Dagblaðið Vísir - DV - 18.05.2012, Qupperneq 38
38 Viðtal 18.–20. maí 2012 Helgarblað
vini mínum Friðþjófi Helgasyni. Það
er til allt þetta ómetanlega efni sem
aldrei verður hægt að taka aftur og ég
þarf bara að klára að skrifa handritið.
Ég bara bið guð um að gefa mér tíma
til að skrifa þetta handrit og skilja
þetta eftir og þá verð ég rólegri.“
Ómar telur þó að önnur verkefni
sem hann er með í pípunum þar sem
hann er að reyna að forða öðrum
svæðum frá því að verða sömu ör-
lögum að bráð séu mikilvægari þessa
stundina. „En ég veit hins vegar að
þegar fólk sér hvað það gerði við
þetta svæði þá mun það hugsanlega
fara varlega úr því það fór svona fyrir
svæðinu og við vissum það aldrei til
fulls, eða forðuðumst að vita það.“
Í tímahraki með tónlistina
En það eru ekki einungis kvikmyndir
sem Ómar er að dunda sér við, hann
er kominn með mikið efni í ljós-
myndabækur og telur líklegt að
ljósmyndabók verði það næsta sem
komi frá honum. Þá er hann alltaf að
semja ný lög og texta, en það liggur
betur fyrir honum en flestum öðrum.
„Nú þarf ég að fara að velja því
ég er alltaf að gera nýja texta og ný
lög. Ég hefði átt að athuga miklu fyrr
hvernig ég eyði tíma í þetta því svo
mikið af því fer forgörðum af því ég
hirði lítið um að geyma þetta. Og
núna er ég allt í einu kominn á þann
punkt að þegar ég hugsa að ég ætli að
eyða tíma í nýtt lag hvort tímanum
væri ekki betur varið í að finna tvö
gömul sem annars glatast. Nú stend
ég frammi fyrir þessu á hverjum degi.
Þannig þetta er eitt af því sem ég er
í tímahraki með. Það er að reyna að
safna saman allri þessari tónlist, allt
að tvöþúsund lögum og textum, og
ákveða hvort ég endurlífga eitthvað
eða læt það drepast og bý til eitt-
hvað nýtt. Ég verða að gera einhverja
blöndu því mér finnst svo gaman að
gera nýja texta ef tími vinnst til.“
Aldrei auglýst, nema fyrir DAS
Fyrst talið hefur borist að laga- og
textasmíð Ómars þá leikur blaða-
manni forvitni á að vita hvernig hafi
verið að leika í auglýsingu fyrir happ-
drætti DAS þar sem hann stýrir fríð-
um flokki eldri borgara í söng lagsins
Lax, lax, lax, en textanum hefur verið
breytt í DAS, DAS, DAS.
Þetta nýjasta verkefni Ómars vek-
ur athygli fyrir þær sakir að um er
að ræða fyrsta skipti á löngum ferli
hans sem hann leikur í auglýsingu.
Hann tók þá ákvörðun sem ung-
ur skemmtikraftur á ferð um landið
að taka ekki þátt í auglýsingagerð,
nema ef um líknarmálefni væri að
ræða. Það varð svo prinsipp hjá hon-
um og þegar hann keppti í rallinu á
sínum tíma reyndu hann og bróðir
hans eins og þeir gátu að sleppa því
að vera með auglýsingar á bílnum.
Þeir fengu þó litlu um það ráðið og
neyddust að lokum til að hafa aug-
lýsingar á bílnum.
„Þegar ég var ungur var ég mik-
ill hugsjónamaður eins og ungt fólk
á að vera. Ég áttaði mig á því að það
væru takmörk fyrir því hvað maður
ætti að ganga langt í að afla sér pen-
inga, eða hvernig. Þótt ég færi að
auglýsa vöru sem ég væri ánægður
með sjálfur myndi ég samt lenda í
ógöngum.
Það er ástæðan fyrir því að ég hef
aldrei auglýst bílmerki eða nokkurn
skapaðan hlut. Hef bara hjálpað til
við safnanir og skemmtanir. Loksins
núna, 54 árum seinna, þá kemur allt
í einu DAS og af því ég gerði textann
við Lax, lax, lax þá báðu þeir mig um
að gera þetta.“
Hann sagði forsvarsmönnum
DAS frá prinsippinu sínu en sam-
þykkti að taka þátt í auglýsingunni
því um væri að ræða gott málefni.
„Það er búið að vera mjög gam-
an að þessu. Blessað fólkið sem var
þarna þurfti að syngja þetta upp
undir 100 sinnum í sjö klukkutíma.
Allt þetta gamla fólk, það afrekaði að
gera þetta með sama kraftinum og
sömu ánægjunni allan tímann. Það
var rosalega mikið fjör enda var mað-
ur kominn mjög langt út á tún undir
lokin við að halda þeim við efnið,“
segir Ómar og rekur upp roknahlát-
urinn sem er einkennandi fyrir hann.
„Héðan af tekur því ekki fyrir mig að
brjóta þetta prinsipp,“ bætir hann við
og hlær ennþá meira.
