Dagblaðið Vísir - DV - 05.05.2010, Qupperneq 22
22 MIÐVIKUDAGUR 5. maí 2010 ÚTTEKT
Megrunarlausi dagurinn er á morgun en dagurinn er alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum
og fordómum vegna holdafars. Lilja Hrönn Helgadóttir barðist við átröskun í sex ár en tókst með hjálp að
jafna sig á veikindunum. Lilja Hrönn vil sjá meira gert fyrir áströskunarsjúklinga og segist sjálf ekki hafa
þurft að verða jafn veik ef hún bara hefði fengið fyrr hjálp.
„Ég hef það fínt í dag og er, eins og
maður myndi kalla það, batnað. Ég
finn allavega lítið fyrir þessum hugs-
unum þótt einhverjar poppi upp af
og til,“ segir Lilja Hrönn Helgadóttir
sem barðist við alvarlega átröskun í
sex ár. Lilja Hrönn var langt leidd af
sjúkdómnum og var lögð inn á geð-
deild sumarið 2006. „Þar byrjaði
minn bati,“ segir hún en bætir við
að fyrsta skrefið að bata sé að viður-
kenna vandamálið og vilja hjálp. „Ég
hafði samband við samtökin Forma
og komst þar í samband við stelpur
sem höfðu unnið í sínum málum og
fannst gott að tala við einhvern sem
vissi um hvað ég væri að tala. Með-
ferðaraðilann fékk ég svo á geðdeild-
inni.“
170 sentímetrar 40 kíló
Lilja Hrönn segir að það hafi verið
mjög erfitt að jafna sig á átröskun-
inni. „Samfélagið snýst mikið um
megrun. Það er matur allt í kring-
um okkur en samt eru allir í megrun
hvert sem þú lítur, hvort sem er í fjöl-
miðla, á kornflexpakka, á vinnustaði,
í vinahópa og í skólum. Áherslurnar
eru orðnar svo vitlausar í sambandi
við megrun og heilbrigðan lífsstíl,“
segir hún og bætir við að með hjálp
hafi henni tekist að breyta um hug-
arfar. „Mér fannst ég alltaf þurfa að
grennast til að þóknast einhverjum
og ábyggilega mest sjálfri mér. Ég
er 170 sentímetrar á hæð en þeg-
ar ég var grennst var ég komin und-
ir 40 kíló. Í dag borða ég til að njóta
og leyfi mér allt svo lengi sem það er
ekki í óhófi.“
Meiri hjálp nauðsynleg
Lilja Hrönn segist ekki hafa fundið
fyrir fordómum í garð sjúkdómsins.
„Ég fékk skilning alstaðar í kringum
mig. Á þessum tíma var ég í fram-
haldsskóla og bæði foreldrar mínir
og skólinn studdu við mig. Hins veg-
ar þurfti ég að fara ansi langt niður til
að fá hjálp. Ég var alltaf í viðtalsmeð-
ferðum og var ekki lögð inn fyrr en
ég var komin langt niður, í andlegum
skilningi og í þyngd. Ég vildi sjá meiri
hjálp til staðar fyrir einstaklinga sem
sækjast eftir henni og hjálpin þarf
líka að vera aðgengilegri. Það er erf-
itt að þurfa að fara í gegnum mörg
viðtöl og ræða við marga einstakl-
inga áður en þér er fundinn staður
á geðdeildinni. Skiljanlega eru veik-
ustu einstaklingarnir teknir fram fyr-
ir en ég held að ég hefði ekki þurft að
verða svona veik ef ég hefði fengið
hjálp fyrr.“
Væri kannski ekki á lífi
Alvarlegri átröskun geta fylgt alvar-
legir fylgikvillar. Lilja Hrönn seg-
ist heppin að því leytinu að hún
hafi ekki skaðað líkama sinn meira.
„Mest af þeim skaða hefur gengið
til baka og fyrir það er ég þakklát.
