Lögmannablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.06.2012, Blaðsíða 4
4 lögmannablaðið tbl 02/12 Árni HelGAson HDl. leiðAri pólitísk uppgjör eiga ekki heima í dómssölum Landsdómur kvað í apríl s.l. upp sinn fyrsta dóm frá því hann var settur á laggirnar með lögum árið 1963. Þótt það sé merkilegur viðburður að dómstóllinn hafi komið saman í fyrsta skipti og kveðið upp dóm féll nokkur skuggi á þau tímamót í ljósi aðdraganda og uppruna málsins sem fyrir dóminum lá. við undirbúning og meðferð málsins reyndi á ákvæði laga um ráðherraábyrgð, sem sett voru fyrir nærri fimmtíu árum. Þau stóðust að mörgu leyti illa tímans tönn hvað varðar málsmeðferð og undirbúning ákæru og sjálfsagt þætti óeðlilegt ef t.d. ákærur í almennum sakamálum byggðu á jafn gömlum lagaramma. Ekki bætti úr skák að endanleg ákvörðun um útgáfu ákæru var í höndum stjórn­ málamanna sem margir hverjir kusu eftir flokkslínum, þar sem afstaðan mótaðist af því hvort viðkomandi var samherji eða andstæðingur. Ýmsir þeirra, sem gerðu grein fyrir atkvæði sínu á þingi á sínum tíma, sögðust byggja á að málshöfðunin væri nauðsynleg til að uppgjör á efnahagshruninu gæti farið fram. Það segir sig sjálft hversu heppilegur grundvöllur að ákæru slík sjónarmið eru, þótt enginn skortur virðist vera á stjórnmálamönnum sem nota slíkan rökstuðning fyrir ólíklegustu tillögum um þessar mundir. nú þegar dómur Landsdóms liggur fyrir er fróðlegt að rifja upp þennan aðdraganda málsins, þau rök sem málshöfðunin byggði á og bera saman við niðurstöðuna. í dómnum var sýknað af þeim ákærum sem sneru að vanrækslu í aðdraganda efnahagshrunsins eða þeim vísað frá en eftir stóð að sakfellt var fyrir að mál voru ekki sett á dagskrá ríkisstjórnarfunda. dómurinn lýsir þessu broti með þeim orðum að „ekki hefði komið til sakfellingar í málinu hefði ákærði gætt að því einu að taka þessi málefni upp innan ríkisstjórnarinnar“. Þegar upp var staðið hafði uppgjörið við efnahagshrunið því tekið nokkra joðsótt þar sem sakfellt var fyrir ákveðið atriði í tengslum við ríkisstjórnarfundi, sem hefur verið útfært með sama hætti í tíð annarra stjórna. Þetta er ekki síst umhugsunarefni í ljósi þeirra radda sem nú eru á kreiki um að endurtaka eigi ferlið og kalla Landsdóm saman eftir næstu kosningar til að rétta yfir núverandi ráðherrum vegna tiltekinna mála. ráðamenn hverju sinni verða vissulega að bera ábyrgð á athöfnum sínum. Það gera þeir með pólitískri ábyrgð en einnig geta komið upp þau tilvik að ráðherra hafi gerst brotlegur við lög í starfi sínu. slík mál ber vitaskuld að rannsaka eftir almennum reglum en reynslan sýnir okkur að núverandi fyrirkomulag um að alþingi gefi út ákæru er óheppilegt og fjarri sjónarmiðum um réttláta málsmeðferð og mannréttindavernd. með því að nýtt þing tæki ákvörðun um að endurtaka ferlið, sem var gagnrýnt svo réttilega á sínum tíma, væri búið að festa í sessi þá hefð að stjórnmálamenn beindu pólitísku uppgjöri inn á vettvang dómstólanna í kjölfar kosninga. Það yrði ljótur blettur á íslensku réttarkerfi. í þessu tölublaði Lögmannablaðsins er nokkuð ítarleg umfjöllun um dóm Landsdóms, m.a. umfjöllun um málstofu Lagastofnunar um dóminn auk þess sem blaðið leitaði álits nokkurra lögmanna á dómnum. Þá er einnig umfjöllun um nýafstaðinn aðalfund Lögmannafélagsins, sem var í senn afar fjölmennur og vel heppnaður. Á þriðja hundrað félagsmenn kusu á milli tveggja frambærilegra fram­ bjóðenda til formanns og fór svo að Jónas Þór Guðmundsson náði kjöri. Lögmannablaðið óskar Jónasi Þór og stjórn félagsins til hamingju með kosninguna ásamt því að þakka fráfarandi formanni, Brynjari níelssyni, fyrir vel unnin störf við að halda merkjum félagsins á lofti undanfarin ár.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.