyggn til að finna þetta.
Skyggnigáfa í mínum huga er annars þegar
maður sér einhvern sem er farinn. Ég hafði þá
gáfu þegar ég var barn að aldri. En svo hverfur
hún einhvern veginn um leið og sakleysið.“
Færðu þér ennþá aðeins í tána í dag?
„Já, ég er til í að fá mér stundum í tána. En það
er ekkert aðeins í mínu tilfelli því ég drekk bara
út af áhrifunum. Ef ég ákveð að detta í það þá
bara dett ég í það og er fullur í eitt kvöld. En það
þýðir ekki að dagurinn á eftir verði fyllirí.“
Magnús segir á einum stað í bókinni að
„svörtu hundarnir komi þegar partíið hefur stað-
ið of lengi og þá glefsi þeir í hælana á manni“.
Svörtu hundarnir segir hann að sé hugtak sem
Winston Churchill hafi notað yfir þunglyndi.
„Og hann hefur það örugglega frá Dylan
Thomas eða einhverjum lengst aftur úr forn-
eskju. Þegar þú ert búinn að drekka lengi og
kemur niður af drykkjunni er þunglyndi mjög
algengt, og stundum mjög slæmt. Það getur líka
komið af öðrum vímugjöfum, mér er til dæmis
sagt að niðurtúrinn af kókaíni sé mjög slæmur.
En svörtu hundarnir eru ágætis nafn á þung-
lyndi.“
Hafa þessir hundar glefsað harkalega í þig?
„Nei, ég hef ekki lent í þunglyndi, guði sé lof.
En ég hef fengið þunglyndiseinkenni þegar ég er
að koma niður úr drykkju. Ég hef ekki upplifað
það þegar ég hef komið niður af hassi, en ég hef
upplifað mild þunglyndiseinkenni þá sjaldan
sem ég hef prófað harðari efni.“
talar við Hinn mikla, eilífa anDa
Hvenær varstu hamingjusamastur í lífinu?
„Það var þegar ég var fjölskyldufaðir. Að elska
góða konu og ala upp góða stráka. Þá var ég
langhamingjusamastur. Og ég er hamingjusam-
ur ennþá.“
Greinilegt er á bókinni að þú trúir á eitthvað
æðra. Hefurðu alltaf gert það?
„Já, já. Mér dytti ekki í hug að halda að mann-
kvikindið sé endirinn.“
En þú notar ekki orðið „guð“ yfir þetta æðra.
„Nei, ég kalla það hinn mikla, eilífa anda. Það
er rétta nafnið,“ segir Magnús. Spurður hvort
hann trúi þá ekki á andann sem þann Guð sem
kristnir menn trúa og treysta á segir Magnús
að það sem hann eigi svo erfitt með að kaupa í
kristninni sé faðir, sonur „og“ heilagur andi. „Ég
vil meina að þetta sé allt hinn mikli, eilífi andi.“
Talarðu oft við hinn mikla eilífa anda?
„Nei, ég geri það nú ekki. Kannski einu sinni
á dag, ef ég er duglegur.“
Samt það.
„Já. Ég þakka honum stundum fyrir að hafa
lifað daginn af.“
„Hef alDrei sæst við Diskó-gleði-
bankann“
Einn er sá kafli í lífi Magnúsar sem við höfum
ekki enn tæpt á. Það er Eurovision-keppnin árið
1986 þar sem lag Magnúsar, Gleðibankinn, vann
undankeppnina hér heima og var því fyrsta lag-
ið sem keppti fyrir Íslands hönd í keppninni
frægu.
„Ég lít bara á þetta sem eitt af ævintýrunum
í mínu lífi sem var mjög gaman að upplifa,“ seg-
ir Magnús þegar blaðamaður spyr hvernig hann
horfi á það húllumhæ allt núna, tæpum aldar-
fjórðungi seinna, um leið og við tökum vinstri
beygju inn á Þingvallaafleggjarann.
„Ég þurfti ekki að gera annað þarna úti í Berg-
en en að vera þarna og vera bara gúddí gæi. Elsa
var með mér og við fórum í partí, borðuðum
góðan mat, hittum skemmtilegt fólk og höfðum
það rosalega gott. Þannig að það er ekkert nema
gott um þá tíma að segja
En þetta var og er helvíti mikið álag á kepp-
endurna. Og þetta er orðið ennþá meira sjó í dag
og spurning hvers konar keppni þetta er orð-
ið eiginlega. Þetta heitir „song-contest“, laga-
keppni, en þetta virðist orðin einhver sviðsetn-
ing á einhverjum gay-dögum. Er það ekki?“
Hvernig verður þér við þegar þú heyrir í Gleði-
bankanum í útvarpi eða sjónvarpi?
