Lögmannablaðið - 01.06.2010, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.06.2010, Blaðsíða 4
4 < LÖGMANNABLAÐIÐ – 2 / 2010 Biblíusögurnar sem maður las sem barn höfðu þann góða kost að í þeim voru línur lagðar með skýrum hætti. Ekkert fór á milli mála um samhengi þess að breyta rétt og auðnast vel. Á síðustu vikum og mánuðum hefur ein dæmisaga komið mjög sterkt upp í hugann. Það er sagan um mennina tvo sem byggðu sitt húsið hvor við ána. Annar mannanna fór auðveldu leiðina, byggði húsið á sandeyri við ána, þangað sem auðvelt var að koma byggingarefninu. Hinn valdi húsi sínu stað á bjargi nokkru ofar en þangað þurfti að rogast með steina, timbur og annað sem nauðsynlegt var til að reisa húsið. Húsbygging þess fyrrnefnda gekk að vonum mun fljótar fyrir sig og fyrr en varði var hús hans risið. Bygging hússins á bjarginu gekk hægar fyrir sig en eftir mikið erfiði reis þar einnig hús. Lyktir þessarar sögu þekkja flestir. Nótt eina kom mikið hamfarahlaup í ána og sópaði burt húsinu á sandinum en heimilismenn komust af við illan leik. Húsið á bjarginu stóðst áhlaupið og þar var hægt skjóta skjólshúsi tímabundið yfir þá sem misst höfðu allt sitt í flóðinu. Börn jafnt sem fullorðnir hafa átt auðvelt með að skilja skilaboð sögunnar; það borgar sig að hafa traustar undirstöður, jafnvel þótt það kosti meira erfiði. Á sandi byggði heimskur maður hús, en á bjargi byggði hygginn maður hús. Á sama hátt og mennirnir tveir í þessari dæmisögu voru Íslendingar misjafnlega vel undir efnahagshrunið í október 2008 búnir. Margir höfðu kosið auðveldu leiðina í von um að skjótfenginn og auðveldan gróða. Aðrir kusu að fara að öllu með gát. Átti þetta jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Frá hruninu hafa hinir síðarnefndu í raun skotið skjólshúsi yfir hina. Þeir sem standa í skilum eru með því að fjármagna afskriftir annarra. Þeir sem borga nú aukinn tekjuskatt fjármagna aðstoð ríkisins við þá sem orðið hafa illa úti. Þannig hafa þeir sem byggðu húsið á bjargi skotið skjólshúsi yfir þá sem byggðu á sandi. En á Íslandi virðist dæmisagan ætla að taka óvæntan endi. Margt bendir nú til þess að þeir sem byggðu hús á bjargi þurfi að yfirgefa heimili sitt svo að íbúar hússins sem skolaði burt í flóðinu komist þar fyrir með sæmilegum hætti. Með því væri þá búið að klippa á samhengi þess að breyta rétt og að auðnast vel – og í raun snúa því við. Er þá illa fyrir okkur komið. Frá ritstjóra Borgar Þór Einarsson hdl. Hústaka á bjargi Athugasemd Pólitísk ritstjóragrein Lögmannablaðsins í 1. tölublaði 2010 Ég get ekki orða bundist yfir ritstjóragrein Borgars Þórs Einarssonar. Ritstjórinn birtir þar pólitískar skoðanir sínar, sem ég vænti að lögmenn séu mér sammála um að ekki eigi heima í blaðinu. Vilhjálmur Þórhallsson, hrl. Athugasemd frá ritstjóra: Í ritstjórnarpistlinum sem vitnað er til var engin afstaða tekin til þess hvort Ísland eigi að vera aðili að Evrópusambandinu eða ekki. Hvort pólitísk afstaða felist í því að gagnrýna að takmörkuðum kröftum ríkisvaldsins skuli varið í umsókn að sambandinu á sama tíma og grunnþættir réttarríkisins eru í hálfgerðu fjársvelti skal öðrum látið eftir að dæma.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.