Lögmannablaðið - 01.12.2008, Side 19

Lögmannablaðið - 01.12.2008, Side 19
LÖGMANNABLAÐIÐ – 4 / 2008 > 19 Af Merði lögmanni Mörður er svona týpa sem nýtur sín best í kreppu þótt hann sé skuldugur og eignalaus eftir fjóra skilnaði og nokkur sambúðarslit. Mörður er nú kominn inn á leikvöllinn eins og gömlu kommarnir eftir 20 ár á bekknum. Þótt Mörður hafi aldrei gengið í raðir kommúnista var hann í gömlu Möðruvallarhreyfingunni með Óla grís. Nú finnst Merði gaman að vera kominn aftur í mótmælagöngur og veifa fána réttlætisins með gömlu kommunum sem spretta upp úr hverri holu um þessar mundir. Sumir aftur komnir með skegghýjung og hafa dustað rykið af gömlu flauelsbuxunum og pípunni. Mörður kastar þó ekki eggjum í nálæg hús enda aðhaldssamur og heldur sig aftarlega í hópi mótmælanda vegna þess að hann þolir illa piparúða. Tími Marðar er kominn. Hann ætlar að ganga til liðs við Vinstri-græna og verður þar með þriðji lögmaðurinn í þeim flokki. Þar eru flestir frekar kauðskir og afturhaldsamir og smellpassa því við útlit og hugmyndir Marðar. Eins og aðrir flokksfélagar er Mörður sérstaklega glaður yfir því að frjálshyggjan er dauð og að vera laus við þessa útrásardrengi sem græddu peninga á tá og fingri meðan hann og aðrir hæfileikaríkir menntamenn fóru á mis við góðærið. Gömlu ríkisbankarnir eru komnir aftur og nú þyrfti bara gömlu Bæjarútgerðina og SÍS til að fullkomna líf Marðar. „I love it,“ tautar Mörður reglulega þessa dagana í stað þess að ganga um þunglyndur eins og jólamánuði síðustu ára. Enda á hann ekki von á símtölum fyrrverandi eiginkvenna og barnsmæðra þar sem þær hneykslast yfir nísku hans í garð barna þeirra. Nú þykir jafnvel sjálfsagt að sleppa jólagjöfunum. Mörður telur að þjóðin þurfi langvarandi kreppu núna þó ekki væri nema til þess að bjarga andlegri heilsu hennar. Mörður man hvað allt var heilbrigðara þegar hann var að alast upp í sveitinni og þegar hann kom ungur til náms í Reykjavík. Engar tölvur, blogg, einkamál.is, msn eða sms eða hvað þetta heitir nú allt saman. Í þá daga þurfti að fara út á örkina til að ná í konur og hafa fyrir þessu. Mörður þurfti meira að segja hafa heldur meira fyrir því en flestir aðrir en var þrautseigur. Hann var til dæmis afskaplega duglegur að suða og hafði stundum á tilfinningunni að látið væri undan til að losna við suðið frekar en sérstakur áhugi væri fyrir hendi. Í dag myndi ákafi Marðar sennilega flokkast undir refsiverða háttsemi. Í gamla daga voru heldur ekki til stjörnulögmenn. Þá voru lögmenn bara flokkaðir eftir því hvort þeir voru íhaldsmenn, framsóknarmenn eða kommúnistar og hvort þeir voru fyllibyttur eða ekki. Íhaldsmenn og fyllibyttur voru öllu fjölmennari. Sem betur fer voru ekki til slúðurblöð í þá daga og menn gátu verið óþekkir án þess að öll þjóðin vissi það. Sennilega er Mörður orðinn afturhald og kommúnisti. Það er framtíðin. Þökk sé kreppunni.

x

Lögmannablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.