Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 119
SKAGFIRSKIR HÓRKARLAR OG BARNSMÆÐUR ÞEIRRA
hjónabandsins, auk þess sem Tómas hefði sýnt henni fyllstu
umhyggjusemi alla tíð. Loks taldi amtmaður ástæðulaust að
rengja þau orð sóknarprests, að Tómas væri hinn vænsti maður.
Fyrir vikið mælti Kansellí með því við konung, að Tómas
fengi leyfi til að ganga að eiga Guðrúnu, og konungur undirrit-
aði úrskurð þar að lútandi 14. maí 1819, aðeins ári eftir fæðingu
barnsins. Kansellí skrifaði amtmanni 3. ágúst, en póstskipið var
óvenju seint á ferð og amtmaður fékk leyfið fyrst í hendur hálfu
ári síðar, 1. febrúar 1820. Þegar hann sendi Tómasi tilkynningu
um að mega leysa út leyfið kom á daginn, að séra Jón Konráðs-
son hafði gefið þau Guðrúnu saman í október árið áður. Amt-
maður leitaði ráða hjá Kansellíi í skyndingu. Það bað um álit
Geirs Vídalíns biskups, sem svaraði vorið 1821. Þannig lá í
málum, að sumarið 1819 fékk Tómas að vita, að hann þyrfti
ekki að borga hórdómssektina. Séra Jón spurði biskup hvort
óhætt væri að gefa hjónaleysin saman þó leyfið væri ekki
komið. Það taldi biskup víst vegna þess að varla væri við öðru
að búast en að það yrði veitt. Fyrir vikið fór vígslan fram 2. okt-
óber. Vorið eftir borgaði Tómas leyfisgjaldið. Amtmaður sendi
féð til Kaupmannahafnar og baðst afsökunar á seinagangi, sem
einvörðungu væri vegna samgönguörðugleika. Kansellí tók það
til greina og ákvað að beita ekki ákvæðum, sem leyfðu tvöföld-
un leyfisgjalds ef það var ekki greitt innan árs frá útgáfu
bréfsins.12
12 Annað dæmi um veikindi konu er umsókn Jóns Hrólfssonar í Hrúthúsum
í Fljótum 1. júní 1821. Hann sótti um að fá að eiga Guðrúnu Gísladóttur,
sem hann eignaðist barn með hálfum mánuði áður en eiginkona hans Guð-
rún Magnúsdóttir lést. Eiginkonan hafði verið holdsveik og rúmföst í mörg
ár og við skírn síðasta barns þeirra hafði séra Jón Jónsson sóknarprestur
þeirra bannað honum „allt holdlegt samræði" með henni. Hún hafði líka
mælst til þess að Jón sækti um til konungs að fá að kvænast Guðrúnu Gísla-
dóttur þó hún væri sjálf á lífi. Prestur, hreppstjóri og amtmaður mæltu með
umsókninni, og Jón fékk leyfið án tafar. Konungur skrifaði undir 7.
nóvember sama ár. Sjá ÞI. Kansellískjöl 93: 1. júní 1821.
117