„Sko, mér þykir allt vænst um gamla Gleði-
bankann sem ég sendi í keppnina hér heima og
Pálmi söng einn. Ég hef aldrei sæst við diskó-
Gleðibankann sem var búinn til seinna. Ég var
líka látinn breyta útsetningunni og textanum og
það var ekki breyting til batnaðar að mínu mati.“
vilDu ekki Helgu möller
Þú segir frá því í bókinni að þið Pálmi voruð ekki
sáttir við að fá Helgu Möller inn í dæmið en Egill
Eðvarðsson, pródúsent hjá RÚV, hafi staðið fast-
ur á því. Hvert er viðhorf þitt til þeirrar ákvörð-
unar núna?
„Við vorum svo miklir rokkarar þarna í gamla
daga að sú hugmynd að breyta okkur í einhverj-
ar diskódúkkur var eins og spark í punginn. Við
vorum alveg svakalega nojaðir yfir þessu í lang-
an tíma. Við Pálmi vorum báðir með ægilegt
gagg yfir þessu, báðar prímadonnurnar, enda
allt í einu orðnir heimsfrægir á Íslandi. En Egill
tók okkur náttúrlega bara í bakaríið, setti Pálma
í apabúning og lét hann dansa, ég var settur í
jakkaföt frá Sævari Karli og svo var okkur spark-
að út til Bergen,“ segir Magnús og hlær.
Pálmi Gunnarsson hefur verið samstarfsmað-
ur Magnúsar í gegnum þykkt og þunnt. Magnús
segir það ekkert launungarmál að oft hafi orðið
árekstrar á milli þeirra.
„Það er náttúrlega þannig að þegar menn eru
orðnir mjög nojaðir í sukkinu má ekki mikið út
af bera til að allt verði vitlaust. Þá má stundum
ekki halla orði á vissar prímadonnur, hvort sem
það er ég, Pálmi eða einhver annar, til að príma-
donnan geggist. Stundum á alveg óútskýranleg-
an hátt er prímadonnan allt í einu orðin sjóðandi
bandvitlaus og rífur af sér bassann eða gítarinn
og hendir honum í gólfið.
Við Pálmi höfum marga fjöruna sopið en ein-
hvern veginn hefur þetta alltaf blessast. Við höf-
um alltaf verið menn til að fyrirgefa hvor öðrum
ef eitthvað hefur bjátað á. Og hvorugur okkur er
of stór karl til að biðjast afsökunar ef við höfum
hagað okkur eins og fífl.“
Magnús og Pálmi starfa enn saman og kom
enn ein Mannakornsplatan út í maí síðastliðn-
um, platan Von. Vinsældir þessarar ástsælu
hljómsveitar virðast ekkert vera að dvína, nema
síður sé, því platan hefur verið á topp tíu yfir
mest seldu plötur landsins frá fyrsta degi.
HúsHjálpin Hætti að mæta
Magnús og Elsa bjuggu sér heimili í Logalandi
í Fossvogi snemma á áttunda áratugnum. Þar
hefur Magnús búið alla tíð síðan. Yngsti sonur-
inn, Magnús Örn, býr þar hjá honum og segir
hann sambúðina ganga vel.
„Við höfum líka búið svo lengi saman. Við
kunnum að umgangast hvorn annan af hæfilegri
virðingu.“
Er skýr verkaskipting um hvor þvær þvottinn,
skúrar og svo framvegis?
„Það þvær hver af sér. Það er verkaskipting-
in, ekkert flóknara en það. Við kunnum báðir á
þvottavélina.“
Þurfið þið ekkert konu til að stýra heimilis-
haldinu?
„Við vorum með eina en hún gafst upp á
draslinu hjá okkur.“
Var það svona húshjálp?
„Já. Hún var af asísku bergi brotin. Henni leist
ekkert á blikuna.“
Sagði hún upp?
„Nei, nei, hún hætti bara allt í einu að koma.
En þetta er ekkert kvenmannsverk frekar en karl-
mannsverk. Við getum allir sett í þvottavélina og
strokið af gólfunum.“
Ertu aldrei einmana?
Magnús hlær. „Hvenær er maður einn þegar
maður er með guði sínum?“ spyr Magnús á móti
þar sem við brunum í átt að borginni á ný.
kristjanh@dv.is
„Síðan man ég bara að ég er eitthvað að lóna í kringum Hótel Búðir að fá mér sjúss úr flöskunni og er
alveg við það að missa meðvitund aftur. Svo kemur algleymið og ég missi nokkra klukkutíma úr lífinu.
Það næsta sem ég man er að ég er að vakna í hjólhýsi. Það er í sjálfu sér allt í lagi nema að þetta hjól-
hýsi er á fleygiferð og á leiðinni einhvern andskotann. Ég er sem sagt aftan í bíl sem dregur hjólhýsið sem
aldrei fyrr. Ég læðist nú að glugganum og kíki út. Sé ég þá að ég er farþegi hjá ókunnugum eldri hjónum
sem eru að keyra bílinn. Ég skil nú ekki hvernig í andskotanum ég hef komist óséður í hjólhýsið. Virðist
bara hafa lagt mig þarna enda þreyttur eftir erfiða nótt. Nú það er ekkert að gera nema leggja sig bara aftur
enda bíllinn á fleygiferð. Ég veit ekki fyrr en við erum komin í Ártúnsholtið í Reykjavík þar sem stoppað
er til að taka bensín. Þar tekst mér að lauma mér óséður út úr hjólhýsinu og panta mér leigubíl lokaspöl-
inn í Fossvoginn.
