Dagblaðið Vísir - DV - 28.05.2010, Page 12
12 föstudagur 28. maí 2010 fréttir
Sveinn Andri Sveinsson segir lokuð réttarhöld yfir vændiskaupendum vera rökrétt:
„Mussukerlingarnar“ vilja bæta heiminn
Sveinn Andri Sveinsson, hæsta-
réttarlögmaður og verjandi eins af
ellefu vændiskaupendunum sem
ákærðir hafa verið, er ánægður
með lokað þinghald gegn sakborn-
ingunum og segir málið sjálft alveg
snargalið. „Þessi ákvörðun dómar-
ans er alveg eðlileg og í samræmi
við þennan brotaflokk, kynferð-
isbrotamál. Þarna er væntanlega
verið að hlífa meintum brotaþol-
um kynferðisofbeldis, sem í þessu
tilviki eru seljendur kynlífsþjón-
ustunnar, og því rökrétt að hafa
lokað þinghald,“ segir Sveinn
Andri.
Arngrímur Ísberg, dómari í
Héraðsdómi Reykjavíkur, hefur
ákveðið að vernda ellefu vænd-
iskaupendur, sem er gefið að sök
að hafa átt viðskipti við Catalinu
Ncogo, með því að hafa réttarhöld
yfir þeim lokuð. Það gerir hann af
tveimur ástæðum, annars vegar til
að vernda þá sjálfa og aðstandend-
ur þeirra og hins vegar af velsæm-
isástæðum.
Málið verður þingfest 2. júní
næstkomandi og er Sveinn Andri
ánægður með lokað þinghald í
málinu. Hann telur að málarekst-
urinn sé alls ekki rétta leiðin í bar-
áttunni við vændi. „Löggjöfin er
kengvitlaus. Hún er dæmi um að
mussukerlingar á þingi vilja bæta
heiminn en hugsa ekkert um af-
leiðingarnar. Þetta bitnar bara á
þeim stúlkum sem hafa leiðst út í
vændi og hrekur þær dýpra ofan í
þær glæpaklíkur sem hafa pening
af þessu. Ég hef trú á því að þetta
færi meira undir yfirborðið og færi
í þetta meiri hörku. Betra væri að
hjálpa vændiskonum og hórkörl-
um með því að veita þeim félags-
lega aðstoð sem vilja hætta og
þeim sem vilja vera áfram í þessu.
Það er barnalegt að halda að
vændið hverfi með þessum hætti
og þetta mál er snargalið,“ segir
Sveinn Andri.
Við vinnslu fréttarinnar var leit-
að viðbragða hjá Arngrími héraðs-
dómara en án árangurs.
trausti@dv.is
Rökrétt ákvörðun Sveinn Andri telur
ákvörðun dómara alveg eðlilega þar sem
litið er á vændiskonurnar sem brotaþola
kynferðisofbeldis.
Hefðbundið myntkörfulán lækkar um 28 prósent en verður þó enn helmingi hærra en það var í upphafi,
fari viðskiptavinir SP-Fjármögnunar þá leið fyrirtækisins að breyta lánum í íslensk. Marinó G. Njálsson
hjá Hagsmunasamtökum heimilanna segir ósvífni að kalla úrræði fyrirtækisins réttarbót fyrir neytendur.
Innan við vika er í að Hæstiréttur úrskurði um lögmæti gengistryggingar.
Lánið enn heLmingi
hærra en í upphafi
„Að mönnum skuli detta í hug að
koma með svona tillögur og kalla
það réttarbót fyrir neytendur er
hrein ósvífni,“ segir Marinó G. Njáls-
son, stjórnarmaður í Hagsmunasam-
tökum heimilanna, á bloggsíðu sinni
um það útspil SP-Fjármögnunar að
bjóða viðskiptavinum sínum lækk-
un á höfuðstóli lána um að jafnaði 28
prósent.
Marinó, sem hefur gagnrýnt að-
gerðarleysi fjármögnunarfyrirtækja
og stjórnvalda gagnvart skuldavanda
heimilanna, hefur miklar efasemd-
ir um útspil SP en fyrirtækið kynnti
í gær leiðir til lækkunar höfuðstóls
gengistryggðra bílalána.
100 prósent hækkun
Gengistryggð bílalán hafa hækkað
gríðarlega frá því gengi krónunnar
tók að veikjast vorið 2008. Algengt
er að höfuðstóll lána hafi tvöfaldast
eða jafnvel meira. Evra hefur til að
mynda hækkað gagnvart krónunni
um rúm 60 prósent frá því í mars
2008, svissneskur franki um 85 pró-
sent en jen um 130 prósent. Algengt
var að myntkörfur væru samsettar
úr frönkum og jenum (til helminga)
en það þýðir að höfuðstóll 2 milljón
króna láns stendur nú í um 4,1 millj-
ón króna. Hækkunin í því tilviki 106
prósent.
