Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Page 212
Þórir Óskarsson
bókmenntastíl sem einkennir elstu trúarrit okkar, einkum þau sem talin
eru rituð á 12. öld og fyrsta hluta þeirrar þrettándu. Þennan stíl hafa
sumir fræðimenn reyndar tengt „lágum málshætti" kirkjunnar (sermo
humilis).
Þegar hugað er að beinum tengslum Odds við fomar norrænar
bókmenntir kemur í ljós að þau takmarkast við Jóns sögu baptista II sem
Grímur prestur Hólmsteinsson setti saman á ofanverðri 13. öld. Víða
verða þessir textar nánast samhljóða á löngum köflum, og taldi Jón
Helgason að þau tengsl stöfiiðu af því að Oddur hefði beinlínis þekkt Jóns
sögu.17 Ian J. Kirby hefur hins vegar nýlega sett fram rök fyrir því að
þeir Grímur og Oddur hafi báðir stuðst við glataða norræna þýðingu
guðspjallanna, ef til vill frá 12. öld.18 Þessi kenning Kirbys fær nokkum
stuðning af þeirri staðreynd að málnotkun í Jóns sögu virðist yfirleitt
einfaldari og alþýðlegri í beinum tilvísunum í Nýja testamentið en í
almennum frásagnarköflum og hugleiðingum höfundar. Þar kemur hins
vegar víða fram það afbrigði lærðs stíls sem stundum er nefnt „skrúðstíll“
(florissant stil).
En hvemig sem tengslum Odds við Jóns sögu baptista hefur verið
háttað sýna þau vel að hann hefur verið alls ósmeykur að sækja sér
fyrirmyndir í „pápískar dröslur“ þegar því var að skipta. Hér verður
birtur stuttur kafli úr Jóns sögu og þýðingu Odds þar sem lýst er boðun
Jóhannesar skírara (Lk 1:13-17):
Jóns saga baptista:
Elísabet, eiginkona þín, mun þér son fæða, og muntu nefna hann Johannem. Af
þessu muntu fagna og gleðjast, og margir munu fagna á hans burðartíð. Hann mun
mikill vera fyrir guði og drekka eigi vín né áfenginn drykk, og ,þegar frá
móðurkviði mun hann vera fullur af helgum anda, og marga af sonum íraels mun
hann snúa til guðs sjálfra þeirra, og hann mun fyrir honum fara í krafti og anda
Helíe, ... (Post:853)
Nýja testamenti Odds:
Elísabet, eiginkona þín, mun þér son fæða, og hann skalt þú Jóhannes að nafni
kalla. Og það mun þér fögnuður og gleði, og margir munu fagna af hans burðartíð,
því að hann mun verða mikill fyrir Guði. Vin og áfengan drykk mun hann eigi
drekka, og þegar frá móðurkviði mun hann uppfylltur verða af helgum anda. Og
marga af sonum íraels mun hann snúa til Guðs, Drottins sjálfra þeirra. Og hann
mun fyrir honum fara í anda og krafti Elíe,... (117)
Þegar stíll þessa og annarra sambærilegra kafla ritanna tveggja er
skoðaður sést að málfar Odds stendur oft nær lærðri ritvenju en tíðkast í
Jóns sögu. Nefna má að Oddur hneigist meir að nafnorðastíl en Grímur
og því að setja sagnir aftast í setningar en eignarfallseinkunnir fyrir
framan þau orð sem þau standa með. Vegna óljósra tengsla ritanna verður
hins vegar engin bein ályktun dregin af þessu um stílvilja Odds. Þar
verður fremur að styðjast við aðra þætti.
17 Jón Helgason 1929, s. 193 o.áfr.
18 Ian J. Kirby 1986, s. 101.
210