Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Page 59
Gunnlaugur A. Jónsson
Þýðingarstarf Haralds Níelssonar og
upphaf „biblíugagnrýni6t á Islandi
Réttilega hefur verið bent á að enginn íslendingur hafi þýtt stærri hluta
Biblíunnar en Haraldur Níelsson.1 Hann vann að þýðingu sinni á árunum
1897-1907 og þýddi langstærstan hluta Gamla testamentisins. Þýðing hans
var unnin á miklu umbrotaskeiði í íslensku kirkjulífi. Ný gagnrýnin
viðhorf til rannsókna Biblíunnar voru að ryðja sér braut á þessum árum,
og hafði Jón Helgason (1866-1942), prestaskólakennari, öðrum fremur
kynnt þessi nýju sjónarmið hér á landi. Þýðingarstarfið varð til þess að
Haraldur aðhylltist smám saman hin nýju og gagnrýnu viðhorf til
ritningarinnar, og gerðist hann stuðningsmaður Jóns í baráttunni fyrir
framgangi þeirra, en áður hafði raunar verið svo náin vinátta með þeim
Jóni og Haraldi að líkja mætti við fóstbræðralag. Deilumar um þessa
„nýju“ guðfræði urðu mjög harðar hér á landi, eins og víðast hvar
erlendis. Það kom enda á daginn, að þýðing Haralds fékk mjög misjafnar
viðtökur, og virðist sem afstaða manna til þýðingar hans hafi ekki síst
farið eftir því hvar í flokki þeir stóðu í afstöðunni til biblíugagn-
rýninnar.2 Sumir lofsungu þýðingu Haralds en aðrir kölluðu hana „heiðnu
Biblíuna" og kærðu þýðinguna til Breska og erlenda biblíufélagsins, sem
kostaði útgáfuna.
Aðdragandi þýðingarinnar
Á fundi Hins íslenska biblíufélags 10. ágúst 1887 var tekin sú ákvörðun
að hefja endurskoðun Biblíunnar eins fljótt og því yrði við komið.
1 Steingrímur J. Þorsteinsson, „íslenzkar biblíuþýðingar.“ Víðförli 4/1950, s. 82.
2 Það er engan veginn sjálfgefið að nota hugtakið biblíugagnrýni yfir þau nýju viðhorf
sem vom kynnt hér á landi í lok síðustu aldar. Orðið gagnrýni er varasamt að því leyti
að það getur auðveldlega boðið heim þeim skilningi að átt sé við það að gagnrýna
neikvætt. Talsmenn þeirra nýju viðhorfa sem hér er átt við töluðu frekar um
vísindalegar biblíurannsóknir. Sumir hverjir töluðu þó einfaldlega um biblíukrítik.
Hugtakið biblíugagnrýni hefur hins vegar nánast áunnið sér hefð meðal guðfræðinga
hér á landi. Af þeim sökum er því haldið hér. En jafnffamt skal undirstrikað að í því
felst enginn gildisdómur um þá afstöðu sem þama var boðuð gagnvart biblíunni. Með
hugtakinu biblíugagnrýni er hér einfaldlega átt við það sem á útlendum málum er
kallað .Jiistorical criticism of the Bible“, „historisk-kritísk bibelsyn“, „bibelkritik" eða
hliðstæðum heitum á öðmm tungumálum. í því felst sú afstaða til Biblíunnar að hana
beri að rannsaka sem hverja aðra sögulega heimild með öllum tiltækum
bókmenntafræðilegum og sagnfræðilegum rannsóknaraðferðum.
57