Í fréttatilkynningu SP segir að 80
prósent lána til einstaklinga lækki
um 20 til 40 prósent en meðaltals-
lækkunin sé 28 af hundraði.
Dómur á döfinni
Ef mið er tekið af meðaltalslækkun
SP-Fjármögnunar, 28 prósent býðst
fyrirtækið nú til að lækka höfuðstól
lánsins niður í 3 milljónir króna.
Lánið er með öðrum orðum enn
hemingi hærra en þegar það var tek-
ið. Þess má getað að einungis eru fá-
einir dagar þar til Hæstiréttur tekur
fyrir mál vegna lögmæti gengistrygg-
arinnar. Málið er á dagskrá réttarins
í næstu viku, 2. júní en óvíst er hvað
gerist ef niðurstaðan verður á þann
veg að gengistryggingin er ólögmæt.
Lánin lækka með lögum
Útspil SP kemur í kjölfar þeirra fregna
af væntanlegu lagafrumvarpi félags-
málaráðherra en hann hefur boð-
að að lög verði sett sem geri það að
verkum að lánin lækki. Verði frum-
varpið samþykkt má gera ráð fyrir því
að hagur þeirra 40 þúsund einstakl-
inga sem eiga gengistryggð bílalán
vænkist umtalsvert. Algengt verður
að höfuðstóll lánanna lækki um 20 til
35 prósent, að sögn ráðherra. „Með
þessari lækkun tekur SP-Fjármögnun
einhliða upp það ákvæði í frumvarpi
félagsmálaráðherra, sem liggur fyrir
á Alþingi og lítur að höfuðstólslækk-
un erlendra lána. Þessum aðgerðum
er einnig ætlað að stuðla að aukinni
hreyfingu á bílamarkaðnum sem
einkennst hefur af kyrrstöðu undan-
farna mánuði,“ segir í tilkynningu frá
SP vegna málsins en þeir sem ákveða
að breyta lánum geta valið um 2,6
prósent óverðtryggða vexti eða 7,95
prósent verðtryggða vexti. Fyrirtækið
gerir með öðrum orðum ráð fyrir 4,7
prósent verðbólgu en verðbólga nú
er um 8 prósent. Seðlabankinn spáir
því að verðbólga verði komin niður í
3,4 prósent á næsta ári og 2,4 prósent
árið 2012.
SP stendur því frammi fyrir því
að ráðherra hyggst leiða lækkunina
í lög auk þess sem Hæstiréttur mun
dæma í málinu eftir örfáa daga.
Hvers vegna núna?
Marinó bendir á að auk þess að til
viðbótar við hærri vexti (hefðbundn-
ir vextir af myntkörfulánum eru 4 til
5 prósent) sé SP að hirða þá gengis-
styrkingu sem kann að verða. Styrk-
ist krónan komi það lántakendunum
ekki til góða. „Bæði „tilboð“ SP-Fjár-
mögnunar og frumvarp félagsmála-
ráðherra (miðað við það sem ráð-
herra hefur sjálfur sagt um það) eru
ámátlegar tilraunir til að festa eigna-
upptökuna og forsendubrestinn,“
skrifar Marinó.
Hann segir margt óljóst í útspili
SP: „Hvers vegna kemur SP-Fjár-
mögnun með þetta tilboð núna, þeg-
ar liggur fyrir að Hæstiréttur mun
taka fyrir mál vegna lögmæti geng-
istryggingarinnar 2. júní næst kom-
andi og félagsmálaráðherra er til-
búinn með frumvarp sama efnis?
Hverjar eru viðmiðunardagsetning-
arnar sem notaðar eru til að finna út
hve mikil lækkun höfuðstóls hvers
láns fyrir sig er?“ spyr hann og vill
einnig vita hvort þeir sem þegar hafa
misst bíla sína vegna vörslusviptinga
njóti lækkunarinnar afturvirkt. „Ég
hefði viljað sjá í yfirlýsingu fyrirtæk-
isins, að það bætti öllum viðskipta-
vinum sínum sem gengið hefur ver-
ið að og verið sviptir bílum sínum,
þann skaða sem það hefur valdið
þeim,“ segir Marinó.
bALDuR GuðMuNDSSoN
blaðamaður skrifar: baldur@dv.is
SvoNA býðuR SP-fjáRMöGNuN
- 2 milljón króna lán í frönkum og jenum tekið í mars 2008.
upphaflegt
lán 2.000.000
áætluð staða
4.100.000
Staða eftir
breytingu*
3.000.000
*Miðað við 28%
meðalafskrift.
Upphæðirnar eru
námundaðar.
Lækka lánin SP býður lækkun höfuðstóls myntkörfulána þó lagasetning ráðherra og dómur Hæstaréttar um lögmæti gengis-
tryggingar sé yfirvofandi.
Ósáttur Marinó hjá Hagsmunasamtök-
um heimilanna gefur lítið fyrir úrræði
SP-Fjármögnunar.
Hvers vegna kemur SP-fjár-
mögnun með þetta til-
boð núna?