Þetta var ekki mjög góð byrjun á búskap okkar Elsu.“ (Bls. 95)
- - -
„Ertu alkóhólisti Maggi?
Ef einhver maður á við vandamál að stríða gagnvart áfengi þá er hann alkóhólisti. Hjá mér braust
þessi sjúkdómur snemma fram með því að drekka alltof mikið. Ég gat aldrei notað vín í hófi. Reyndar get
ég kannski sagt mér til smáafsökunar að ég hafði ekki mikið annað fyrir augunum í æsku. Drykkjutilburðir
hinna eldri voru ekki alltaf glæsilegir. Þetta lið varð að klára flöskurnar. Þá var drukkið út af áhrifunum.
Verðum við þá ekki bara að segja að allt þetta hyski hafi verið alkóhólistar? Sumir geta fengið sér eitt hvít-
vínsglas með forréttinum og eitt rauðvínsglas með steikinni og haft unað af góðu víni. Ég hef það ekki. Ég
drekk bara út af áhrifunum. Það var heldur ekki minn stíll að vera að gutla eitthvað í bjór. Ég vildi bara
drekka sterkt og vera fljótur að finna á mér. Ég drakk oft helmingi meira en aðrir enda stór maður. Stund-
um mjór og stundum þykkur. En alltaf hef ég haft þolið í lagi. Ég hef ekki misnotað mig það mikið að ég hafi
sjálfur farið á kúk- og pissstigið.
Hahaha
Það er ekkert hlægilegt við það. Ég hef sjálfur orðið vitni að því þegar áfengissýkin er komin á mjög hátt
stig. Það er ekkert gæfulegt við það. Eða þegar maður drekkur sig í algleymi heima og man svo ekkert dag-
inn eftir.“ (Bls. 105).
- - -
„Hún fór í læknisskoðun árið áður en hún dó og þá var hún við góða heilsu. Ég kenni áfenginu um
þetta. Þennan sama morgun og hún dó úr hjartaslagi vorum við Stefán, elsti sonur minn, heima. Við vor-
um að bíða eftir sjúkrabíl sem átti að flytja hana upp á Vog í meðferð. Það veit enginn hvort þeir hefðu get-
að bjargað henni ef hún hefði verið komin upp á Vog. Þetta kom svo skyndilega.
Á þessum árum var hún virkur drykkjumaður en hún reyndi oft að hætta að drekka. Það getur enginn
alkóhólisti útskýrt af hverju hann drekkur.
[...] Fyrstu dagana fór ég ekki út úr húsi og var sem lamaður. Helmingurinn af þér deyr þegar þú missir
maka þinn. Maka sem þú elskar og ert búinn að búa með í yfir þrjátíu ár. Hinn helmingurinn sem tórir vill
helst fara bara líka. Ég var með tvo yngri strákana ennþá heima.
Ég hellti mér bara í drykkjuna. Það var svona það fyrsta sem ég gerði. Síðan virkaði það ekki til lengdar.
Það eykur bara á þunglyndið og leiðindin. Þegar þú fattar að það er betra að fara út að labba en að fá þér
í glas ertu kominn á pínulítinn bataveg.
Þetta er bara handónýtt fyrstu árin á eftir. Það er ekki hægt að segja neitt annað. Ef maður er spurður
hvort maður sakni hennar þá er svarið ég sakna bara alls. Lífið verður tilgangslaust þegar þú ert hættur að
hugsa fyrir tvo og hugsar bara fyrir einn. Að minnsta kosti fyrst á eftir. Þessar tvær manneskjur eru næstum
orðnar ein manneskja og farnar að hugsa eins.“ (Bls. 182-184)
- - -
„Hefur þig ekkert langað til að deyja?
Nei, ég get ekki sagt það. Það hvarflar væntanlega að flestum á einhverju æviskeiði. Held ég.
Ég meina langað til að stúta þér?
Mér datt það nú kannski í hug þegar ég missti Elsu. Það gæti nú bara verið sniðugt að fara á eftir
henni. Drífa sig bara líka. Ég var alltaf þannig lagað klár í að gera það. Á góðar haglabyssur og svoleiðis.
En ég hugsa ekki mikið um það. Við skulum orða það þannig að ég sé svo klikkaður að ég þori ekki að eiga
skammbyssu. Það er svo lítið vesen að skjóta sig með henni.“ (Bls. 185)
Úr Reyndu aftur - ævisögu Magnúsar Eiríkssonar tónlistarmanns, Tómas Hermannsson skráði, Sögur útgáfa 2009.
synirnir Stefán Már,
Andri og Magnús Örn fyrir
þó nokkrum árum.
verðandi tónlistarmaður Hér er Magnús
fimmtán ára og tónlistargutlið að byrja. Fyrsta
lagið þar sem hann samdi bæði lag og texta varð
til þremur árum síðar.