Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Page 7
Gunnlaugur A. Jónsson
Inngangsorð
Ákvörðun Hins íslenska Biblíufélags um að ráðast í nýja þýðingu Gamla
testamentisins og hinna apókrýfu bóka og sú ákvörðun ríkisstjómarinnar
að leggja sitt af mörkum til þess að ný útgáfa Biblíunnar megi sjá dagsins
ljós á eitt þúsund ára afmæli kristnitökunnar kallar á umræðu um
biblíuþýðingar. Guðfræðistofnun vill með þessu hefti, sem helgað er
biblíuþýðingum, stuðla að því að slík umræða hefjist.
Það er sérstaklega vel við hæfi að málefni biblíuþýðinga skuli tekin á
dagskrá í Ritröð Guðfræðistofnunar nú, því að í ár em liðin 450 ár frá
því að Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar var prentað fyrst íslenskra
bóka og 175 ár frá stofnun Hins íslenska Biblíufélags. Tilefnin til að fjalla
um biblíuþýðingar í ár eru því ærin, en guðfræðideild og Guðfræði-
stofnun hljóta ætíð að láta sig þýðingar heilagra riminga miklu varða.
Saga biblíuþýðinganna er hluti af menningarsögu sérhverrar kristinnar
þjóðar, og þær eiga sér einnig langa sögu meðal okkar íslendinga. Orð
helgra ritninga hafa verið flutt Islendingum í margs konar búningi,
tignarlegum eða töturlegum og flestum gerðum þar á milli. Lýsa
mismunandi textar, sem til em af Biblíunni, vel viðhorfum manna til
máls og stíls á hverjum tíma, eins og dr. Guðrún Kvaran bendir á í grein
sinni. En meðan Guðs orð er boðað á íslandi munu íslenskir
guðfræðingar og málfræðingar leggja metnað sinn í að orðið sé flutt í
þeim búningi sem því sæmir.
Eðlilegt er að sú spuming vakni hjá mörgum hvers vegna þörf sé á
nýrri biblíuþýðingu. Greinamar í þessu hefti munu flestar eða jafnvel
allar, hver á sinn hátt, veita svar við þeirri spumingu. Aldrei getur orðið
um endanlega þýðingu að ræða. Það sem öðm fremur verður ljóst við
könnun á sögu íslenskra biblíuþýðinga er að biblíuþýðingar fymast og
úreldast.
Eins og Jón Sveinbjömsson prófessor bendir á í grein sinni í þessu
hefti þá vekur það athygli, þegar litið er á sögu íslenskra biblíuþýðinga,
að það em ekki síður íslenskufræðingar og bókmenntamenn en prestar og
guðfræðingar sem fjallað hafa um biblíuþýðingamar. Höfundalistinn í
þessu hefti ber því ánægjulegt vitni að svo er enn. Hér verður í örstuttu
máli getið efnis þessa heftis.
Sr. Ámi Bergur Sigurbjömsson fjallar um hinar svokölluðu apókrýfu
bækur Gamla testamentisins og rekur ástæður þess að þær hafa ekki verið
nema í sumum af íslensku biblíuútgáfunum og færir rök fyrir því að
hefja beri þær til vegs að nýju í íslensku Biblíunni.
5