Dagblaðið Vísir - DV - 25.10.2010, Blaðsíða 3
mánudagur 25. október 2010 fréttir 3
af stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á
stöðu kynjanna og niðurstaðan er alls
staðar sú sama, niðurskurður í opin-
bera geiranum sem bitnar helst á kon-
um því þær eru þar í meirihluta. Ég
fékk því alveg í magann yfir fréttunum
um þennan mikla niðurskurð sem á
að fara í á heilbrigðisþjónustunni úti
á landi, þetta lendir sérlega illa á kon-
um. Þá ekki bara á þeim sem launþeg-
um heldur vaknar einnig spurningin
um hver mun koma til með að sjá um
þetta veika fólk sem nú fær minni að-
gang að heilbrigðisþjónustu? Líkurn-
ar eru þær að það verði konur í ólaun-
uðu starfi. Ég sá þetta einmitt svo skýrt
í starfi mínu fyrir UNIFEM.“
Karlar mæta fordómum
Þóranna: „Hefðbundin kvennastörf
hafa aldrei þótt jafn merkileg og karla-
störf. Það hefur ekkert breyst þrátt fyr-
ir að konur hafi farið í vaxandi mæli
inn í karlageirann. Okkur hefur ekki
tekist að breyta þessu. Líklega vegna
þess að karlar hafa ekki farið í sama
mæli inn í kvennastörfin. Þá mynd-
um við kannski ná jafnrétti. Því mið-
ur er það svo að þeir fáu karlar sem
velja að gerast hjúkrunarfræðingar
eða leikskólakennarar mæta fordóm-
um og þurfa gjarnan að svara fyrir val
sitt sem þykir metnaðarlaust. Sam-
félagið er með ótrúlega djúpstæðar
hugmyndir og væntingar um hvaða
náms- eða starfsval hæfir eða hæfir
ekki hvoru kyni fyrir sig.“
Hildur Fjóla: „Strákum hefur ekki
tekist að finna út úr því hvernig hægt
er að gera þetta töff. En það er ekki
hægt að gera það fyrir þá. Þeir þurfa að
finna út úr því sjálfir hvernig hægt er
að brjótast út úr þessu mynstri. Okk-
ur tókst að gera það þegar konur fóru
í karlastörf.“
Hlín: „Það er samt þannig að þær
konur sem eru núna og hafa verið í
karlastörfum og hafa verið í stjórn-
málum hegða sér eins og karlar. Þær
hafa því ekki skapað svigrúm eða rutt
brautina fyrir fleiri konur. Hvernig
breytum við þessu? Konur þurfa að
tala saman. Við þurfum að tala við
aðrar konur. Við þurfum líka að tala
við karla og þeir þurfa líka að tala sam-
an. Af því að það græða allir á jafnrétti
og á meðan það er ekki pláss fyrir alla
eru allir að tapa.“
Mýtan um ákvarðanafælni
Fífa: „Ég held að við sem sitjum hér
séum allar frekar miklar forréttinda-
píur. Við höfum menntað okkur og
fengið tækifæri í lífinu. Erum fædd-
ar á þessum tíma og á þessum stað í
heiminum. Fjölmargar konur hafa
aldrei fengið sömu tækifæri. Margir
hafa gagnrýnt kvennabaráttuna fyrir
að vera yfirstéttarbarátta sem ég held
að sé ekki rétt. En ég held það sé mjög
hollt fyrir alla að skoða sína forrétt-
indastöðu og gera sér grein fyrir því
hvaða valdakerfi viðhalda henni.“
Hlín: „Staða þessara kvenna var
einmitt drifkraftur kvennabaráttunn-
ar í upphafi. Við megum ekki gleyma
því.“
Hildur Fjóla: „Var það ekki þannig
að þegar Kvennalistanum gafst færi
á að mynda ríkisstjórn varð ekkert úr
því vegna þess að kvennalistakon-
ur neituðu að láta af þeirri kröfu að
lægstu laun kvenna yrðu hækkuð?
Þá varð til þessi misskilningur um að
konur gætu ekki stjórnað því þær gætu
ekki tekið erfiðar ákvarðanir og borið
ábyrgð. Hvað var þetta annað en að
bera ábyrgð? En þessi mýta hefur ver-
ið ansi lífseig síðan.“
Hlín: „Þetta var synd. Því eft-
ir stendur að við þurftum á þessari
reynslu að halda. Þetta varð líka til
þess að það kom ákveðið bakslag í
jafnréttisbaráttuna. Við vorum lengi
að ná okkur upp úr því.“
Áhyggjuleysi valdamanna
áhyggjuefni
Fífa: „En það sem mér finnst alvar-
legast og í raun versta meinið er þetta
kynferðislega ofbeldi sem grasserar
hér á landi. Þriðja hver kona verður
fyrir kynferðisofbeldi. Við höfum ann-
að hvort orðið fyrir því sjálfar eða ein-
hver sem stendur okkur nærri. Það er
ótrúlegt og það er óhugnanlegt hversu
fáum er refsað fyrir það. Við búum
ekki í réttarríki. Konum er ekki óhætt
á Íslandi í dag. Þegar þær verða fyr-
ir kynferðisofbeldi er þeim ekki trú-
að og það er gert lítið úr þeim. Eins
og ríkissaksóknari gerði um daginn.
