Dagblaðið Vísir - DV - 04.11.2014, Side 26
Vikublað 4.–6. nóvember 201426 Sport
Brasilíska undrið Ganso á
barmi þess að gleymast
n Átti að verða hinn brasilíski Zidane n Neymar og Ganso voru framtíð Brasilíu
U
ngur að árum skaust hann
fram á sjónarsviðið með
hæfileika sem heilluðu
fljótt útsendara stærstu liða
Evrópu. Paulo Henrique
Ganso átti að verða næsta stórstjarna
Brasilíu og í félagi við Neymar var
litið til hans sem bjargvættar brasil-
íska landsliðsins. Neymar og Ganso
voru vonarstjörnur Santos í heima-
landinu, þangað sem Ganso kom
sem 16 ára piltur.
Þeim félögum var líkt við ofur-
hetjurnar Batman og Robin en á
meðan Neymar kleif hærra upp á
stjörnuhimininn, og var á endan-
um keyptur til stórliðs Barcelona
fyrir gríðarháa fjárhæð, sat Ganso
eftir og ferillinn staðnaði. Margir fót-
boltaunnendur hafa því spurt sig,
þegar þeir sjá einstaka myndbrot af
glæsilegum tilþrifum hans á netinu;
hvað varð um Ganso og hvar er hann
nú?
Hinn brasilíski Zidane
Í HM-fárinu í Brasilíu í vor var mikið
skrafað og skrifað í þarlendum fjöl-
miðlum um hverja landsliðsþjálfar-
inn Luiz Felipe Scolari myndi velja
í liðið sem átti að vinna keppnina á
heimavelli. Eitt nafn var þó áberandi
fjarverandi í öllum þeim vangavelt-
um, Paulo Henrique Ganso. Undra-
barnið sem nokkrum árum áður
hafði verið líkt við sjálfan Zinedi-
ne Zidane, meðal annars af Neym-
ar sem naut góðs af þjónustu Ganso
um árabil hjá Santos. Líkindin voru
til staðar. Yfirvegun á bolta, yfirsýn,
útsjónarsemi og einstök sendingar-
geta Ganso minnti um margt á hinn
franska snilling. Ganso var ekki
einu sinni í umræðunni fyrir mótið
og sem fyrr beindist kastljósið að
Neymar.
Umdeild ákvörðun
Aðeins fjórum árum áður hafði það
vakið hörð viðbrögð og gríðarlega
reiði þegar Dunga ákvað að velja
Ganso ekki í landsliðshóp Brasilíu
fyrir HM 2010 í S-Afríku. Aðrir sýndu
því skilning þar sem hann var aðeins
tvítugur þá og álitinn vel geymdur
gimsteinn fyrir framtíðina.
Í dag er Ganso 25 ára og
hefur leikið með Sao Paulo
í heimalandinu síðan 2012
eftir að hafa verið seldur frá
Santos við litla hrifningu
stuðningsmanna. Menn bíða
enn eftir því að hann uppfylli
væntingarnar sem til hans
voru gerðar og blómstri í
þann heimsklassaleikmann
sem menn vita að hann hef-
ur að geyma.
Ganso er nú eldri en
margir aðrir Brasilíumenn
sem haldið hafa í víking til
Evrópu og freistað gæfunn-
ar í bestu deildum heims.
Ekkert lið þar um slóðir
hefur enn tekið sénsinn á
brasilíska undrinu sem nú
er á barmi þess að gleymast
í heimalandinu.
Nýtti ekki sénsinn
Eitt af því sem hefur hindrað bæði
framgöngu Ganso og félagslið í
Evrópu í að taka áhættuna á að
kaupa hann er hversu óheppinn
hann hefur verið með meiðsli. Í
nokkur skipti hefur hann meiðst illa
og verið frá svo mánuðum skiptir.
En eftir að Dunga hafði litið fram
hjá honum árið 2010 ákvað eftir-
maður hans í starfi, Mano Menezes,
að hlusta á stuðningsmenn og velja
hann í Copa America-keppnina í
Argentínu árið 2011. Þetta átti að
vera hans augnablik, fyrsta skref-
ið í átt að því að gera tíuna,
sókndjörfu leikstjórnandastöð-
una að sinni næsta áratuginn hjá
Brasilíumönnum. En Ganso, líkt
og liðsfélagar hans, runnu á rass-
gatið í keppninni. Ganso náði sér
aldrei á strik og liðið féll út í fjórð-
ungsúrslitum eftir vítaspyrnu-
keppni gegn Paragvæ.
