Dagblaðið Vísir - DV - 29.12.2010, Blaðsíða 66
66 | Sport Umsjón: Tómas Þór Þórðarson tomas@dv.is 29. desember 2010 Áramótablað
Árið 2010 hófst frábærlega með bronsinu sem
strákarnir okkar lönduðu á Evrópumótinu í
handbolta í Austurríki. Árið 2010 var ekki það
viðburðaríkasta í sögunni en þó mátti margt
gott sjá og ýmislegt nýtt. Hér er stiklað á stóru
í íslenskum íþróttum á árinu sem er að líða.
Íslenskt íþróttalíf
2 10 AFREK ÁRSINS
Brons á EM
Strákarnir okkar stóðust pressuna heldur betur á Evrópumótinu í Austurríki en það var fyrsta stórmót liðsins eftir árangurinn á Ólympíuleik-
unum. Þrátt fyrir mótlæti í byrjun sáu strákarnir íslensku þjóðinni fyrir rafmagnaðri spennu og stórbrotnum tilþrifum á leið sinni að bronsinu.
Verða lengi í minnum hafðir varnartilburðir Alexanders Petersson í bronsleiknum gegn Póllandi.
Blikar eiga nú bikar
Það er af sem áður var þegar Blika áttu enga bikara. Hið unga, uppalda og stórskemmti-
lega lið Breiðabliks fylgdi eftir bikarmeistaratitli sínum frá árinu 2009 með Íslands-
meistaratitlinum í ár. Hafði það betur en FH á markatölu. Alfreð Finnbogason var kjörinn
besti leikmaður mótsins og hélt hann í atvinnumennsku til Lokeren í desember.
Þrír í röð
Aron Kristjánsson
kvaddi Haukana aftur
með látum í vor. Haukar
urðu Íslandsmeistarar
þriðja árið í röð, nú eftir
stórkostlegan oddaleik
að Ásvöllum sem
minnti á gömlu góðu
dagana. Haukar unnu
alla titlana sem í boði
voru á árinu og voru
án efa langbesta liðið.
Aron tók við þjálfun
Hannover-Burgdorf í
þýsku efstu deildinni
en Valdimar Fannar
Þórsson úr HK var
kjörinn besti leikmaður
N1-deildarinnar.
ÍSLANDSMEISTARAR ÁRSINS
Loksins kom að því hjá Snæfelli
Eftir langa bið tókst Snæfelli loksins að landa þeim stóra. Snæfell
varð Íslandsmeistari í körfubolta eftir ótrúlega úrslitakeppni þar
sem liðið átti aldrei heimavallarréttinn en vann alla leiki sína
á útivelli. Hafði Snæfell betur í úrslitarimmunni gegn Keflavík.
Snæfell vann alla titlana sem í boði voru en maður ársins var
Hlynur Bæringsson. Hann var kjörinn besti leikmaður deildarinnar,
mikilvægastur í úrslitarimmunni, besti varnarmaðurinn og var
valinn í úrvalslið ársins.
Alfreð Gíslason, Dagur Sigurðsson
og Guðmundur Þórður Guðmundsson
Þrír íslenskir handboltaþjálfarar hafa gert það afar gott á árinu. Alfreð Gíslason vann alla þá titla sem í boði voru í
Þýskalandi ásamt því að landa loksins Meistaradeildartitlinum með Kiel. Kiel er í þriðja sæti þýsku deildarinnar sem stendur.
Dagur Sigurðsson hóf árið með glans og gerði magnaða hluti með Austurríki á EM á heimavelli þess. Hann er nú með
Fusche Berlín óvænt í öðru sæti í sterkustu deild í heimi og er að stimpla sig inn sem besti ungi þjálfari heims. Guðmundur
Guðmundsson landaði bronsinu með Íslandi á EM og er nú með Rhein-Neckar Löwen í fjórða sæti þýsku deildarinnar og
kominn í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar.
ÞRÍR Á TOPPNUM
UPP OG NIÐUR
Árið hans
Gylfa
Knattspyrnumaðurinn
Gylfi Þór Sigurðsson átti
stórkostlegt ár. Hann
skoraði að vild með Reading
fyrri hluta árs í næstefstu
deildinni á Englandi. Hann
lék sína fyrstu A-landsleiki.
Var aðalmaðurinn í U21 árs
liðinu sem vann sér sæti
á EM. Gylfi var keyptur
til Hoffenheim í þýsku
úrvalsdeildinni á sjö milljónir
punda og er markahæsti
leikmaður liðsins í
vetrarfríinu þó hann hafi
aðeins byrjað inni á fjórum
sinnum. Það þyrfti ekki að
koma neinum á óvart yrði
Gylfi valinn íþróttamaður
ársins í byrjun janúar.
Fær ekkert að spila
Frægðarsól Eiðs Smára Guðjohnsen er svo sannarlega sest í bili. Eftir glatað gengi með Mónakó færði
Eiður sig um set til Stoke þar sem hann var strax skammaður fyrir að vera ekki í nægilega góðu formi.
Hann er enn sagður of þungur til að spila en hann hefur ekki spilað mínútu í síðustu níu leikjum Stoke.
Er hann kominn með nýtt viðurnefni: „Pudjohnsen“. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að fyrir aðeins
fjórum árum var Eiður að halda boltanum á lofti á Nou Camp þegar hann var kynntur til sögunnar sem
nýjasti leikmaður Barcelona.
FYRSTA SKIPTI
Ungir á EM
Í fyrsta sinn í sögunni verður Ísland í
lokakeppni Evrópumóts U21 árs landsliða
í knattspyrnu en hún fer fram næst í júní á
næsta ári í Danmörku. Íslenska U21 árs liðið
vann hug og hjörtu Íslendinga en 7.000 manns
sáu liðið leggja Skota að velli á Laugardalsvelli.
Aðeins átta þjóðir komast inn á lokakeppni EM
og er því afrek drengjanna ekkert lítið.
Blað brotið í sögunni
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta fór á stórmót í fyrsta skipti á árinu. Þær
komust inn á Evrópumótið sem haldið var í Danmörku og Noregi nú í desember. Við
ramman reip var að draga strax frá upphafi því ekki var riðilinn árennilegur. Svo fór að
stelpurnar töpuðu öllum leikjunum og áttu aldrei möguleika. Þær eru þó reynslunni
ríkari og stefna á að tryggja sér sæti á HM sem fer fram í Brasilíu á sama tíma að ári.