Dagblaðið Vísir - DV - 18.03.2011, Qupperneq 16
„Ég var mjög slegin þegar ég fékk
þessar fréttir og mér finnst mjög
miður að geta ekki haldið þessu starfi
áfram,“ segir Oddrún Kristjánsdótt-
ir, stjórnarformaður kvennadeild-
ar Reykjavíkurdeildar Rauða kross
Íslands, í samtali við DV. Tveimur
bókasöfnum, sem starfrækt voru á
Landspítalanum í Fossvogi og við
Hringbraut, var lokað í febrúar. Söfn-
in höfðu verið starfrækt í meira en 40
ár, eða frá árinu 1968. Lögum sam-
kvæmt ber sjúkrahúsum að starf-
rækja bókasöfn.
Að sögn Oddrúnar var ástæðan
sem gefin var upp fyrir lokuninni
sýkingarhætta auk þess sem fram
hefði komið að sjúklingar dveldu nú
skemur á spítalanum en áður. Boðað
var til fundar í lok janúar og veittur
mánaðarfrestur til að fjarlægja bæk-
urnar. Það hafi verið mjög knappur
tími en með hjálp starfsfólks spítal-
ans hafi tekist að rýma bókasöfnin.
Hún kann þeim sem lögðu hönd á
plóginn miklar þakkir fyrir.
Þúsundir fengu lánaðar bækur
Sjálfboðaliðar á vegum Rauða kross-
ins sáu alfarið um rekstur safnsins og
sjúklingar voru að sögn Oddrúnar
afar duglegir að nýta sér þessa þjón-
ustu. Þannig voru nærri 5.700 bækur
(hefðbundnar bækur og hljóðbæk-
ur) lánaðar út í fyrra á þeim tveim-
ur söfnum sem nú hefur verið lok-
að. Nærri þrjú þúsund sjúklingar
fengu lánaðar bækur í fyrra. „Þeir
sem gátu lesið eða hlustað og fengu
bækur voru mjög ánægðir með þjón-
ustuna og sýndu okkur ávallt mikið
þakklæti,“ segir hún og bætir við að
gott úrval bóka, bæði nýjar bækur og
eldri, hafi verið á söfnunum.
Kvennadeild Reykjavíkurdeildar
Rauða krossins er nú með bóka-
söfn á þremur stöðum; á Grensás-
deild Landspítalans, Landakoti og
á Sjúkrahóteli Rauða krossins. Hún
segir að nú skapist ef til vill svigrúm
til að opna söfn þar sem þörf sé fyr-
ir slíka þjónustu. „Sjúklingarnir eru
mjög leiðir og starfsfólkið líka því
þetta hefur verið dægrastytting fyrir
marga. Nú er bara að bíta á jaxlinn og
sjá hvort þörfin sé víðar,“ segir hún.
Segja spítalann brjóta lög
Upplýsing, félag bókasafns- og upp-
lýsingafræða, sendi af þessu tilefni
Katrínu Jakobsdóttur menntamála-
ráðherra bréf. Þar segir að sú skýr-
ing yfirmanns Landspítalans á lok-
uninni, að bækur eigi verulegan þátt
í að bera smit á milli einstaklinga,
sé hæpin. Þá bendir Hrafnhildur
Hreinsdóttir, fyrir hönd Upplýsingar,
á að spítalinn brjóti lög með þessum
aðgerðum. „Lög nr. 36/1997 um al-
menningsbókasöfn ná yfir bókasöfn
í sjúkrahúsum, dvalarheimilum aldr-
aðra og fleiri stofnunum sem er gert
að skyldu að annast rekstur þeirra.
Þegar slíkt safn er lagt niður þá er
það í rauninni brot á fyrrnefndri lög-
gjöf,“ segir meðal annars í bréfinu
en þar er einnig rakið hve víða hafi
verið vegið að bókasöfnum og þjón-
ustu þeirra við almenning í landinu.