Ári síðar var hann valinn í
Ólympíulið Brasilíu en þá var
annar ungur leikmaður, Oscar,
farinn að narta í hælana á hon-
um í sömu stöðu. Svo fór að Osc-
ar var valinn fram yfir Ganso í úr-
slitaleik keppninnar og Chelsea
keypti nýrstirnið síðar um sum-
arið. Þrátt fyrir að vera sjálfur að-
eins 22 ára virtist ferillinn kominn
í bakkgír hjá Ganso.
Átök og úthýst frá Santos
Hlutirnir skánuðu ekki þegar Ganso
varð ósáttur við forráðamenn Santos
um haustið. Sagan segir að hann hafi
verið fúll með samningstilboð félags-
ins, allt fór í háaloft og á endanum
varð óumflýjanlegt að selja Ganso.
Bak við tjöldin var einnig barátta
meðal fjársterkra kaupsýslumanna
um eignarhlut í Ganso. Áður höfðu
Manchester-liðin City og United sýnt
honum áhuga auk annarra stórliða
en á þessum tíma var hann sterklega
orðaður við AC Milan. Niðurstaðan
varð loks, á grundvelli ósættis, slakr-
ar frammistöðu og plagandi hné-
meiðsla, að Ganso var seldur til Sao
Paulo fyrir upphæð sem nemur rúm-
um 1,2 milljörðum íslenskra króna.
Síðastliðin tvö ár með Sao Paulo
hafa hins vegar verið vonbrigði fyrir
Ganso sem hefur á þeim tíma skorað
7 mörk í deildinni heima undir stjórn
hins virta þjálfara Muricy Ramal-
ho. Sao Paulo stefndi í fall á síðasta
ári en náði fyrir rest að bjarga sér og
endaði í þægilegri stöðu fyrir miðja
deild. Ramalho er eignaður heiður-
inn að því.
Á brattann að sækja
Í ár hefur Sao Paulo leikið vonum
framar, með framherjana Alexandre
Pato og Luis Fabiano í broddi fylkingar.
Liðið er í öðru sæti brasilísku deildar-
innar með 56 stig eftir 31 leik, fimm
stigum á eftir toppliðinu Cruzeiro.
Ganso hefur leikið heldur minna en
undanfarin ár og var um tíma gert að
leika með varaliðinu fyrir að gagnrýna
leikaðferð liðsins opinberlega.
Hann hefur þó verið að fá leiki
undanfarið og sýnt athyglisverð
tilþrif. En hann er dottinn út af
heimskortinu, á langt í land með að
komast í landsliðið á ný og við það að
falla í gleymsku meðal knattspyrnu-
áhugamanna sem höfðu heyrt og
séð svo lofandi hluti frá honum sem
leikmanni. Það er ljóst að það er á
brattann að sækja hjá þessum leikna
Brassa ef hann á ekki að týnast innan
um unga og hæfileikaríka landa sína
í brasilísku deildinni. Hann yrði ekki
sá fyrsti. n
„Undrabarnið sem
nokkrum árum
áður hafði verið líkt við
sjálfan Zinedine Zidane.
Sigurður Mikael Jónsson
mikael@dv.is
Batman og Robin Santos-tvíeykið
Neymar og Ganso áttu að vera framtíð
brasilíska landsliðsins og næstu stórstjörnur
knattspyrnuþjóðarinnar. Það hefur
aðeins ræst hjá öðrum þeirra.
Nýtti ekki sénsinn Ganso fékk tækifærið hjá Mano
Menezes sem valdi hann í landsliðið fyrir Copa America-
keppnina í Argentínu árið 2011. Þetta átti að vera hans
augnablik, en hann og liðið ollu vonbrigðum. MyNd ReUteRS
Stjarnan sem
aldrei varð? Miklar
vonir voru bundnar
við Ganso en hlutirnir
hafa ekki gengið sem
skyldi hjá þessum
hæfileikaríka leik-
manni. MyNd ReUteRS