Svona líferni getur farið virkilega
illa með líkamann og skemmt til
dæmis frjósemi og aukið beinþynn-
ingu,“ segir hún en bætir aðspurð
við að hún viti ekki hvar hún væri
stödd í dag hefði hún ekki fengið
hjálp. „Það er stóra spurningin. Ég
var orðin mjög líkamlega veik, lík-
lega væri ég enn á þeim stað en svo
getur líka verið að ég væri hreinlega
ekki á lífi,“ segir hún og bætir við
að um geðsjúkdóm eins og hvern
annan sé að ræða. „Hjá mér byrjaði
þetta ekki sem megrun heldur sem
einhvers konar þráhyggja, ég vildi
hafa stjórn á matnum. Átröskun
getur tekið á sig margar myndir og
við þurfum meiri fræðslu. Reynsl-
an sýnir okkur að krakkar niður í
tíu ára aldur eru í megrun og þess
vegna þurfum við forvarnarfræðslu
alla leið niður í grunnskólana.“
indiana@dv.is
Megrunarlausi dagurinn:
n er alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum og fordómum vegna
holdafars.
n var stofnaður árið 1992 af fyrrum átröskunarsjúklingi, Mary Evans Young, til þess að
vekja athygli á skaðlegum áhrifum útlitsdýrkunar og mismununar í garð þeirra sem
falla utan hins viðurkennda ramma um æskilegan líkamsvöxt.
n er haldinn hátíðlegur víða um heiminn árlega þann 6. maí til þess að vekja athygli á
þjáningum sem hljótast af þráhyggju um grannan vöxt og almennri andúð á fitu.
n í ár verður gestum og gangandi verslunarmiðstöðva, miðbæjar Reykjavíkur og fleiri
fjölmennum stöðum boðið að stíga á Vei! vigtina til þess að minna á baráttuna.
Með megrunarlausa-
deginum viljum við:
n fagna margbreytilegum líkamsvexti af öllum stærðum og gerðum.
n minna á rétt ALLRA til heilbrigðis, hamingju og velferðar óháð líkamsvexti.
n lýsa yfir opinberum frídegi frá hugsunum um mat, megrun og líkamsvöxt.
n vekja athygli á lítt þekktum staðreyndum um megrun, heilsu og holdafar.
n minna á hvernig megrun og stöðug krafa um grannan vöxt er samfélagsleg
atlaga gegn konum.
n minnast fórnarlamba átraskana og hættulegra megrunaraðferða.
n berjast gegn andúð á líkamsfitu og fordómum vegna vaxtarlags.
Heilsa óháð holdafari:
n Að bæta heilsu – áhersla á tilfinningalega, líkamlega og andlega velferð án
áherslu á þyngdartap eða „kjörþyngd“.
n Að bæta sjálfs- og líkamsmynd – að bera virðingu fyrir dásamlegum fjölbreytileika
líkamsvaxtar í stað þess að keppa að hinni „réttu“ þyngd eða líkamslögun.
n Að njóta þess að borða – að borða samkvæmt innri merkjum hungurs og
saðningar, matarlystar og næringarþarfar hvers og eins
í stað þess að fylgja utanaðkomandi matarplönum,
reglum, boðum og bönnum.
n Að njóta þess að hreyfa líkamann – að stunda
reglulega og ánægjulega hreyfingu sem eykur
lífsþrótt, hreysti og vellíðan í stað þess að
hreyfa sig fyrst og fremst í þeim tilgangi að
grennast.
n Að sporna gegn fitufordómum – að gera
sér grein fyrir því að líkamsstærð og þyngd segja ekki til um matarvenjur, hreyfingu,
persónuleika eða mannkosti. Fegurð og manngildi koma fyrir í öllum stærðum og
gerðum.
Heimild:www.likamsvirding.is
ALLIR ERU
Í MEGRUN
Lilja Hrönn Helgadóttir Lilja Hrönn er
170 cm á hæð en var komin niður fyrir 40
kíló þegar hún var sem veikust.
MYND RÓBERT REYNISSON