Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 102
SKAGFIRÐINGABÓK
hans og gekk vonum betur að ná honum upp á skörina, en ekki
var hann fyrr korninn úr hættu, en skörin brast undir mér og ég
féll í sömu vökina, sem ég var rétt búinn að bjarga Ragnari upp
úr. Eg reyndi að vega mig upp á ísbrúnina, en hún þoldi ekki
þunga minn og brotnaði alltaf. Ekki fann ég fyrir neinum botni,
en á floti gat ég haldið mér, þar sem ég kunni dálítið að synda.
Nú er komið að þætti Þorleifs í þessu máli, hann sá að hér gat
verið hætta á ferðum og því betra að fara að öllu með gát. Hann
greip nú til þess ráðs að taka af sér langan trefil, sem hann hafði
um hálsinn. Lagðist hann nú skammt frá ísbrúninni og tókst að
slöngva til mín trefilsendanum. Ég greip hann fegins hendi.
Þorleifur sagði mér að liggja sem láréttastur í vatninu og synda
með fótunum. Enginn teljandi ótti greip mig þarna í vökinni,
þótt ekki væri beint skemmtilegt að sjá eldiviðarpokann hverfa
undir skörina. Smám saman tókst Þorleifi að draga mig upp á
brúnina og bjarga mér frá þessum lífsháska. Kuldahrollur var í
okkur Ragnari, og þegar heim kom vorum við drifnir niður í
rúm, og varð okkur ekki meint af volkinu. A eftir varð mér
hugsað til þess, hvernig hefði farið, ef við Ragnar hefðum verið
einir á ferð í þetta skipti. Það er stundum eins og einhver guðs-
mildi sé yfir öllu.
íslenzkunám
Gísli var frábær íslenzkumaður og landskunnur fyrir blaðaskrif
sín. Hann gaf mér kost á að gera stíla, og tók ég því fegins hendi,
því að ég var þegar farinn að skrifa talsvert, til dæmis dagbækur
og sendibréf. Oft skrifaðist ég á við fimm til sjö í einu. Einvörð-
ungu valdi ég stelpur til að skrifast á við, komst í samband við
þær í gegnum auglýsingar í Æskunni. Venjulega fiskaði ég
mynd af þeim út á bréfin, en sá þær yfirleitt aldrei. Eg reyndi að
velja skemmtilegt efni til að skrifa um og hafði stílana gjarnan
mjög langa. Gísli las þá svo upphátt, því alltaf voru Ragnar og
synir hans, þeir eldri er heima voru, viðstaddir, er hann leiðrétti
100