Húnavaka - 01.05.2013, Síða 141
H Ú N A V A K A 139
hann inn í skála er hann notaði sem geymslu fyrir amboð og fleira. Þar var
taðhlaði en gólf yfir í skemmunni í hæð Eiríks í risinu. Þar seildist Einar niður
í kistu og tók upp tólgarskjöld ásamt harðfiski og bauð honum að borða eins
og lystin leyfði. Eiríkur var með vasahníf eins og flestir í þá daga og ætlaði að
stinga utan úr tólginum en þá sagði Einar: „Bíttu heldur í tólginn en skera
hann, það kann að kvarnast út úr.“ Eiríkur hafði ekki vanist að bíta í nema það
sem hann borðaði. Einar gaf honum einnig stóran kandísmola. Þeir virtust
brúa vel aldursmuninn. Síðan hélt Einar áfram: „Auðvitað hefðir þú þurft að
fá eitthvað heitt að drekka, því það er komið frost úti en ég hef ekki kveikt upp
í hlóðunum í dag enda ekki svo kalt. Það var tímaeyðsla og best að spara taðið
svo það sé vel nóg handa mér. Það er betra að láta aðra fá í poka en vera að
biðja sjálfur um það, svo fær konan á hinum bænum ríflegan skammt þegar
hún bakar brauð fyrir mig.
Það kemur sér vel að eiga tölvert volga uppsprettu hér framan í árbakkanum
þó aðgangur að henni sé frekar erfiður, þar þvæ ég fötin mín og ullina af
kindunum. Mislitu ullina hef ég heima, kembi, spinn og hef hana í prjónles
sem sjómenn kaupa. Þetta er ekki fínn tóskapur en þeir kunna að meta að
þetta er sterkt og hlýtt. Í kyrru veðri að vetrinum, er ég stend hjá kindunum í
beitinni, get ég prjónað með því að hafa prjónana hálfgert upp í ermunum á
mussunni. Ég sé að þér mun, Eiki minn, búnast vel þegar þú ferð að hirða
skepnur og eignast þær. Ég sá til þín í réttinni þegar þú læddist á milli kindanna
eða stóðst kyrr að athuga mörk. Það er reynsla mín að kindur sem eru
óöruggar eða hræddar, þurfi meira fóður og þær verða ekki eins afurðamiklar.
Það er tölvert talað um hvað ég eigi gott og afurðamikið fé og ég er beðinn um
lambhrúta en það er lítið gagn af góðum erfðum ef fóður og umgengni er ekki
upp á það besta. Það er talinn besti kosturinn séu ærnar mjólkurlægnar. Það
er ekki búsvelta þar sem fært er frá vel fóðruðum ám. Ég á venjulega tvær til
þrjár ær í kvíaánum hjá hjónunum á hinu búinu. Þau láta mig fá ærmjólk í
tunnu til vetrarins en um sauðburðinn mjólka sumar ærnar mínar of mikið og
þá hef ég mjólk út á grautinn og draflaábrystir og álít að ég sé hraustari af
þessu og losni við vorslenið sem hrjáir svo marga. Ég gef kindunum mínum
nýja heyið frá sumrinu áður og geymi fyrningarnar áfram. Þær geymast
nokkuð vel undir torfinu og mér finnst öruggara að eiga eins til tveggja ára
fyrningar ef illa árar. Ég hef alltaf farið á sama tíma til kindanna í húsin enda
hafa þær glöggt tímaskyn og gef ég þeim að minnsta kosti eitt fang á garðann
áður en þær fara út til beitar á frosna jörð. Ég tala alltaf í vinalegum tón við
þær, hvar sem ég sé þær og samvistir við þær eru mín lífsfylling. Ég hef oft farið
til þeirra í beitinni, þá eru þær allra duglegastar að bíta og við förum ekki heim
fyrr en í myrkri ef veður er gott. Stundum leggst ég í hey í tóftardyrunum og
hlusta á ærnar éta og jórtra í ró og næði, þvílíkur friður. Ég mun eyða minni
heyjum en sumir þeir bændur sem ég hef heyrt af, fyrir stundvísi mína og
hlýlega umgengni.“
Öll þessi ræða var Eiríki sterk í minni í fyrstu af því hann var ómótaður
krakki og þetta hafði einhver áhrif á hann, því mörgum árum seinna kom upp
í huga hans setningin: „Bíttu heldur í tólginn en skera hann, það kann að