Málfregnir - 01.12.2001, Qupperneq 39
landshluta. Athugið að ekki gáfu allir nem-
endur upplýsingar um menntun foreldra
sinna og þessar niðurstöður byggja því á
heldur færri nemendum en aðrar niðurstöður
okkar, eða á 1547 nemendum í stað 1695.
Eins og sést í töflunni hefur menntun
móður (og föður reyndar líka þó að við
birtum ekki þær niðurstöður hér) áhrif á
notkun þessarar nýju setningagerðar hjá
unglingum. Þessi munur, sem er tölfræðilega
marktækur, felst í því að hlutfall unglinga,
sem samþykkja hina nýju setningagerð, er
lægra eftir því sem menntun foreldra verður
meiri. Þannig er t.d. hlutfall jákvæðra svara
lægst í hverjum landshluta fyrir móður sem
lokið hefur námi á háskólastigi. Sem sagt:
niðurstöður okkar sýna að eftir því sem for-
eldrar hafa meiri menntun því minni er
notkun hinnar nýju setningagerðar hjá böm-
um þeirra. Svipaður munur eftir menntun
foreldra kom fram í rannsókn Astu Svavars-
dóttur (1982) á þágufallssýki hjá 11 ára ung-
lingum. Þessar tvær rannsóknir benda því til
að þróunin hérlendis sé sú sama og víða
erlendis þar sem mállýskur eru nú frekar háð-
ar félagslegum þáttum, eins og stétt manna og
menntun, en landfræðilegri búsetu.
I þessu sambandi er vert að hafa í huga
þann mun sem kom fram á hlutfalli jákvæðra
svara hjá unglingum sem ganga í skóla á
Reykjavíkursvæðinu vestan Elliðaáa og
norðan Fossvogs og unglinga annars staðar
á landinu (sjá töfluna í 11). Reykjavíkur-
svæðið vestan Elliðaáa skar sig greinilega úr
og þar samþykkti um helmingi lægra hlutfall
nemenda setningar með hinni nýju setninga-
gerð en annars staðar á landinu. I skýrslu,
sem þróunarsvið Reykjavíkurborgar fékk
Félagsvísindastofnun Háskóla Islands til að
taka saman og kynnt var í Morgunblaðinu í
febrúar 2001, kemur m.a. fram að á svæðinu,
sem hér um ræðir, Reykjavíkursvæðinu vest-
an Elliðaáa, býr hlutfallslega fleira háskóla-
menntað fólk en annars staðar á landinu. Það
er því hægt að láta sér detta í hug að sú
niðurstaða rannsóknar okkar, að unglingar,
sem ganga í skóla á þessu svæði, dæma setn-
ingar með hinni nýju setningagerð um helm-
ingi sjaldnar tækar en unglingar annars staðar
á landinu, tengist því að á þessu svæði er
menntun foreldra hlutfallslega mest. Þegar
taflan í (15) er skoðuð nánar sést þó að mennt-
un foreldra segir ekki alla söguna þar sem
hlutfall jákvæðra svara er mikið lægra hjá öll-
um hópunum á Reykjavíkursvæðinu vestan
Elliðaáa en annars staðar á landinu, sama
hvaða menntun móðir hefur. Þannig er t.d.
hlutfall jákvæðra svara aðeins 33% hjá ung-
lingum á Reykjavíkursvæðinu vestan Elliðaáa
sem eiga móður sem lokið hefur gagnfræða-
prófi eða skyldunámi en samsvarandi hlutfall
er á bilinu 53-73% annars staðar á landinu.
Það er því ljóst að eitthvað fleira en menntun
foreldra hefur áhrif á þann mun sem kemur
fram á hlutfalli jákvæðra svara hjá unglingum
sem ganga í skóla á þessum hluta Reykjavík-
ursvæðisins og annars staðar á landinu. Hér
verðurekkert fullyrt um af hverju þessi munur
stafar en e.t.v. tengist hann námsárangri nem-
enda og hæfni þeirra til að taka próf. Meðal
þeirra skóla, sem farið var í á Reykjavíkur-
svæðinu vestan Elliðaáa, voru t.d. þeir skólar
sem hlutu hæstu meðaleinkunn á samræmdum
prófum vorið 2000 (sbr. Námsmatsstofnun).
Það virðist því ekki fráleit hugmynd að sá
munur, sem kemur fram á þessu svæði og
öðrum á landinu, tengist námsárangri nem-
enda. I þessu sambandi er þó rétt að hafa í
huga að niðurstöður rannsóknar okkar á þess-
ari nýju setningagerð í mismunandi setninga-
fræðilegu umhverfi benda til að þessi mál-
breyting hafi hafist úti á landi og sé lengra
komin þar en í Reykjavík (sjá lokaorð og Sig-
ríði Sigurjónsdóttur og Joan Maling, væntan-
legt). Þannig er e.t.v. eðlilegt að hlutfall
jákvæðra svara sé heldur lægra í Reykjavík en
úti á landi þó sá munur, sem fram kemur, sé
töluvert meiri en búast mátti við.
5.2 Hvenær verður þessarar nýju setn-
ingagerðar fyrst vart?
Niðurstöður rannsóknar okkar sýna að nýja
setningagerðin er algeng í máli bama og
unglinga í dag. Flestir fullorðnir samþykkja
39