Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 162
SKAGFIRÐINGABÓK
tengdaföður sinn.8 Þar fer fyrst ræða sú, sem Árni Helgason
dómkirkjuprestur í Reykjavík flutti við jarðarförina í Viðey 22.
desember 1817. Því næst grafskriftin og loks hnyttið erfiljóð
um Vigfús eftir síra Jón Þorláksson á Bægisá, alls 10 erindi.9
Kvæðið heitir: „Islenzk öfugnefni, hugleidd í fáorðri burtfar-
arminníngu, ens lofsverða landshöfðíngja, sáluga sýslumanns,
Vigfúsar Schevings.“ Þar segir m.a.:
Háöldruð loks af heimi gekk
hetja sú öllum mönnum þekk;
því Góð-fús en ei Víg-fús var,
sá viðurnefni Schevings bar.
Af þessari litlu athugun má sjá, að áletranir á legsteinum
þurfa ekki að vera samhljóða hinum prentuðu grafskriftum.
Því er nokkurs um vert, að legsteinaáletranir séu skrifaðar upp
og þeim komið á prent, áður en þær fara veg allrar veraldar.
Lokaorð
Áletrunin á legsteini Vigfúsar Scevings nær á köflum flugi
fornyrðislags, enda ber sá bragarháttur með sér ákveðinn
virðuleika, sem hæfir vel bautasteinum. Til að sýna hvað slíkar
grafskriftir eiga sér fornar rætur, má birta hér áletrun af rúna-
steini (bautasteini) frá Smálöndum í Svíþjóð.10 Steinninn er frá
lokum víkingaaldar og er einn fjölmargra, sem varðveittir eru.
8 Rœða, haldin við líkkistu fyrrum Sýslumanns í Hegraness Þíngi, Vigfúsa
Schevings, við jarðarför hans að Viðey, þann 22ann Decembr. 1817, af Hra.
Árna Helgasyni, Dómkirkjupresti til Reykjavíkur. (Beitistöðum 1819), 24
bls.
9 Sjá einnig Jón Þorláksson: Islenzk Ijóðabók II (Kmh. 1843), bls. 274-6.
10 Sven B.F. Jansson: Runinskrifter i Sverige (2. útg. Uppsölum 1977), bls.
138.
160