Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Síða 177
Svavar Sigmundsson
Samanburður á Nýja testamentinu
1813. og 18272
Eftir að Hið íslenska Biblíufélag var stofnað árið 1815 hóf það
undirbúning að því að gefa út Biblíuna alla endurskoðaða. Komið hafði
fram óánægja með þýðingu Biblíunnar í útgáfunum 1807 og 1813 og
Hannes Finnsson biskup hafði unnið talsvert að samanburði og
leiðréttingum á þýðingum í hinum ýmsu útgáfum hennar.1 2 3 Sumt af því
efni a.m.k. er í Lbs. 5 fol. Nýja testamentið kom út í tveimur hlutum, árin
1825 og 1827. í þessari útgáfu „var ýmis ónákvæmni færð til réttara horfs
og bætt um marga málbresti, en endurskoðunin engan veginn algjör“ eins
og Steingrímur J. Þorsteinsson orðaði það.4 Endurskoðunin hófst í síðasta
lagi 1818 og er nokkum veginn vitað hverjir stóðu að henni. Geir Vídalín
biskup vann að samstofna guðspjöllunum. Hann segir í bréfi til Bjama
Þorsteinssonar 6. okt. 1817 á þessa leið:
Nú á eg, þegar skip þetta er farið og eg er búinn að koma því frá mér, sem safnazt
hefur að í sumar, að fara að rétta reiðinginn á útleggingu Nýja-Testamentisins. Tel
eg vandaverk að rata þar sundið milli skers og báru. Merkilegt sýnist mér það, að
meðan aðrar þjóðir eru svo viðkvæmar, að þær eru á veginum að ganga af
göflunum, ef nokkru er breytt í þeim siðvanalegu útleggingum Biblíunnar, þá
krefjast margir, sem í Biblíufélagið ganga hér, annaðhvort nýrrar eður forbetraðrar
útleggingar.5
f bréfi til sama viðtakanda frá 6. mars 1818 hefur hann þetta að segja um
verkið:
Dálítið hef eg verið að fást við Testamentið í hjáverkum, og er eg nú kominn langt á
leið með fyrsta consept til þeirra þriggja Guðspjalla, en enn nú allt ókarað. Get eg
til, að þetta komi aldrei fyrir almennings augu, eða ekki fyrr en eg er dauður, og er
það vel, því margur mun verða, sem þessi útlegging ekki dámar sem bezt.6
1 Biblia, þad er Aull heilaug Ritning útlaugd á Islendsku og prentud Epter þeirri
Kaupmannahaufnsku Útgáfu MDCCXLVII. Kaupmannahaufn 1813.
2 Hid Nýa Testamenti Drottins vors Jesú Krists, ad nýu útlagt ad tilhlutun ens
íslendska Biblíu-Félags. Videyar Klaustri 1827.
3 Sbr. Magnús Már Lárusson: Viðauki við Ágrip af sögu íslenzku Biblíunnar. Pr. í
Ferðabók Ebenezers Hendersons. Rvk. 1957, 431.
4 Steingrímur J. Þorsteinsson: „Islenzkar biblíuþýðingar.” Víðforli 1950, 74.
5 Geir biskup góði í vinarbréfum 1790-1823. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar.
íslenzk sendibréf VII. Rvk. 1966, 154-155.
6 Samarit, 165.
175