Són - 01.01.2011, Page 130
130 KRISTJÁN EIRÍKSSON
auðga með því mál sitt og gefa löndum sínum kost á að kynnast helstu
verkum útlendum í búningi eigin máls. Vitaskuld eiga tungur stór -
þjóðanna (kínverska, enska, spænska, franska, ítalska, þýska og svo
framvegis) hvað mest úrval af slíkum þýddum bókmenntum, fyrir nú
utan þau snilldarverk sem orðið hafa til á þeim tungum. Margar
smærri þjóðir eiga líka fjöldann allan af góðum þýðingum og þar á
meðal Íslendingar. Hygg ég að ýmsar stærri þjóðir þættust nokkuð
góðar ef þær ættu viðlíka mikið þýtt af ljóðum og Íslendingar. – En
það hlýtur einnig að vera flestum þjóðum, ekki síst smáþjóðum, keppi -
kefli að sem mest sé þýtt af bókmenntum þeirra á aðrar tungur.
Esperantistar gerðu sér vitaskuld frá upphafi ljóst að mikilvægt væri
að þýða á málið ýmis bókmenntaverk af þjóðtungunum, bæði til að
reyna á kosti og færni hins nýja miðils og til að auðga það að hug -
myndum og menningu sem flestra þjóða jarðarkringlunnar.
Íslenskir esperantistar byrjuðu nokkuð snemma að þýða íslenskar
bókmenntir á alþjóðamálið og urðu lausamálsverk að vonum fyrir -
ferðarmest enda yfirleitt talin auðveldari viðfangs en ljóð. Einstaka
þýð ingar íslenskra ljóða birtust þó þegar í árdaga hreyfingarinnar á
Íslandi og munu þýðingar Sigurðar Kristófers Péturssonar á „Bára
blá“ eftir Magnús Grímsson, „Heyrið vella á heiðum hveri“ eftir Grím
Thomsen og „Svanasöngur á heiði“, ‚Eg reið um sumaraftan einn‘ eftir
Steingrím Thorsteinsson vera fyrstar slíkra þýðinga sem birtust á
prenti en þær eru allar í Kennslubók í Esperanto eftir Þorstein Þorsteins -
son sem út kom 1909. Þá birtist þýðing Sigurðar Kristófers á „Bí, bí
og blaka“ í Islanda Esperantisto 1931.
Þar sem fyrstu þýðingar íslenskra ljóða á Esperanto eru nú því sem
næst aldar gamlar þykir hæfa að rekja hér í stórum dráttum hvað áunn -
ist hefur síðan á því sviði í tímariti sem helgað er óðfræði. — Fyrst
verður í stuttu máli gerð grein fyrir helstu þýðingum íslenskra ljóða á
Esperanto og megineinkennum þýðinga á þá tungu og fjallað lítillega
um gildi slíkra þýðinga fyrir þýðingar á önnur mál. Síðan verður birt -
ur nokkuð nákvæmur listi yfir öll þau ljóð íslensk sem greinarhöfundi
er kunnugt um að þýdd hafi verið á Esperanto.
Úr Eddukvæðum hafa eftirfarandi kvæði birst í heild á esperanto:
Völuspá, Þrymskviða, Guðrúnarhvöt, Guðrúnarkviða hin fyrsta, Atla -
kviða (öll í þýðingu Baldurs Ragnarssonar), Völuspá í Islandaj pravo¤oj,
sem út kom 1964, en hin í þýðingartímaritinu La Tradukisto. Þá hafa
hlutar úr Hávamálum, bæði í þýðingu Erlings A. Haugen og Baldurs
Ragnarssonar, verið prentaðir í tímaritinu Norda Prismo og einnig hluti
af Helgakviðu Hundingsbana II í þýðingu Baldurs.