Stjórnlagaráð stofnaði
hljómsveit
Prinsippmaðurinn Ómar er líka
pólitískur, en ásamt íslenskri landa-
fræði þá hafa stjórnmál verið hon-
um hugleikin frá blautu barnsbeini.
Hann hefur verið formaður Íslands-
hreyfingarinnar og einn fulltrúa í
stjórnlagaráði sem vann að frum-
varpi um endurbætta stjórnarskrá.
Hann segir það starf skemmtilegustu
félagsvinnu sem hann hefur unnið
og er mjög sáttur við útkomuna.
„Það sem var svo gott við þetta
var að það var útilokað að við hefð-
um getað gert þetta nema af því við
vorum með önnur vinnubrögð en
hafa því miður tíðkast oftast í svona
starfi á Íslandi.“ Hann segir stjórn-
lagaráðsfulltrúana hafa stundað svo-
kölluð „samhjálpar- eða samvinnu-
stjórnmál“.
„Í stað þess að reyna að eyðileggja
hvert fyrir öðru þá vorum við að
endur bæta rök hvert annars. Þetta er
afar gefandi hugsun.“
Ómar segir mikla stemningu
hafa myndast í hópnum. „Við sung-
um á öllum fundum og vorum með
skemmtanir fyrir okkur sjálf og
bjuggum til hljómsveit. Þetta var svo
mikið kynslóðabil sem var brúað
að einn fulltrúinn fæddist í miðjum
klíðum og við vorum því í raun 26
í lokin. Hann kom og var á síðasta
fundinum, smyglaði sér inn,“ segir
Ómar og rekur upp aðra hláturgusu.
„Það var óskaplega góð stemning
í hópnum,“ bætir hann við þegar
hlátrinum sleppir. Það er greinilegt
að hann hugsar til þessa tíma með
gleði í hjarta.
Gæti flogið á forsetafrúnni
Það er við hæfi að spyrja pólitíkus-
inn og stjórnmálaáhugamanninn út
í það hvernig honum lítist á forseta-
frambjóðendurna. Hann viðurkenn-
ir að eiga eftir að kynna sér betur þá
einstaklinga sem hafa boðið sig fram.
„Forsetinn þarf að vera umboðs-
maður fæddra jafnt sem ófæddra,
því milljónir ófæddra Íslendinga eru
nefnilega stærsti minnihlutahópur-
inn á Íslandi. Forsetinn þarf einnig
að hafa bæði hugrekki og auðmýkt.
Hann eða hún þyrfti að hafa hug-
rekki til að leiða okkur saman, ferðast
með þjóðinni inn í nýjan veruleika
þessa heims. Hann þarf að hafa hug-
rekki til að segja okkur hvað er að
gerast. Og hann verður að hafa auð-
mýkt fyrir því sem er að koma, hafa
auðmýkt fyrir því að við séum ansi
smá en að við getum saman gert ansi
stóra hluti. Það er það sem ég er að
kalla eftir.“
Þá vonast Ómar til þess að stjórn-
arskráin komist í framkvæmd og sá
forseti sem verði kosinn í sumar geti
seinni hluta kjörtímabilsins unnið
eftir nýrri stjórnarskrá.
En velti hann því ekkert fyrir sér
af einhverri alvöru að bjóða sig fram
sjálfur? Hann skellihlær að spurn-
ingu blaðamanns, sem hlær honum
til samlætis. Enda ekki hægt annað
þegar Ómar byrjar að hlæja.
„Ég hef oft í lífinu sagt að ef ég sjái
eitthvert annað fólk sem getur gert
eitthvert verk jafnvel og ég eða betur
en ég held að ég geti gert það, þá vilji
ég frekar reyna að leita að einhverju
öðru þar sem ég get unnið eitthvert
verk sem enginn annar vill vinna eða
getur.
Það var einhver umræða um þetta
byrjun en ég veit að forsetaembættið
er þess eðlis að það myndi verða svo
krefjandi. Ég bara held ég hafi ekki
tíma, og myndi þá vera stopp með
allt það sem ég er að gera annað. Ég
vil klára það sem ég er í. Ég hef bara
gert grín að þessu,“ segir Ómar og
sveiflar snjáðu vasadagbókinni sem
hann hefur haft á milli handanna allt
viðtalið.
„Ég yrði eini forsetinn sem gæti
flogið á forsetafrúnni um allt land
og lent á heimreiðinni á Bessastöð-
um með leyfi forseta. Það væri mjög
„grand entrance“,“ segir Ómar og tek-
ur bakföll af hlátri. Með því að fljúga
forsetafrúnni á hann vissulega við
flugvélina sína góðu sem ber ein-
kennisstafina TF-FRU.
