Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2008, Side 83
81
Tímarit um menntarannsóknir, 5. árgangur 2008
Aðferð
Þátttakendur
Í heildarúrtakinu úr Reykjavík og af
landsbyggðinni voru 147 leikskólakennarar.
Svör bárust frá 130 einstaklingum sem er
rúmlega 88% svörun. Af þeim 130 sem svöruðu
listanum voru 62 (47,7%) af höfuðborgar-
svæðinu og 68 (53,3%) af landsbyggðinni. Af
þeim sem svöruðu spurningum um starfsaldur
hafði tæpur helmingur eða 63 (49,2%) starfað
10 ár eða skemur sem leikskólakennari og
65 (50,8%) höfðu starfað lengur en 10 ár.
Menntun leikskólakennaranna var eftirfarandi:
Meirihlutinn eða 72 (55,4%) hafði lokið prófi
frá Fósturskóla Íslands en 46 (35,7%) voru
með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands.
Aðrir höfðu hlotið menntun sína erlendis og í
öðrum skólum. Af þeim sem höfðu starfað 10
ár eða skemur voru 64,5% með B.Ed. gráðu
frá Kennara háskóla Íslands og 12,7% með próf
frá Fósturskóla Íslands. Í hópnum með lengri
starfsaldur en 10 ár voru 95,5% með próf frá
Fósturskóla Íslands.
Spurningalisti
Rannsóknin hófst vorið 2006 er tekin
voru hálfopin viðtöl við þrettán starfandi
leikskólakennara í Reykjavík um samstarf
þeirra við foreldra. Hvert viðtal tók um
það bil eina klukkustund. Viðtölin voru
hljóðrituð og greind. Að greiningu lokinni
voru skoðaðir sérstaklega þeir þættir sem lutu
að ráðgjöf og stuðningi við foreldra. Helstu
þættir sem þá komu fram voru eftirfarandi:
1) Ráðgjöf við foreldra er umtalsverð í starfi
leikskólakennara og má skipta henni í þrjú
meginsvið, þ.e. um aga, þroska og uppeldi
almennt. 2) Leikskólakennarar telja foreldra
eiga í auknum erfiðleikum með aga á börnum
og að tímaskortur sé meiri hjá foreldrum en
áður. 3) Leikskólakennararnir höfðu trú á eigin
fagþekkingu til að veita ráðgjöf en gerðu sér
jafnframt grein fyrir því að þeir þyrftu að setja
sér mörk.
Á grundvelli þessara þátta var saminn
spurningalisti þar sem kannaðir voru nánar þeir
þættir sem komu fram í greiningu viðtalanna.
Viðtölin voru þannig nýtt sem forrannsókn,
en það töldu höfundar nauðsynlegt þar sem
lítið var til um rannsóknir á þessu sviði hér
á landi. Spurningalistinn samanstóð af 37
atriðum. Spurningarnar voru lokaðar og með
mismörgum svarmöguleikum.
Byrjað var á að kanna umfang ráðgjafar með
því að spyrja hvort þátttakendur teldu ráðgjöf
til foreldra vera hluta af starfi sínu, hvort þeir
teldu ráðgjöf hafa aukist á síðustu árum og þá
hvers vegna. Spurt var um algengi ráðgjafar,
hversu oft leikskólakennararnir teldu foreldra
leita ráðgjafar á sviði uppeldis, aga og þroska
og einnig hversu oft kennararnir og leikskólinn
hefðu frumkvæði að ráðgjöf á þessum sviðum.
Spurt var hvort leitað væri eftir ráðgjöf í
öðrum málum en þeim sem snertu börnin,
hvort þátttakendur álitu það hluta af starfi sínu
að ráðleggja foreldrum um persónuleg mál og
hvort þeir teldu sig þurfa að setja sér mörk í
þeim efnum.
Til að kanna viðhorf þátttakenda til
fagþekkingar sinnar voru þeir spurðir hvort
þeir litu á sig sem sérfræðinga á sviði uppeldis
og menntunar ungra barna, hvort þeir teldu
foreldra vera sama sinnis og hvort þeir teldu fólk
hafa meiri trú á fagþekkingu leikskólakennara
nú en áður.
Þátttakendur voru spurðir um viðhorf til
agavandamála og tímaskorts hjá foreldrum,
hvort þeir teldu agavandamál hafa aukist og
hvort þeir teldu foreldra eiga erfiðara með
að setja börnum sínum mörk en áður. Þá
var spurt hvort leikskólakennarar fyndu
fyrir auknum tímaskorti foreldra og hvort
þeir teldu foreldra hafa of lítinn tíma til
samskipta við leikskólakennara. Auk þessa
voru bakgrunnsbreyturnar aldur, starfsaldur og
menntun þátttakenda kannaðar.
Framkvæmd
Spurningalistinn var lagður fyrir í tveimur
áföngum. Vorið 2006 var hann lagður fyrir 63
leikskólakennara í Reykjavík. Leikskólarnir
voru valdir af lista yfir leikskóla Reykjavíkur
sem voru skráðir í stafrófsröð á heimasíðu
Þáttur ráðgjafar í samstarfi leikskólakennara og foreldra