Skert aðgengi að bókasöfnum gangi
í berhögg við upplýsingastefnu ríkis-
stjórnarinnar þar sem segir að upp-
lýsingalög verði endurskoðuð og að-
gengi almennings og fjölmiðla að
upplýsingum aukið. Félagið hvet-
ur menntamálaráðherra til að taka
strax í taumana og „enn fremur leita
skýringa yfirmanns Landspítalans
á fyrirvaralausri lokun sjúkrabóka-
safnanna sem gengur þvert á lög um
almenningssöfn.“ Ráðherra hefur
ekki svarað bréfinu.
Hlutverkið að tryggja öryggi
sjúklinga
Björn Zoëga, forstjóri Landspít-
alans, segir ástæðu þess að söfn-
unum hafi verið lokað megi rekja
til þeirra breytinga sem orðið hafi
í samfélaginu, fólk liggi nú skem-
ur á sjúkrahúsum og flestir séu
það veikir að þeir hafi hvorki þörf
né getu til að grípa í bók nema að
litlu leyti. Yngra fólk noti auk þess
í auknum mæli aðra afþreyingu
en bækur meðan á sjúkrahúslegu
standi. Spurður um þær skýring-
ar að bókum fylgi smithætta seg-
ir Björn að það sé alls ekki aðal-
ástæðan, þó vissulega sé það eitt af
því sem geti gerst. „Það er erfitt að
staðfesta það en hlutverk okkar er
að tryggja öryggi og við reynum að
draga úr sjúkrahússýkingum eins
og kostur er,“ segir Björn.
Spurður hvort spítalinn sé með
þessum lokunum að brjóta lög, þar
sem spítölum beri að starfrækja
bókasafn, segir Björn að spítalinn
reki bókasafn fyrir starfsmenn við
Eiríksgötu. Ekkert safn sé fyrir sjúk-
linga en þeir gætu mögulega fengið
aðstöðu við Eiríksgötu ef þörf krefði.
„Við munum aldrei brjóta lög. Ef við
þurfum að gera samning við ein-
hverja aðila eða eitthvað annað til
að uppfylla skilyrði laganna þá ger-
um við það. Það er verið að skoða
þessi mál,“ segir hann en tekur fram
að kvennadeild Reykjavíkurdeildar
Rauða krossins hafi unnið frábært
starf með rekstri safnanna á spítal-
anum.
16 | Fréttir 18.–20. mars 2011 Helgarblað
Á s k r i f t
í síma 578-4800
og á w w w.rit.is
Tryggðu þér eintak
á næsta blaðsölustað
Bækur teknar
af sjúklingum
n Bókasöfnum Landspítalans lokað eftir 40 ára sjálfboðastarf Rauða krossins
n Þrjú þúsund sjúklingar nýttu sér þjónustuna í fyrra n Spítalinn brýtur lög með
lokunum að mati Upplýsingar n Við munum aldrei brjóta lög, segir forstjórinn
Baldur Guðmundsson
blaðamaður skrifar baldur@dv.is
„Bækurnar bjarga lífi manns“
Anna Kristine Magnúsdóttir blaðamaður hefur mikla reynslu
af því að fá bækur til aflestrar á Landspítalanum. Hún segir
að lokunin sé í hennar huga fráleit ráðstöfun. „Þetta er
skandall – bækurnar bjarga lífi manns þegar maður þarf að
vera langdvölum á sjúkrahúsum,“ segir hún. Anna bendir á að
sjúkrahúsvist beri oft að með litlum eða engum fyrirvara og
því gefist fólki ekki alltaf tækifæri til að hafa með sér bækur
eða aðra afþreyingu. Þá eigi ekki allir ættingja eða vini sem
geti komið til þeirra lesefni. Hún segir enn fremur að Rauða
kross-konurnar séu yndislegar og hafi oft stytt henni stundir
með heimsóknum utan heimsóknartíma. Hjá þeim hafi hún
komist í bækur sem hún fái ekki annars staðar. „Það er svo
yndislegt þegar þær koma til manns með bókavagninn,“ segir Anna sem harmar að
söfnunum hafi verið lokað.
Hrafnhildur Hreinsdóttir Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, hefur sent
ráðherra bréf vegna málsins.
Engar bækur fyrir
sjúka Eftir fjörutíu ára
starfsemi kvennadeilar
Rauða krossins hefur
bókasöfnum á Landspít-
alanum nú verið lokað.
mynd SigtRyggUR aRi jóHannSSon