„Ef ég hefði boðið mig fram í þetta
embætti þá hefði ég viljað breyta
embættinu að stórum hluta í tákn-
rænt hlutverk í samræmi við naum-
hyggjunautnina sem ég tel að þurfi
að innleiða. Munum: „Smávinir fagr-
ir …“ og „… gætið að liljum vallarins“.“
Lífið er eins og 400 metra hlaup
Ómar sem telur sig ekki hafa tíma
fyrir forsetaembættið gerir sér jafn-
framt grein fyrir að á áttræðisaldri
er hann kominn í tímahrak með
mörg þau verkefni sem hann hefur
verið að vinna að. Hann viðurkennir
hreinskilinn að hann telji að sér end-
ist ekki ævin til að ljúka þeim öllum.
En hann sættir sig við það og er þakk-
látur fyrir lífið. Ef hann nær að klára
handritið að Örkinni, þá er hann
sáttur.
„Það var nú eitt af djókunum sem
komu upp þegar ég var með DAS-
fólkinu, að þegar maður er kominn
á áttræðisaldur þá fattar maður allt
í einu mikið spakmæli: þeim mun
lengur sem maður lifir, því meiri
líkur eru á að maður drepist,“ segir
Ómar og rekur upp roknahlátur. „Og
sömuleiðis: það er tvennt sem leng-
ir lífið, það er hláturinn og afmæli.
Því fleiri afmæli, því lengra líf. Við
suðum þetta saman, ég og Hjálmar
Jónsson dómkirkjuprestur.“ Blaða-
maður skýtur inn í að hann hljóti nú
verða 150 ára, að minnsta kosti. Enda
hlátur mildur með eindæmum, eins
og alþjóð veit. Auðvitað hlær hann
að því en verður svo örlítið alvarlegri.
„Eftir því sem maður lifir leng-
ur þá verður maður að verða við-
búnari því að fara og ég er nú bara í
óða önn að því. Svo verður nú bara
að ráðast hvernig fór,“ segir Ómar og
setur lífið upp í áhugaverða mynd-
líkingu. „Þetta er eins og að hlaupa
inn í þoku 400 metra hlaup. Maður
byrjar á einum stað og endar á sama
stað eins og lífinu, – „af moldu ertu
kominn, að moldu skaltu verða.“ Og
í þokunni geta komið grindur og þú
getur dottið og þú veist ekkert hve-
nær hlaupinu lýkur nákvæmlega. Þú
veist ekkert hvaða tíma þú færð fyrr
en þú ert kominn í mark, og hvort
hann var eitthvað betri eða lakari en
tími annarra. Ég sé þetta svona,“ út-
skýrir hann.
Sér um síðasta uppistandið
„Ég hljóp 400 metra hlaup hérna í
gamla daga og ég hafði svo mikla
nautn af því að enda aftur á sama
stað og ég byrjaði. Og svo var það
bara næsta 400 metra hlaup sem ég
held að sé hugsanlega til í dæminu.
Ekkert síður en hitt. Maður fer úr
þessu 400 metra hlaupi í annað sem
verður öðruvísi,“ segir Ómar sem úti-
lokar ekki líf eftir dauðann. Hann
verður fjarlægur á svip um stund og
veltir snjáðu vasadagbókinni sinni á
milli handanna. Svo tekur hann við
sér á nýjan leik.
„Ég er nýbúinn að syngja lag sem
heitir „Þar ríkir fegurðin“ við lagið
„The last farewell“ og ég ætla að
syngja það yfir sjálfum mér. Það er
tilbúið sko. Ég mun syngja þrjú lög
yfir sjálfum mér þegar ég fer. Það
verður fjörleg jarðarför,“ segir hann
hlæjandi. „Þá segja menn: jarðarfarir
eru alltaf „live“, en ég svara: neinei, af
hverju skyldi hún vera „live“ úr því að
„I‘m dead?““
Það er aldrei langt í grínið og hlát-
urinn hjá honum þrátt fyrir að um-
ræðan sé á alvarlegum nótum.
Ómar er vel undirbúinn, það er
ekki hægt að segja annað, og vill
sjálfur fá að sjá um síðasta uppstand-
ið. „Neinei, maður reynir bara að
standa sig sæmilega það sem eftir er.
Að hafa ánægju af hverjum degi sem
guð gefur manni.“
Þrátt fyrir að Ómar geri sér grein
fyrir þeirri staðreynd lífsins að það
styttist í marklínuna í 400 metra
hlaupinu hans, þá er hann enn í fullu
fjöri, 72 ára, og segist aldrei hafa haft
meira að gera.
„Maður verður að njóta þess sem
er að gerast, njóta hvers dags. Við
fáum ekki nema einn dag í einu, og
svo bara allt í einu ekki nema hálf-
an,“ segir Ómar kíminn. Hann tek-
ur í kjölfarið bakföll af hlátri og slær
vasadagbókinni í borðið. Með því
slær hann einnig lokatóninn í við-
talinu.
„Áður en við ætlum
að vaða áfram í
þessari ofurhyggjunautn
okkar þá þurfum við að
vita hvað við erum að
gera gagnvart því sem
framundan er.
Þekkt andlit Þó að Ómar hefði hæglega getað haft ágætis aukatekjur af því að auglýsa ýmiss konar vörur og þjónustu í gegnum tíðina tók
hann þá ákvörðun snemma að taka ekki þátt í auglýsingagerð.