Dagblaðið Vísir - DV - 23.07.2010, Qupperneq 41
föstudagur 23. júlí 2010 úttekt 41
Á undanförnum árum hafa Íslend-
ingar verið duglegir að ferðast um
landið. En eins íðilfögur og náttúra
landsins er, getur hún líka reynst
stórhættuleg. DV ræddi við tvo menn
sem eru fróðir um þessi mál, Skúla
Möller, formann Félags leiðsögu-
manna, og Stefán Helga Valsson,
ferðamálafræðing og fyrirlesara um
ferðamál.
Að sögn Stefáns eru flestir þeirra
sem slasast erlendir ferðamenn, sem
þekkja ekki til náttúrunnar hér á
landi, þó Íslendingar séu ekki und-
anskildir. Hann segir að öryggismál-
um sé ábótavant á mörgum vinsæl-
um ferðamannastöðum á Íslandi og
nefnir sérstaklega Gullfoss og Geysi.
Skúli segir gert sé ráð fyrir að fólk
sýni heilbrigða skynsemi, sem sé því
ekki alltaf raunin.
Jöklasvæðin
Að halda upp á jökul án leiðsögu-
manns er ávallt varhugavert. Þó að
jöklar séu hvað hættulegastir á vet-
urna, þegar þunnt lag af snjó hylur
sprungur og gljúfur, geta slysin orðið
að sumri til líka. Stefán nefnir að stutt
sé síðan tveir ungir Þjóðverjar héldu
upp Vatnajökul, einir síns liðs árið
2007. Þeir villtust, en fundust aldrei
þrátt fyrir ítarlega leit.
Hann var einnig viðstaddur sjálf-
ur, þegar hræðilegt slys bar að um
sumar. Það var árið 2000 í vélsleða-
ferð fjörutíu farþega af skemmti-
ferðaskipi upp á Langjökul. Einn
vélsleði, sem tveir ferðamenn voru
á, keyrði á lítt sýnilegan sprungu-
kant. Við það kom högg á sleðann
og þá hentust þau af sleðanum og
ofan í sprunguna, en sleðinn sjálf-
ur var of stór til að fara sömu leið.
Annar þeirra lét lífið í þessum harm-
leik. Það er því full ástæða til að vara
sig uppi á jöklum landsins, bæði að
sumri til og vetri.
Reynisfjara, Mýrdal
Einn fallegasti staður landsins er
einnig með þeim hættulegustu. Fjar-
an sem liggur með Reynisdröng-
um er fjölsóttur ferðamannastaður.
En sjórinn er ekkert lamb að leika
sér við, sérstaklega ekki við Reynis-
fjöru. Öldurnar þar eru oft kraftmikl-
ar og gera ekki alltaf boð á undan sér.
Óvarkár ferðalangur getur sogast út
á sjó með einni slíkri öldu. Af grynn-
ingunum tekur skyndilega við mikið
dýpi, og þegar brimið er sterkt getur
fólk auðveldlega drukknað er aldan
dregur það á haf út.
Seinast dó ferðalangur þarna árið
2007, en eftir það var sett upp við-
vörunarskilti vegna öldugangsins.
Stefán nefnir að oftast þegar menn
lendi í öldunum, þá séu þeir að fylgj-
ast með einhverju allt öðru. „Fólk er
kannski að dást að stuðlaberginu og
snýr baki í sjóinn, en svo allt í einu
dynur alda aftan á þeim og skellir
þeim á magann.“ Hann bætir við að
þá sé oft erfitt að fóta sig aftur í laus-
um sandinum. „Björgunarhringur er
á staðnum, en það eru um 100 metr-
ar í hann frá ströndinni, það gæti því
verið svolítið langt að ná í hann.“
Geysir og Strokkur, Haukadal
Hættan við Geysi ætti ekki að fara
framhjá neinum, hann gýs heitu
vatni hátt upp í loftið, og því ekki
hyggilegt að baða sig í honum. Þessu
gerði einn hópur ferðamanna sér
ekki grein fyrir og skellti sér í fótabað.
En það var mikil mildi að leiðsögu-
maður var nálægt, og varaði fólkið
við í tíma, rétt áður en hverinn gaus.
Það má því ekki vanmeta Geysi þótt
að hann sé stundum óvirkur.
Strokkur er þó öllu hættulegri
þeirra bræðra. Vatnið í honum er í
kringum 90 gráður á eins metra dýpi
og því er hætta á miklum bruna ef
einhver hættir sér of nærri. Einhverj-
ir hafa brennst á árum áður að sögn
Skúla, en það er þó raunin að fólk
virðist halda sig frá þessum vatns-
spúandi risum að jafnaði.