Þegar yfirmaður kynferðisbrotadeild-
ar lögreglunnar viðhafði svipuð um-
mæli varð allt vitlaust. Lögreglustjóri
og dómsmálaráðherra höfðu afskipti
af málinu og maðurinn var færður til
í starfi. Það voru allir að tala um þetta,
alls staðar. En ríkissaksóknari situr
enn í sínu embætti og þegar dóms-
málaráðherra tók hann á teppið urðu
þessir kallar rosahissa. Því var mót-
mælt að dómsmálaráðherra hefði tal-
að við hann en þeim datt ekki í hug að
gagnrýna ummælin.“
Hildur Fjóla: „Það er staðreynd að
þolendur kynferðisofbeldis njóta ekki
réttarverndar og mér finnst svo al-
varlegt hve litlar áhyggjur valdamenn
virðast hafa af því. Af hverju er ekki allt
kerfið upptekið af því að finna leið-
ir til að tryggja þeim sem beittir eru
kynferðisofbeldi réttarvernd? Að sjálf-
sögðu er mikilvægt að saklausir menn
séu ekki fundnir sekir en í réttarríki
hlýtur það einnig að vera mikilvægt
að finna seka menn seka og koma
mögulega í veg fyrir frekara ofbeldi. Af
hverju er það ekki skandall að réttar-
kerfið ráði ekki við langflest kynferðis-
afbrotamál?“
Fagnaði orðum ríkissaksóknara
Þóranna: „Ég var svo hissa því flestir
vita hvað er pólitískt rétt að segja og
tala út frá því. Hann kom aftur á móti
hreint fram og afhjúpaði sínar raun-
verulegu skoðanir. Við ættum að fagna
því að fá þær upp á yfirborðið. Því að
fyrir hvern mann sem talar svona eru
aðrir hundrað sem að hugsa svona, en
myndu aldrei viðurkenna það opin-
berlega. Þannig að það var mikill sigur
að afhjúpa þetta, fannst mér.“
Fífa: „Ég var nefnilega svo hissa að
hann hafði ekki betri þekkingu á kyn-
ferðisofbeldi að hann áttaði sig ekki
á því hvað hann var að segja. Hann
skorti þekkingu til þess að geta verið
pólitískt rétthugsandi. Hann gat ekki
einu sinni feikað það.“
Hildur Fjóla: „Það skiptir máli að
konur sem leita réttar síns séu teknar
alvarlega og að það sé tekið á þessum
brotum. Það skiptir ekki bara máli fyr-
ir þær heldur fyrir okkur sem samfé-
lag. Að ofbeldi sé viðurkennt og það
sé tekin afstaða gegn því. Það sé ekki
liðið.“
Ástæðan fyrir ofbeldi
og launamun
Þóranna: „Það skiptir samt mestu
máli að átta sig á því að það er þetta
almenna viðhorf um að það sem kon-
ur eru og gera þykir ekki jafn merkilegt
og það sem karlar eru og gera. Það er
ástæðan fyrir því að ofbeldi gegn kon-
um líðst. Við þurfum að einbeita okk-
ur að kjarnanum.
Að mörgu leyti höfum við það
reyndar fínt á Íslandi, og í nýlegri
skýrslu World Economic Forum
erum við í efsta sæti á lista sem met-
ur lönd út frá jafnrétti. Atvinnuþátt-
taka kvenna er há, menntun mikil,
foreldraorlof og dagvistunarúrræði
að mörgu leyti til fyrirmyndar en það
hefur ekki skilað sér í raunverulegum
völdum og viðhorfsbreytingum.
