Dagblaðið Vísir - DV - 06.01.2010, Qupperneq 4
4 MIÐVIKUDAGUR 6. janúar 2010 FRÉTTIR
Tölvuvilla hjá LÍN stökkbreytti námslánum Maríu Arinbjarnar:
Skuldaði 128 milljónir í námslán
„Þetta var dálítið sjokk, mér fannst
þetta eiginlega fyndið og langt út
yfir það sem maður bjóst við,“ seg-
ir María Arinbjarnar, doktorsnemi
í tölvunarfræði, sem opnaði yfirlit
sitt á vef Lánasjóðs íslenskra náms-
manna og sá sér til mikillar undr-
unar að námslánin hennar höfðu
stökkbreyst á einni nóttu. Þegar
María opnaði yfirlitið kom í ljós að
hún skuldaði LÍN tæplega 128 millj-
ónir króna.
Við nánari athugun kom í ljós að
ástæðan fyrir hinni risastóru skuld
hennar, voru ekki auknar álögur á
námsmenn vegna Icesave-samn-
ingsins, eða annað slíkt. Svo virðist
sem upp hafi komið einhver kerf-
isvilla hjá Lánasjóðnum, sem gerði
það að verkum að lán Maríu og fjölda
annarra námsmanna stökkbreyttust.
Upp komst um villuna skömmu
fyrir opnun skrifstofunnar á mánu-
dag og samkvæmt upplýsingum var
síminn á skrifstofunni rauðglóandi
þann dag. Sjálf er María sem fyrr
segir doktorsnemi í tölvunarfræði
og veit því sitthvað um slíkar vill-
ur. „Um áramótin fara af stað allar
samkeyrslur á milli banka, Reikni-
stofu bankanna og ríkisstofnana.
Þetta er greinilega forritunarvilla
sem einhvers staðar hefur legið,“
segir hún.
Teymi tæknimanna vann hörð-
um höndum á mánudag við að
finna villuna í forritun LÍN og
leiðrétta skuldastöðu lántakenda
sinna. Jafnvel þó að María hafi séð
húmorinn í þessum mistökum,
bendir hún á að um áramót séu
jafnan send út yfirlit til lántakenda
og jafnvel á ábyrgðarmenn líka. Það
kæmi ekki vel út fyrir aðstandendur
námsmanna að sjá lánin sem þau
eru í ábyrgðum fyrir vera komin á
annað hundrað milljónir króna.
valgeir@dv.is
128 milljóna króna skuld
Það er dýrt að vera í námi, en
ekki svona dýrt. Í ljós kom að
tölvuvilla hafði gert það að
verkum að lánin stökkbreyttust.
GENGI GRUNAÐ
UM DÝRANÍÐ
Unglingagengi á Þórshöfn hefur um
tveggja ára skeið valdið miklum usla
í bænum með ólátum og skemmdar-
verkum. Lögreglan hefur ítrekað verið
kölluð til vegna ungmennanna og því
er meðal annars haldið fram að hóp-
urinn níðist á dýrum.
Tæpur tugur drengja á unglings-
aldri á Þórshöfn á Langasandi veldur
bæjarbúum hugarangri. Ungu dreng-
irnir hafa ítrekað valdið skemmdum á
hýbýlum íbúa bæjarins, til að mynda
með því að brjóta rúður á heimil-
um og kasta matvælum að húsum.
Þannig hefur eggjakast tíðkast lengi
og eru margir bæjarbúar búnir að fá
sig fullsadda af framferði drengjanna.
Bæjarstjóri vill box
Jón Stefánsson, lögregluvarðstjóri á
Þórshöfn, segir hópinn fara vaxandi ef
eitthvað er og hefur áhyggjur af gangi
mála. Hann segir allt of mikla reiði
ríkja í bænum vegna ungmennanna.
„Skemmdarverk hópsins eru nokkuð
ítrekuð, til að mynda rúðubrot og að
kasta matvælum í hús. Hópurinn hef-
ur farið stækkandi ef eitthvað er. Þessi
hópur hefur verið með mikil ólæti og
ég hef þurft að hafa nokkuð regluleg
afskipti af drengjunum. Þannig hefur
þetta verið í ein tvö ár og vandamál-
ið hefur verið talsvert. Ólæti hópsins
hafa verið talsverð og skemmdarverk
nokkur,“ segir Jón.
Talsverð ólga ríkir meðal bæjarbúa
á Þórshöfn og umræða um skemmd-
arverk og ónæði af hálfu drengjanna
ungu varð til þess að blásið var til op-
ins bæjarfundar þar sem sálfræðing-
ur var fenginn til að fjalla um jákvæð
samskipti. Gunnólfur Lárusson, sveit-
arstjóri Langanesbyggðar, lýsti því yfir
við fréttastofu RÚV í síðustu viku að
hann ætlaði að taka drengina í hnefa-
leikakennslu til að leysa málið.
Heimilisköttum misþyrmt
Jón bendir á að meðal verka lög-
reglu síðustu misseri hafi verið að
lóga heimilisköttum í bænum og
segir hann eigendur kattanna saka
drengjahópinn um illa meðferð á dýr-
unum. Aðspurður telur hann auð-
séð að níðst hafi verið á köttunum.
„Nokkrir heimiliskettir hafa horfið
og aðrir komið heim rennvotir og út-
ataðir í olíu. Þeim hefur þurft að lóga
og enginn kattanna hefur lifað af.
Þetta er ekki góð meðferð á dýrum.
