Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 212
SKAGFIRÐINGABÓK
góðum sið. Fólkið drakk strax með móðurmjólkinni inn í sig
virðingu fyrir orði guðs og tilbeiðslu- og bænarhug til hans.
Barninu voru kennd alls konar bænavers og látið hafa þau yfir
kvöld og morgna. Ef einhver af heimilinu fór í ferðalag, þó eigi
væri nema til næsta bæjar, bað sá sem fór, stutta bæn í bæjardyr-
um eða á hlaðinu, signdi sig og krossaði áður en hann gekk á
stað. Þessar stundir, sem einstaklingar, heimilisfólkið í samein-
ingu og söfnuðurinn í kirkjunni átti með guði sínum og frelsara
Jesú Kristi voru þögular, kyrrlátar og helgar stundir. Yfir þeim
hvíldi friður guðs og helgi, og mátti ekkert verða til þess að
raska þeirri ró og þeim heilagleik. Eg býst við, að menn á aldur
við mig muni og minnist þessara unaðsstunda. Eg man þær og
hef átt þær og á enn á hverjum degi viðtal við guð minn og frels-
ara í einrúmi. Því miður er eg að segja frá því sem var, en ekki
frá því, sem er nú. Nú er komin alger breyting á þessu sviði.
Fólkið er hætt að sækja kirkjur. Flúslestrarbækur og Passíu-
sálmar liggja mygluð í einhverju skúmaskoti, flestum gleymd.
Menn ganga í hugsunarleysi fram hjá öllu þessu og virða að
vettugi guðshús og hans heilaga orð. Allar þær lífsreglur, öll þau
boð og öll þau heilræði, sem við eldra fólkið sóttum í heilaga
ritningu og hefir um aldir verið þangað sótt, þykja nú einskis
nýt. Eg er orðinn gamall „sem á grönum má sjá“. Eg ólst upp
við gamla siðinn og held honum enn. Eg hefi alla mína ævidaga
haft guð með í störfum mínum til sjós og lands, enda hefir allt
mér að óskum gengið í lífinu. Eg hefi orðið svo tilfinnanlega var
handleiðslu vors himneska föður, að eg hlýt að vitna um það:
Tunga mín af hjarta hljóði,
helgan leyndardóm um þann,
líkam Krists og blessað blóðið,
bót sem öllum heimi vann.
Konung þjóða, þá hins góða,
það á krossi úr æðum rann.
210