Á meðan þetta er svona verður
launamunur alltaf til staðar og sömu-
leiðis kynferðislegt ofbeldi. Okkur
finnst eðlilegt að konur séu lægra sett-
ar en karlar. Að þeir séu ráðandi. Þeir
hafa valdið og þegar þeir beita valdi
sínu gegn konu yppir fólk öxlum. Segir
kannski: „Æ, en leiðinlegt. Við skulum
vona að þetta gerist ekki aftur.“ Síð-
an er málið dautt. Ef við samþykkjum
launamun kynjanna samþykkjum við
að konur séu ekki metnar til jafns á
við karla. Á meðan verður valdastað-
an svona.“
Andleg samkynhneigð
Þóranna: „Ég var á ráðstefnu á Bif-
röst þar sem ein kom með ansi fleyga
kenningu um að konur væru andlega
gangkynhneigðar en að karlar væru
andlega samkynhneigðir. Því færi
allur stuðningur alltaf til karla. Þess
vegna skiptir svo miklu máli að við
færum valdið til kvenna. Að við sem
konur styðjum aðrar konur. Að karlar
séu tilbúnir til að styðja við hugarfars-
breytingu því það er hagsmunamál
alls samfélagsins að bæði kynin njóti
virðingar og tækifæra. Að við beinum
viðskiptum til kvenna og sýnum hug
okkar í verki.“
Fífa: „Ég er ósammála því að við
eigum að pæla mikið í einstaklings-
framtakinu, eins og þú varst að tala
um áðan Þóranna. Auðvitað eigum
við ekkert að versla við einhver við-
bjóðsfyrirtæki en á meðan við ein-
blínum alltaf á einstaklingsframtak-
ið er hætt við því að missum sjónar á
heildarmyndinnni. Þá breytist ekk-
ert. Því við munum aldrei breyta
þessu valdakerfi nema með rót-
tækum aðgerðum. Við verðum að
breyta kerfinu.“
Þóranna: „Það er rétt. Þetta
minnir mig á vin minn sem keypti
sér rafmagnsbíl fyrir nokkrum
árum. Skömmu síðar var ákveð-
ið að fara í risastórar virkjanafram-
kvæmdir. Mér leið eins og það væri
verið að gera persónulegt grín að
honum.“
Búrka vestrænna kvenna
Hildur Fjóla: „Fjölmiðlar gegna líka
mikilvægu hlutverki.“
Fífa: „Ég man alltaf eftir einu at-
riði úr írönsku teiknimyndasögunni
Persepolis. Lásuð þið hana?“
Hildur Fjóla: „Já, allavega brot af
henni.“
Fífa: „Í þessu atriði sem gerðist
rétt eftir byltinguna 1979 var hún að
hlaupa á eftir strætó en var stoppuð
af. Hún mátti ekki hlaupa af því að
þá væri rassinn á henni of sexí. Og
svo segir hún eitthvað á þá leið að
með því að láta konur hafa stöðug-
ar áhyggjur af því að sjáist í hár eða
ökla sé komið í veg fyrir að þær hugsi
til dæmis um pólitík. Mér verður oft
hugsað til þess þegar ég les blöðin
hérna. Í hverju einasta dagblaði eru
birtar niðrandi fréttir um útlit ein-
hverra kvenna í útlöndum. Hvernig
eigum við ekki að bera okkur saman
við þetta? Enda fara konur helst ekki
út nema með vel greitt hár og vel til
hafðar.“
Þóranna: „Þetta er í raun af sama
meiði og þegar konur mega ekki
sýna sig í arabaríkjunum.“
Hildur Fjóla: „Já, með höfuð-
klútnum gengur konum betur að
aðhafast í samfélaginu því þá ögra
þær ekki ríkjandi hugmyndum um
kvenleikann. Hér á Vesturlöndum
senda meikið og merkjavörurnar
kannski svipuð skilaboð.“
Þóranna: „Búrka vestrænna
kvenna. Já, það má segja það.“
Að lokum berst talið að kvenna-
frídeginum árið 1975. Þá flaug Hlín
norður til að blása konum á lands-
byggðinni baráttuandanum í brjóst.
Þóranna rifjar það einnig upp þegar
hún fór sem lítil stelpa í strætó með
móður sinni niður í bæ til þess að
taka þátt í mótmælunum. Var þetta
ógleymanlegt ævintýri. Hildur Fjóla
var aftur á móti bara kornabarn í
barnavagni en Fífa var ekki fædd.
Hún fæddist ekki fyrr en árið sem
Vigdís komst til valda. En í hópn-
um ríkir eftirvænting og tilhlökk-
un vegna þess sem koma skal í dag.
Með þessum orðum kveðja þær,
baráttuglaðar og kátar.
„Konur eru þernur Karla“
Hún mátti ekki hlaupa af því að
þá væri rassinn á henni
of sexí. Og svo segir hún
eitthvað á þá leið að
með því að láta konur
hafa stöðugar áhyggjur
af því að sjáist í hár eða
ökla sé komið í veg fyrir
að þær hugsi til dæmis
um pólitík.
Þóranna Jónsdóttir Segir að
niðurlægjandi umræður um
útlit kvenna í fjölmiðlum séu í
raun búrka vestrænna kvenna.
Auður Alfífa Ketilsdóttir
Segir að kvennabaráttan sé
ekki yfirstéttarbarátta heldur
barátta fyrir þær konur sem
hafa lægstu launin í samfé-
laginu og fæst tækifæri.