Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Page 54
52
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
var 97,5%. Skráðir nemendur í námskeiðunum
fjórtán voru 569 (Nemendaskrá Háskóla
Íslands, 2006) og 9.471 nemandi stundaði nám
við Háskóla Íslands þegar gagnasöfnun fór
fram (Háskóli Íslands, 2007).
Úrtak ráðþega.
Einnig var tekið úrtak ráðþega úr hópi rúmlega
350 einstaklinga sem leituðu ráðgjafar við val á
námi og starfi í Náms- og starfsráðgjöf Háskóla
Íslands (NSHÍ) veturinn 2006-2007. Voru 153
einstaklingar úr þessum hópi beðnir um að
svara CTI-listanum ásamt fjórum fullyrðingum
um ástæður komu á sérhönnuðum skimunarlista
þar sem spurt var hvort viðkomandi leitaði til
NSHÍ vegna vanda sem tengdist náms- og
starfsvali. Alls sögðust 93 þeirra eiga í slíkum
vanda og mynduðu þeir úrtak ráðþega. Þar
af voru 58 konur (64%) og 33 karlar (36%)
en tveir gáfu ekki upp kyn. Ráðþegar voru á
aldrinum 19 til 54 ára, meðalaldur var 24,8 ár
(sf = 6,4 ár). Þriðjungur ráðþega voru skráðir
nemendur við Háskóla Íslands (34%), tæplega
helmingur þeirra (46%) var ekki í námi og
jafnmargir voru í framhaldsskóla (10%) og
öðrum skólum (10%).
Matstæki
CTI-spurningalistinn metur hamlandi hugsanir
einstaklings sem tengjast ákvörðun um nám eða
starf. Listinn samanstendur af 48 fullyrðingum,
svo sem Ég veit ekki af hverju ég get ekki
fundið námsgrein eða starf sem vekur áhuga
minn og Skoðanir mínar á störfum breytast
iðulega, sem svarað er með því að merkja við á
fjögurra punkta kvarða frá Mjög ósammála = 0,
Ósammála = 1, Sammála = 2 og Mjög sammála
= 3. Gefin er heildareinkunn fyrir kvarðann
og er honum einnig skipt í þrjá undirkvarða,
Ringulreið (DMC), Skuldbindingarkvíða (CA)
og Togstreitu (EC). Niðurstöður svara eru
lagðar saman innan hvers kvarða og fyrir
listann í heild, hærri niðurstöðutala er til
marks um meiri hamlandi hugsanir (Sampson
o.fl., 1996b). Fyrsti undirkvarðinn, ringulreið,
endurspeglar erfiðleika einstaklings við að
hefja ákvarðanatökuferlið eða halda því
gangandi. Hann samanstendur af fjórtán
atriðum, t.d. Ég hef ekki áhuga á neinni
sérstakri námsgrein eða starfi og Ég er svo
ráðvillt/ur. Ég mun aldrei geta valið námsgrein
eða starf. Skuldbindingarkvíði vísar til ótta
eða kvíða sem fylgir erfiðleikum við að koma
ákvörðun um nám eða starf í framkvæmd.
Hann samanstendur af tíu atriðum, t.d. Það
er erfiðast að sætta sig við að þurfa að
velja aðeins eina námsgrein eða eitt starf og
Skoðanir mínar á störfum breytast iðulega.
Þriðji kvarðinn, togstreita, sem inniheldur fimm
atriði, endurspeglar erfiðleika einstaklings við
að halda jafnvægi (e. balancing) á milli eigin
skoðana og annarra á upplýsingum um hann
sjálfan og störf. Þegar svo er getur viðkomandi
orðið tregur til að taka ábyrgð á ákvörðunum
sínum. Atriði eins og Skoðanir þeirra sem
standa mér næst hafa truflandi áhrif á mig
þegar ég stend frammi fyrir því að þurfa að
velja mér nám eða starf falla undir togstreitu.
Framkvæmd
Við þýðingu CTI-listans var stuðst við
leiðbeiningar um þýðingar á erlendum
matstækjum (Ægisdóttir, Gerstein og Çinarbas,
2008). Þrír náms- og starfsráðgjafar, þar af
tveir tvítyngdir, þýddu CTI-listann hver
fyrir sig og úr þeim þýðingum var mynduð
ein þýðing sem sérfræðingur í náms- og
starfsráðgjöf yfirfór. Þýðingin var lesin yfir
af íslenskufræðingi og lögð fyrir rýnihóp sem
samanstóð af fjórum stúdentum á fyrsta ári
í háskólanámi. Í framhaldi af frumprófun og
lagfæringum á henni var íslenska þýðingin send
í bakþýðingu til bandarísks háskólakennara
sem búsettur er á Íslandi og er sérfræðingur á
sviði enskukennslu. Bakþýðingin og íslenska
þýðingin voru sendar til útgefanda prófsins,
Psychological Assessment Resources (PAR)
með ósk um leyfi til að nota íslensku útgáfuna
á CTI í rannsókninni. Höfundar CTI-listans
gerðu nokkrar athugasemdir við þýðingar á
einstöku orðum en þau mál voru leyst í samráði
við þá. Að fengnu samþykki höfunda var hafist
handa við gagnasöfnun.
Gagnasöfnun í úrtaki almennra stúdenta
María Dóra Björnsdóttir, Sif Einarsdóttir og Jónína Kárdal