Eigendur þeirra vilja meina að dreng-
irnir séu sökudólgarnir en ég hef ekk-
ert í höndunum um það. Ég get því
ekki staðfest að þetta tengist þeim,“
segir Jón.
Ungmennin í hópnum hafa ítrek-
að verið með ónæði við bæjarbúa og
gesti bæjarins. Í síðustu viku ákvað
rekstraraðili eina söluskála bæjarins
að loka sjoppunni vegna ólátahóps-
ins og var hann lokaður í nokkra daga.
Skemmtilegt mannlíf
Halldóra Gunnarsdóttir, æsku-
lýðsfulltrúi Langanesbyggðar, seg-
ir málið vissulega erfitt og áherslu
lagða á að bæjarbúar sameinist um
að beina drengjunum inn á réttar
brautir. Hún bendir á að yfirgnæf-
andi meirihluti ungmenna bæjar-
ins sé að gera góða hluti. „Meiri-
hlutinn er alveg til fyrirmyndar og
það er margt gott að gerast. Þetta
er einangraður hópur og fáir ein-
staklingar. Það er alltaf erfitt þeg-
ar einhverjir eiga erfitt en við erum
stöðugt að reyna að beina hópnum
í jákvæðari farveg,“ segir Halldóra.
„Við viljum að þorpsbúar taki
höndum saman og unga fólkinu
verði beint inn á betri brautir. Hér
er gaman að vera til og hér er ótrú-
lega gott og skemmtilegt mannlíf.“
Mikil reiði
„Þetta var komið á hátt óánægju-
stig í bænum og því var ákveðið
að fá sálfræðing á bæjarfund. Til-
efni fundarins var umræðan um
ólátahópinn og ég rifja upp afr-
ískt máltæki sem segir að það þarf
heilt þorp til að ala upp barn,“ bætir
Halldóra við.
Jón segist ráðalaus gagnvart
ólátabelgjunum því drengirnir taki
engu tiltali. Hann vonast til þess
að tekið verði á málinu hið fyrsta.
„Vegna þessa þótti ástæða til að
kalla til bæjarfundar og fá sérfræð-
ing til okkar. Það var gert til að reyna
að sætta bæjarbúa og lægja öldurn-
ar. Því miður finn ég allt of mikla
reiði í bænum í garð drengjanna og
það er það alvarlegasta í þessu. Það
þarf að taka þetta föstum tökum.
Þetta er búið að vera viðvarandi of
lengi og drengirnir hafa ekki tekið
neinu tiltali. Það er spurning hvað
er til ráða,“ segir Jón.
TRAUSTI HAFSTEINSSON
blaðamaður skrifar: trausti@dv.is
„Það er alltaf erfitt þegar einhverjir eiga erfitt en
við erum stöðugt að reyna að beina hópnum í já-
kvæðari farveg.“
„Það er allt of mikil reiði í
bænum,“ segir Jón Stef-
ánsson, lögregluvarðstjóri
á Þórshöfn. Hann hefur
ítrekað verið kallaður til
vegna unglingagengis
í bænum. Hann segir
ungmennin til mikilla
vandræða og þannig
hafi ástandið verið í
allt of langan tíma.
Slæm meðferð Heimiliskettir
hafa verið rennvættir og útataðir í
olíu þannig að þeim hefur þurft að
lóga vegna meðferðarinnar.
Sjö handteknir
og yfirheyrðir
Fíkniefnadeild lögreglunnar
hefur handtekið og yfirheyrt
sjö karla og konur vegna um-
fangsmikils fíkniefnasmygls.
Talið er að 800 grömmum af
kókaíni hafi verið smyglað til
landsins með flugi á þriðja dag
jóla, laugardaginn 27. desem-
ber. Skömmu síðar var farið
að handtaka og yfirheyra fólk
og var í það minnsta einn úr-
skurðaður í gæsluvarðhald. Sá
hefur játað að hafa flutt fíkni-
efnin hingað til lands og verður
hann í einangrun meðan hann
er í gæsluvarðhaldi, til þess að
koma í veg fyrir að hann geti
samræmt vitnisburð sinn og
annarra.
Beittur hótun-
um til að
smygla dópi
Maðurinn sem situr í gæslu-
varðhaldi vegna smygls á 800
grömmum af kókaíni til lands-
ins hefur bent á annan mann
sem sé höfuðpaurinn á bak
við smyglið. Hann segir þann
mann hafa beitt sig þrýstingi
og hótað sér til að fá sig til
smyglsins. Maðurinn viður-
kennir að hafa farið að minnsta
kosti þrjár ferðir til Íslands til
að smygla fíkniefnum.
Kona sem kom til landsins
með sama flugi og maðurinn
sem hefur viðurkennt smyglið
var líka handtekin og kærð.
Maðurinn segir að hún hafi
engan þátt átt í fíknefnasmygl-
inu en það stangast á við mál-
flutning hennar.
Stal slípivél og
málningar-
sprautu
Þjófur fór inn í vinnugám við
Ægisbraut sjö á Akranesi og
stal þaðan málningarsprautu,
slípivél og ryksugu. Innbrotið
uppgötvaðist á mánudag og var
þá tilkynnt til lögreglu. Biður
lögreglan þá sem urðu varir við
mannaferðir við vinnugáminn
um síðustu helgi að láta vita af
því.
Þetta var ekki eina innbrotið
á Skaganum um síðustu helgi.
Einnig var farið inn á verkstæði
við Ægisbraut 9, á næstu lóð við
þar sem brotist var inn í vinnu-
gáminn. Ekki var að sjá að neinu
hefði verið stolið en einhverjar
skemmdir voru unnar á innbúi
verkstæðisins.