Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Page 236
Þórir Kr. Þórðarson
því miður ekki rúm að lýsa þeim fræðilegu kenningum og þeim nytjum
sem hafa má af fjölda dæma í bók þeirra, en athygli vekur að sumir
lærðir málfræðingar og málsnillingar fá þar fremur lága einkunn.
En hvað er þá þessi skilningur og þessi útlegging sem vísað var til? Er
ekki nóg að skilja tungumálið sem þýtt er af og hafa móðurmál sitt á valdi
sínu eins og hver annar? Er þörf einhvers frekar?
Ef einhver skyldi halda að hann eða hún hafi skilið texta þegar lokið er
málfræðilegri (morfológískri) og setningarfræðilegri greiningu hans og
að engrar útleggingar sé þörf, hana geti hver og einn framkvæmt eftir
geðþótta sínum, er hollt að kynna sér hvað einn fremsti heimspekingur
samtímans á sviði heimspeki tungumálsins, Hans-Georg Gadamer, hefur
að segja um þýðingar. Rit hans Sannleikur og aðferð er eitt merkasta
heimspekirit vorra daga.
Gadamer tekur líkingu af samtali. Ef tveir ræðast við og ljúka upp
sjálfsvitund sinni, birtist eitthvað nýtt sem hvorugur hefur upphugsað.
Skilningur (Verstehen) nefnist viðleitnin til þess að ná utan um þetta
eitthvað, koma auga á merkingu þess. Sá atburður er málfarslegur, hann
er á sviði tungumálsins. Tungumálið er sá vettvangur þar sem þessar tvær
persónur í samtali mætast og túlkunarfræðin leitast við að skilja merkingu
þess sem sagt er. Gadamer skrifar:
Þær aðstæður eru til þar sem skilningurinn (Verstándigung) truflast og reynist sérlega
erfiður. Það er einkum við sHkar aðstæður sem það verður ljóst hvaða skilyrði þarf að
uppfylla til þess að hægt sé að skilja. Þegar tveir tala saman hvor á sínu tungumáli
verður hið málfarslega sérlega fýsilegt til fróðleiks, þar sem samtalið byggist þá á
þýðingu eða yfirfærslu. Þýðandinn verður þá að yfirfæra þá merkingu (Sinn), sem á
að skdljast, til þeirra aðstæðna sem hinn aðilinn býr við. Auðvitað merkir þetta ekki það
að hann sé ftjáls að falsa þá merkingu sem hinn hafði í huga. Þvert á móti þarf hann að
halda sér við merkinguna. En hann verður að tjá hana á nýjan veg, þar sem hún þarf að
skiljast í öðru málfarsumhverfi. Þess vegna er sérhver þýðing um leið útlegging
(leturbr. mín). Segja má að hún sé fullnun þeirrar útleggingar sem þýðandinn hverju
sinni beitir þau orð sem hann hefur tekið til þýðingar.36
Við þýðingu myndast ávallt gjá eða fjarlægð (Abstand) milli þess sem sagt
er í einhverja ákveðna veru og hins sem tjáð er í þýðingunni (sbr. það
sem sagt var hér að ofan um fjarlægðina). Þessa gjá er ætíð erfítt að brúa.
Þar, sem skilningur ríkir, þar er ekki þýtt, heldur talað. Að skilja framandi tungumál
merkir það að þurfa ekki að þýða á eigin tungu. Ef einhver hefur erlent tungumál
fullkomlega á valdi sínu þarf hann engrar þýðingar við, já þar verður þýðing
óframkvæmanleg. . . [Sbr. það sem haft var eftír Walter Benjamin hér að ofan um
interlinearþýtSingar. Innskot mitt.] Sá sem skilur tiltekið tungumál lifir í því, — og
það á jafnt við um dauð mál sem lifandi. Hið túlkunarfræðilega (hermeneutíska)
vandamál á ekki við um þann sem talar á því tungumáli sem hann hefur á valdi sínu.
Það á aðeins við um að skilja það sem miðlað er fyrir milligöngu tungumálsins.
Tungumál má læra til þeirrar fullkomnunar að maður hugsi á hinu framandi máli og
þurfi ekki lengur að þýða á móðurmál sitt eða af því. . . Þetta verkefni verður
túlkunarfræðilegt þegar um er'að ræða skilning á textum (skáletrun Gadamers).. og
36 Hans-Georg Gadamer, Wahrheit und Methode: Grundzúge einer philosophischen
Hermeneutik. Tubingen: J.C.B. Mohr (Paul Siebeck), 1975, s. 361-362.
234