Dagblaðið Vísir - DV - 29.12.2010, Side 60
60 | Lífsstíll 29. desember 2010 Áramótablað
30-50%
AFSLÁTTUR
AF ÖLLUM
VÖRUM
ÚTSALA
Áramót eru merk tímamót fyrir marga og
ekki óalgengt að þá líti fólk yfir farinn veg og
hugleiði hvað betur mátti fara á árinu sem er að
renna sitt skeið. Þá er líka upplagt að strengja
þess heit að gera betur á nýju ári, enda er nýtt
ár eins og óskrifað blað og gaman að sjá fyrir sér
fallega mynd á því óskrifaða blaði að ári.
Burtu með lestina
Algengustu áramótaheitin tengjast oftar en
ekki löstum sem fólk vill losa sig við, eins og að
hætta reykingum, drekka minna, éta minna
og hreyfa sig meira. Að rækta garðinn sinn
er mikilvægt og margir strengja þess heit að
sinna betur sínum nánustu, hitta vinina oftar,
heimsækja Tótu töntu að minnsta kosti tvisvar
á árinu og vera almennt betri við fólk.
Gera meira og eignast meira
Sumir ætla að standa sig betur í skólanum eða
vinnunni, aðrir ætla að eignast eitthvað nýtt
eins og hús, bíl, flott föt eða kærasta/kærustu.
Þá er líka til í dæminu að fólk strengi þess heit
að losna við gamla kærastann eða gömlu
kærustuna, verða frjálst, ferðast meira, leika
sér meira, njóta meira.
Gleymd heit
Áramótaheit eru þó þeirrar náttúru að
gleymast gjarnan strax í janúar. Sumir halda sín
heit lengur og einn og einn heldur út allt árið.
Hvort sem fólk hefur hugsað sér að strengja
áramótaheit eða ekki í ár, er sem fyrr segir
góður siður að líta yfir farinn veg og ákveða að
gera sitt besta á nýja árinu, vera hugsanlega
betri í dag en í gær.
Njótið hvers dags
Ef áramótaheitin klikka er ekkert við því að gera
og alveg bannað að rífa sig niður fyrir það. Hafa
bara hugfast að það er aldrei of seint að bæta
sig. Og mikilvægast af öllu er að njóta hvers
dags, því eins og segir í ljóðinu: Guð mun ráða
hvar við dönsum næstu jól.
Kyndla vora
hefjum hátt...
Margir huga að sínum innri manni um áramót og strengja áramótaheit:
Áramótaheit eins og
köngulóarvefur
Gerður Kristný skáld:
„Ég held ég hafi strengt eitt í fyrra, en man
ekki hvað það var. Ég hef ekki haft það fyrir
reglu að strengja áramótaheit og kannski
ætti ég ekkert að vera að því fyrst þau rista
svona grunnt. En maður veit aldrei. Kannski
í framtíðinni eiga áramótaheitin eftir að
strengjast yfir líf mitt eins og köngulóarvefur.“
Aldrei aftur fjórar
plötur í desember
Bragi Valdimar Skúlason, Baggalút:
„Sagði Guðmundur það, já? Hann hefur
reyndar ekki rétt fyrir sér í því. Ég er ekki
með neina lesti til að hætta, það er varla
hægt að vera betri en ég er nú þegar. Ef ég
hins vegar strengdi áramótaheit í ár yrði
það að gera ekki tilraun til að gefa út fjórar
plötur í desember á næsta ári.“
Aldrei
Barði Jóhannsson tónlistarmaður:
„Nei, ég hef aldrei gert það.“
Kaupi bara karton
Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri:
„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég hef verið að basla
við að hætta að reykja, en kaupi svo bara
karton í staðinn. Ég held það væri betra
að lofa engu, hætta bara í rólegheitum.
Áramót eru þó ákveðin tímamót í lífi hvers
og eins, fólk lítur yfir farinn veg og gerir
aðeins upp líf sitt. Mér finnst það tilheyra á
áramótum.“
Talaðu við Braga
Guðmundur Pálsson, Baggalút:
„Nei. Það hefur aldrei hvarflað að mér. Ég
er samt alltaf að reyna að bæta mig, en
dreifi því bara jafnt yfir árið. Talaðu við
Braga. Ég gæti best trúað að hann strengdi
áramótaheit.“
Strengir þú áramótaheit?
Var með eitt fyndið
Hugleikur Dagsson teiknari:
„Ég var með eitthvað rosalega fyndið
áramótaheit um daginn, sem hefði verið
skemmtilegt fyrir blaðið, en ég man það
ekki lengur. Það var samt rosalega fyndið.
Annars hef ég aldrei strengt áramótaheit,
datt bara þetta fyndna í hug í síðustu viku.
Nú er það því miður gleymt.“
Tannþráðarheitin klikka
Margrét Eir Hjartardóttir söngkona:
„Já, ég geri það, en tek þau ekki nógu
alvarlega. Ég er búin að vera með sama
áramótaheitið í nokkur ár, heiti því árlega
að nota meiri tannþráð. Þetta var til dæmis
ekki gott tannþráðarár svo ég verð að
strengja það eina ferðina enn. Líka að vera
skipulagðari. Það eru heitin í ár.“
Ætla að vera betri við
manninn minn
Marta María Jónasdóttir aðst. ritstjóri:
„Ég hef oft strengt áramótaheit og það
hefur gengið misvel að fylgja þeim eftir.
Mín áramótaheit stýrast yfirleitt af ofáti
jólanna þar sem ég hef legið í sykur- og
fitumarineringu. Áramótaheitið 2011 verður
að vera betri við eiginmanninn því hann gaf
mér svo veglega jólagjöf...“