Gullfoss, Árnessýslu
Hjá Gullfossi eru strengd reipi sem
þjóna tilgangi girðingar. Það er auð-
velt að komast yfir þau, og margir
gera það til þess að komast nær foss-
inum. Nokkuð er um að fólk setjist á
þetta reipi, og þá er hætta á að ein-
hver falli aftur fyrir sig, í urðina fyr-
ir neðan. Við efri útsýnispallinn hafa
þeir frökkustu farið yfir reipið og
þaðan er fallið fremur hátt.
Stígurinn sem liggur niður að
fossinum er hættulegastur á veturna.
Þegar frystir verður þessi stígur eins
og skautasvell, og fólk getur runnið
niður og slasast. „Svæðið er lýsandi
dæmi um hversu skammt á veg
skipulag í ferðaþjónustu á Íslandi er
komið,“ segir Stefán.
Umhverfisstofnun tók upp á því í
vetur að loka þessum stíg með keðju,
vegna slysahættunnar. Það stöðvar
þó ekki ákafa ferðalanga sem hafa
ferðast langan veg til þess að berja
Gullfoss augum. Á sumrin er þó ekki
teljandi hætta fylgjandi því að fara
niður þennan stíg.
Seljalandsfoss
Helsta hættan við Seljalandsfoss
eru þrepin og stígar sem liggja á bak
við fossinn. Auglýst er í ferðalýsing-
um fyrir erlenda hópa að hægt sé að
ganga á bak við fossinn, en ástand
stígsins er slíkt að einungis þeir sem
eru fótafimir geta gengið þar. Sá stíg-
ur er ekki fyrir alla og fólk getur auð-
veldlega misstigið sig og brotnað.
Bæði Skúli og Stefán eru sammála
því að þessi stígur sé í niðurníðslu
og ekki til fyrimyndar. Lítið fjármagn
þarf til þess að laga hann, en ekkert
sé þó aðhafst í þessum málum. Skúli
gagnrýnir enn fremur að á meðan
hundruð milljóna sé eytt í auglýs-
ingaherferð fyrir landið, sé litlu sem
engu eytt í viðhald á ferðamanna-
stöðum landsins.
Hverasvæðin –„Lukkan fylgir
okkur fast og heilagt.“
Hverasvæðin á Íslandi eru almennt
mjög aðgengileg, sem getur valdið al-
varlegum slysum. Deildartunguhver í
Borgarfirði er til dæmis að jafnaði um
99 gráðu heitur. Grindverkið sem að-
skilur göngustíginn frá hvernum er
einungis í um hnéhæð og því er auð-
velt að komast nærri hvernum.
Líkt og með önnur grindverk á
fólk það til að setjast á það, sem get-
ur reynst hættulegt. Enn fremur hef-
ur verið mikið um það að ferðamenn
einfaldlega fari yfir það, og séu stíg-
andi nálægt hvernum, sem býður
svo sannarlega hættunni heim. Sér-
staklega þarf að huga að börnum hjá
hverum landsins.
Skúli Möller segir fólk almennt
sjá hættuna og varast hana í kringum
hveri á Íslandi. En lítið sé um grind-
verk og slíkt í kringum hverina, og
stundum séu ferðamenn að hætta sér
full nærri þeim. Hann nefnir dæmi af
Hveravöllum, en þar er fjöldi hvera
sem ekkert grindverk er í kring um.
Hann segist ekki hafa heyrt um að fólk
hafi brennst þar nýlega, en það sé ekki
vegna öryggisráðstafana á svæðinu.
„Ég veit ekki um nein slys sem hafa
orðið á árinu, en það er bara heppni.
Lukkan fylgir okkur fast og heilagt.“
segir Skúli. simon@dv.is
Náttúran er fögur og stórhættuleg í senn. Eftir hrunið hafa Íslendingar verið duglegir við að ferðast um
landið, en hættan leynist þó á ýmsum stöðum. DV kannaði hættuna sem getur leynst víða um landið, þar
sem öryggismálum er ábótavant og fær álit valinkunnra manna.
Hætturnar leynast víða
Reynisfjara Öldurnar við hina fögru
Reynisfjöru geta reynst ferðamanni banvænar,
ef varkárni er ekki höfð í fyrirrúmi.
Strokkur Strokkur gýs brenn-
andi heitu vatni upp í allt að 50
metra hæð.
Gullfoss í vetrarham. Ekkert grind-
verk er að finna á efri útsýnissyllunni við
Gullfoss, aðeins reipi í kálfahæð.
Fólk er kannski að dást að
stuðlaberginu, en svo
allt í einu skellir alda
þeim á magann.